Framtíðin verður að nútíð og við verðum að hafa það í huga, hvort heldur sem er í gjaldmiðilsmálum eða efnahagsmálum almennt, eða því stóra máli sem er andleg líðan unga fólksins okkar. Flokkarnir sem hafna leið Viðreisnar heimta að Viðreisn komi og moki flórinn, leysi það fúafen sem þeir hafa sjálfir komið okkur út í. Viðreisn hikar ekki við að fara í samtímalausnir en vill horfa til framtíðar líka. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, er viðmælandi Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
„Við finnum mikinn með byr, við í Viðreisn. Margir segja: Þið þurfið að vaxa hraðar. Jú, jú, ég hefði gjarnan viljað vaxa hraðar. Ég tók við flokknum þegar hann var þrjú prósent. Okkur var ekki hugað líf 2017 en við náðum þó að halda okkur inni. Við erum einn af þremur flokkum sem jukum við okkur fylgi í síðustu kosningum. Við erum vel yfir 10 prósentum núna og erum mjög ánægð með það,“ segir Þorgerður Katrín.
Hún segir Viðreisn ætla að halda áfram að vaxa. „Við ætlum að bæta við okkur. Við þurfum að halda áfram og það verður að undirstrika að það verður ekki gert með því að við stingum okkar stefnumálum undir stól. Það verður ekki gert með því að við víkjum frá okkar grundvallar prinsippum.“
Hún segir stemninguna innan Viðreisnar vera mikla og góða. „Það er gaman að finna þennan kraft, það eru nýskráningar í flokkinn núna og það er alls konar fólk að koma og það verður nýtt og gamalt fólk með okkur í næstu kosningum.“
Þorgerður Katrín segir reynslumikið fólk, bæði ungt, miðaldra og jafnvel eldra, verða með Viðreisn í næstu kosningum. „Ég ætla svo sannarlega að leiða flokkinn og mér finnst svo gott að finna bæði öflugan þingflokk og öflugt fólk sem hefur þennan áhuga og vill verða að liði. Að finna þessa þekkingu sem er innan Viðreisnar. Fyrir mig er það mjög dýrmætt af því að þeir segja nú stundum við mig úr öðrum flokkum inni á þingi að við getum verið alveg rosalegir nördar. Það er bara fínt. Við viljum hafa hlutina á hreinu, við erum ekki að skella málum fram í einhverjum stundarvinsældum. Við ætlum að halda okkur við það að það er dálítið töff að vera með langtímasýn.“
Hún segir fólk í Viðreisn gera sér glögga grein fyrir því að núna þurfi að fara í lausnir til skemmri tíma. „Ég minni líka á það að 2016 þegar við vorum stofnuð settum við ákveðið mál á dagskrá. Núna er sá tími kominn að ef við hefðum farið þá leið þá værum við ekki með íslenska ofurvextir, þá værum við með evrópska vexti upp á 3,5 prósent. Það er alltaf verið að biðja okkur að leysa vandamál ríkisstjórna sem höfnuðu okkar leið.“
Hún segir kröfuna frá öðrum flokkum vera þá að leysa þurfi það fúafen sem þeir hafi sjálfir komið okkur í. Jú, jú, við munum gera það og við munum koma með okkar tillögur. Við höfum margítrekað farið í það að það er hægt að einfalda kerfið, það er hægt að nýta fjármuni betur o.s.frv. en framtíðin verður að nútíð og við verðum að fara að huga að henni hvort sem það er í gjaldmiðilsmálum, en ekki síst núna, sem er stóra verkefnið sem ég gat um líka, samhliða efnahagsmálunum, þá er það andleg líðan unga fólksins okkar sem við verðum að taka betur utan um.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.