Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi ritstjóri, er genginn til liðs við Samfylkinguna. Þetta tilkynnir hann í færslu á Facebook-síðu sinni nú í morgunsárið
„Ég hef ákveðið að taka þátt í skipulögðu stjórnmálastarfi í fyrsta sinn á ævi minni og skrá mig í Samfylkinguna. Ég tel, eftir töluverða yfirlegu og fjölmörg samtöl, að þar sé að finna þá pólitík sem mér hugnast best og fer saman við þær áherslur sem ég vil sjá að séu ráðandi í samfélaginu. Nú er tíminn til að knýja fram réttlátar breytingar á Íslandi og Samfylkingin, sem hefur opnast og breikkað með innkomu og undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, er að mínu mati aflið til að leiða þá vegferð. Ég vil taka þátt í því stóra verkefni af fullum krafti og leggja mitt lóð á vogaskálarnar fyrir betra samfélagi,“ skrifar Þórður Snær.
Hann hafi í tæpa tvo áratugi unnið við það að greina hvað sé að og í ljósi þess að hann sé ekki starfandi blaðamaður þá langar honum að taka þátt í að búa til lausnir.
„Ég hef þegar tekið að mér, frá og með komandi mánaðamótum, ákveðin verkefni tengd stefnumótun fyrir flokkinn. Samhliða hef ég tilkynnt stjórnendum Morgunvaktarinnar á Rás 1 að ég sé hættur að greina efnahagsmál og samfélag á þeim vettvangi, en það hef ég gert óslitið síðan í byrjun árs 2019. Greiningin á þriðjudag var því sú síðasta. Það passar ekki saman, að mínu viti, að taka þátt í skipulögðu flokksstarfi og sinna því hlutverki. Frábærum stjórnendum og öllum sem hafa hlustað þakka ég samfylgdina í næstum sex ár.“
Hann muni þó enn gefa út fréttabréfið Kjarnyrt sem hann heitir að skrifin verði áfram sanngjörn, vel undirbyggð, greinandi, heiðarleg og gagnrýnin en líka lausnamiðuð.