Aðsend grein eftir Guðrúnu Bergmann, rithöfund, fyrirlesara og heilsu- og lífsstílsráðgjafa:
Maðurinn heitir Magnús Thorsson, íslenskur frumkvöðull sem fluttist til Bandaríkjanna þegar hann fór í nám og hefur ílengst þar. Núverandi staða hans er sem prófessor í frumkvöðlafræðum við Johnson & Wales háskólann í Rhode Island ríki í Bandaríkjunum. Hann samdi fyrir nokkrum árum algerlega nýtt námsefni fyrir háskólann sem hófst árið 2021 og byggist á sjálfbærni og miðast við þá sem vilja verða frumkvöðlar í ræktun á hampi eða kannabis og nýta sér þau viðskiptatækifæri sem slíkri ræktun tengjast.
Magnús verður einn af fyrirlesurunum á alþjóðlegu ráðstefnunni HEMP FOR THE FUTURE sem haldin verður í Salnum í Kópavogi dagana 11. og 12. október næstkomandi, en ljóst er að hampræktun býr yfir miklum tækifærum.
Magnús hefur komið víða við bæði innan háskóla- og viðskiptasamfélagsins allt frá því að hann hélt til Bandaríkjanna. Hann lauk doktorsnámi í neysluhegðun kaupenda frá Iowa State háskólanum og meistaranámi í kennslu frá frá Bennington College. Áhugasvið hans hefur mjög tengst neysluhegðun kaupenda, stefnu í loftslagsmálum, svo og sjálfbærri þróun og jafnrétti manna á milli.
Magnús starfaði lengi í þjónustugeiranum, meðal annars fyrir Hilton hótelin í New York og Washington, D.C, auk þess sem hann stýrði um tíma keðju sérvörumatvælaverslana í Virginíu. Árið 2000 keypti hann og rak með góðum árangri 30 herbergja skíðahótel í Vermont, en leitaði svo aftur yfir í akademíska geirann og hóf kennslu, þótt hann hafi alltaf verið tengdur einhverjum frumkvöðlaverkefnum.
Magnús fékk ríkisborgararétt í Bandaríkjunum árið 2005 og hefur síðan þá verið ráðgjafi fyrir bæjarstjórnir þar sem hann hefur búið og komið að ýmsum breytingum í stefnumálum þeirra, meðal annars betri efnahagsþróun og jafnari aðgangi íbúa að auðlindum náttúrunnar.
Auk framlags síns til akademíunnar og bæjarstjórnarmála, stofnaði Magnús nýverið fyrirtækið Canna Curious Wellness, sem er frumkvöðlafyrirtæki í kannabislífsstíl fyrir neytendur 55 ára og eldri, sem hafa ekki áður notað kannabis. Stefna fyrirtækisins er að fræða fullorðið fólk um meðferðareiginleika kannabis og kynna fyrir þeim í gegnum gagnsæjar og auskiljanlegar upplýsingar þau heildrænu vellíðunaráhrif sem plantan getur haft.
Markmið hans er að búa til jákvætt umhverfi fyrir eldra fólk sem vill njóta heilsubætandi áhrifa kannabis, í gegnum vörur sem eru með lágt magn THC (virka efnið í kannabils plöntunni sem veldur vímu) og kannabínóða (CBD en líkaminn framleiðir sjálfur kannabínóða) sem efla meðferðaráhrif.
Það verður því afar spennandi að hlusta á fyrirlestur Magnúsar á ráðstefnunni Hemp for the Future dagana 11. og 12. október næstkomandi.
Smelltu hér fyrir vefsíðu ráðstefnunnar.
Hér geturðu skoðað vefsíðu fyrirtækis Magnúsar og hér er hlekkur inn á upplýsingar um námið sem Magnús stýrir.