fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Að sitja á strák sínum er góð skemmtun

Eyjan
Föstudaginn 27. september 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvern dag sem okkur er gefinn gefst okkur kostur á að velja leið til að takast á við það sem höndum ber. Ætlum við að mæta deginum eins og andstæðingi eða getum við gert daginn að vingjarnlegum samferðamanni?

Afstaða okkar sjálfra er aðalatriði. Ætla ég að láta allt sem fyrir verður setja mig út af laginu, taka frá mér dýrmæta athygli og tíma í annað þarfara og kalla fram mínar verstu hvatvísu hliðar eða ætla ég að reyna að hemja og takmarka viðbrögð mín við því sem drífur á dag minn?

Allt sem fyrir ber kallar fram einhvers konar viðbrögð innra með okkur en viðbragðið sjálft er hægt að temja, ef maður vill freista þess að halda einhverskonar jafnvægi á tilfinningum sínum.

Ég var mikil óhemja þegar ég var yngri. Hvatvís með endemum, alltaf fljót að sjá eftir ef ég hljóp á mig en töluvert seinni til að biðjast afsökunar. Seigt er stoltið og það vill ógjarnan gefa eftir.

Fyrstu merki þess að ég hefði yfirleitt lært eitthvað í lífinu voru þegar mér tókst að verða fljótari til að biðjast afsökunar ef af hvatvísi ég hafði með gassaskap gert eitthvað, sagt eitthvað sem ég skildi að hafði verið sjálfri mér eða öðrum til ama.

Viðbrögð mín frá degi til dags lýsa vel mínu innra lífi og eru mér mælikvarði. Alla þá daga sem mér tekst að láta ekki allt mögulegt og ómögulegt ræna athygli minni eða setja mig út af laginu, finnst mér ég hafa unnið persónulegan sigur. Það þýðir ekki að ég hætti að láta mig allt varða en þegar mér tekst að bregðast ekki við af hvatvísi er ég sáttari, fyrir nú utan hvað mér líður þá mikið betur.

Æfingin skapar meistarann, það er loforð.

Langflest sem okkur berst í gegnum fjölmiðla er birt í flýti því barist er um athygli okkar svo miðlarnir og hin botnlausa hít Internetsins fái nóg í nytina sína. Fjölmiðlar þurfa að krækja í okkur sem fyrst og sem hraðast og það næði er á undanhaldi sem fjölmiðlafólk hafði til að vinna vel ígrundaðar fréttir á þá vegu að heilleg mynd birtist af málum sem til umfjöllunar eru.

Málflutningur af þessu tagi kallar eðlilega fram sterk viðbrögð því ósvöruðu spurningarnar vakna og fljótt upphefjast vangaveltur vegna þeirra þátta sem upp á vantar svo skýr mynd fáist.

Hvatvísin tekur yfirhöndina og þá gefst lítið rými og minni en engin geta til að vega og meta, hvað þá hugsa ofan í kjölinn.

Ályktanir eru dregnar upp úr höttum hvers og eins, ímyndunaraflið leikur lausum hala, sleggjudómar falla. Fólk skipar sér hugsunarlítið í lið, flokka og félög.

Við sjáum þetta gerast trekk í trekk og svo loga eldar stafna á milli. Svo liggja þeir sem fyrir verða eftir særðir, út af slegnir og þeir hvatvísu gjarnan minni menn fyrir vikið.

Ekki er hægt að segja að afraksturinn sé nokkrum til góða. Tilgangslaust er það allt.

Að bregðast við hverju og öllu sem er, er val. Val hvers og eins. Mér finnst stundum gaman að skorast undan þátttöku í hverju því sem á boðstólum er hvort sem er í einkalífinu, vinnustað eða opinberlega og sjá hvert það leiðir mig, bara sú einfalda aðgerð að sitja hjá. Fyrst og fremst mín vegna.

Við slíka meðvitundaræfingu verður maður margs vísari um sjálfan sig og kostulegt er að fylgjast með því hvað vaknar innra með manni þegar maður hleypur ekki á eftir hvatvísri þörfinni til viðbragðs án hugsunar, ígrundunar og atrennu.

Með slíkri ástundun gefst færi á því að kanna rót viðbragðsins með sjálfum sér og það eru ekkert endilega bara þægilegar upplýsingar sem manni berast um eigið eðli en lærdómsríkar og mannbætandi eru þær alltaf.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi

Björn Jón skrifar: Þankar um aga og uppeldi
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitísk aflögun í íslenskum landsmálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda

Steinunn Ólína skrifar: Ár íss og elda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp

Óttar Guðmundsson skrifar: Áramótaávarp
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!

Orðið á götunni: Meiri músikk – minna mas!
EyjanFastir pennar
13.12.2024

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar

Steinunn Ólína skrifar: Bríet Ísis Elfar
EyjanFastir pennar
12.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot

Ágúst Borgþór skrifar: Saklaus maður sakaður mánuðum saman um svívirðileg kynferðisbrot
EyjanFastir pennar
09.12.2024

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
06.12.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?

Steinunn Ólína skrifar og talar: Er ekki ráð að treysta fólki fyrir sjálfu sér?
EyjanFastir pennar
05.12.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!