fbpx
Fimmtudagur 26.september 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ísbirnir og aðrar fjarlægar skepnur

Eyjan
Sunnudaginn 22. september 2024 13:30

Frúin og einhyrningurinn (fr. La Dame à la licorne). Hluti myndar á einu hinna sex víðfrægu og dularfullu veggteppa sem varðveitt eru á Musée de Cluny – Musée National du Moyen Âge í París.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ein aðalfrétt liðinnar viku var af birnunni sem felld var á Höfðaströnd í Jökulfjörðum. Koma bjarnar þykir jafnan merkis viðburður og Íslendingar hafa lengi þurft að verjast þessum vágesti. Hafísar voru miklir við land á árunum 1274–1276 og herma annálar að þá hafi 49 ísbirnir verið felldir. Nafni minn grænlenskur mun hafa gengið á land í Heljarvík á Ströndum 1321 og orðið átta manns að fjörtjóni áður en hann var loks drepinn á Straumnesi.

Þar sem birnan í Jökulfjörðum var ekki fullvaxinn hefði vitaskuld verið meira viðeigandi að hún kæmi inn á Húnaflóa, en í Landnámu segir frá því að Ingimundur gamli hafi fundið birnu og tvo húna við Húnavatn. Húnana átti hann að hafa tamið, flutt til Noregs og gefið Haraldi konungi hárfagra, en þar í landi höfðu menn aldrei fyrr séð hvíta birni. Enn þekktari er frásögnin af suðurför Ísleifs Gissurarsonar sem sagt er frá í Biskupasögum er hann hafði með sér ísbjörn og færði Hinriki keisara og þótti hin mesta gersemi. Ísleifur biskup er fyrsti Íslendingurinn sem kemur fram fyrir hönd þjóðarinnar á erlendri grundu. Hann gisti ekki einasta keisara og erkibiskup heldur einnig páfa. Björn Þorsteinsson sagnfræðingur sagði Ísleif hafa verið svo glæsilegan fulltrúa Íslendinga að eftir utanför hans sé ekki minnst lengur á Íslendinga sem villimenn heldur getið „um hina ágætustu þjóð, Íslendinga, sem hafi engan annan konung en lögin“.

Ýmsir fleiri sögur eigum við af því að Íslendingar hafi fært konungum birni að gjöf, til að mynda á Auðunn vestfirski einnig að hafa handsamað björn, raunar á Grænlandi, og fært Sveini Úlfssyni Danakonungi. En konungar víða um álfuna héldu dýragarða á miðöldum þar sem aldar voru skepnur úr fjarlægum álfum.

Eitthvað hefur verið um að menn héldu lifandi björnum föngnum, en í vígslóða Grágásar, 83. kapítula segir að ef maður vísar að manni „ólmum hundi eða alibirni, og varðar það fjörbaugsgarð ef hinum verður ekki mein af“. Það varðaði svo aftur skóggangi ylli dýrið líkamstjóni. Í 85. kapítula er áfram fjallað um „alibjörn hvítan“ og segir sitt um hvers konar gersemar þeir voru álitnir að það varðaði útlegð (þ.e. sektum) og allt að fjörbaugsgarði (þriggja ára útlegð) særði maður „hvítabjörn manns saklausan“. Norskir birnir hafa aftur á móti greinilega ekki verið velkomnir því í sama kapítula segir að það varði fjörbaugsgarði að „ferja viðbjörn út hingað“.

Einhyrningarnir

Þegar ég á leið um Vínarborg lít ég jafnan á söfnin í Hofburg þar sem ýmsir helstu dýrgripir Habsborgara eru varðveittir. Þeirra á meðal er „einhyrningshorn“ sem vitaskuld er skögultönn af náhvalstarfi en þær skepnur eru enn fáséðari hér við land en ísbjörninn enda fara þeir sjaldnast suður fyrir sjötugustu gráðu norðlægrar breiddar. Náhvalstönn er skrúfulaga og kemur merkilega vel heim og saman við lýsingar á horni einhyrningsins, furðuskepnu sem víða er getið í miðaldabókum.

Helgi Guðmundsson prófessor ræðir í bókinni Um haf innan um virði „einhyrningshorna“ á miðöldum og getur þar horns sem Lorenzo de Medici í Flórens átti á fimmtándu öld en það var metið á sex þúsund gullflórínur sem samsvaraði 15 kg af skíru gulli. Til samanburðar nefnir Helgi að Niccolo Machiavelli hafi fengið í árslaun hundrað flórínur til að rita sögu Flórens. Að mati Helga voru náhvalstennurnar meðal allra mikilvægustu vörutegunda í hinnifornu Grænlandsverslun, en þaðan komu líka aðrar verðmætar afurðir, svo sem rostungstennur, rostungshúðir, sem svarðreipi voru fléttuð úr, hvítfálkar og fleira fágæti.

Víðs vegar um álfuna má finna listmuni úr rostungstönnum en á fyrstu öldum eftir landnám Íslands barst lítið sem ekkert af fílabeini til Norðurálfu og því mikil eftirspurn eftir rostungstönnum. Í nýlegum rannsóknum hefur meðal annars verið bent á að líklega hafi ein aðalástæða ferða hingað út í upphafi verið rostungveiðin og sú skepna snemma orðið útdauð — rétt eins og hinn ófleygi geirfugl sem gat lifað lengur í Eldey, þangað sem örðugt var að komast.

Helgi veltir því upp hvernig Íslendingar hafi farið að því snemma á öldum að kosta nám sinna efnilegustu sona í útlöndum árum saman og telur skýringuna í því fólgna að þeir hafi haft með sér einhvern dýran og meðfærilegan varning. Náhvalstönn með miklum útskurði er varðveitt á safni Viktoríu og Alberts í Lundúnum og önnur ámóta var seld á uppboði Christie‘s 1994. Álitið er að báðar tennur hafi verið skornar út fyrir kirkjuna í Lincoln á tólftu öld. Þar var við nám á sömu öld Þorlákur Þórhallsson, síðar biskup. Helgi hefur vitaskuld mikinn fyrirvara á þessari tilgátu en hún er í meira lagi forvitnileg. Við getum þá sömuleiðis velt því upp hvort Sæmundur fróði Sigfússon hafi ekki haft tönn meðferðis er hann fór til náms í Frakklandi en sumar þeirra náhvalstanna sem varðveist hafa eru samsettar — sem bendir til þess að þær hafi flutningsins vegna verið sagaðar í sundur.

Hluti lýsingar úr hinni víðfrægu Kells-bók (e. Book of Kells), einhverjum mesta dýrgrip vestrænnar menningar, sem varðveittur er í Þrenningargarði (e. Trinity College) í Dyflinni.

Hundurinn Sámur

Í síðasta mánuði átti ég leið um Dyflinni og leit þá í Þrenningargarð til að skoða hið víðfræga handrit sem kennt er við klaustrið í Kells, einhvern mesta dýrgrip vestrænnar menningar. Og í vikunni sem leið mátti hlýða á írsku fræðikonuna Rosemary Power flytja erindi um lýsingar í handritinu í Eddu, húsi íslenskunnar. Í Kells-bók eru skráð guðspjöllin fjögur og skreytt með óvenju miklum mynsturfléttum. Álitið er að handritið hafi verið ritað á Eynni helgu sem er ein Suðureyja. Klaustrið þar stofnaði Kólumkilli á sjöttu öld og þaðan breiddist kristnin út um Skotland. Heilagur Kólumkilli var vel kunnur hér á landi og í Landnámu segir að kirkjurnar á Esjubergi á Kjalarnesi og Innrahólmi á Akranesi hafi verið helgaðar honum.

Frú Power ræddi í erindi sínu um frásögn Laxdælu af því er Melkorka hvatti Ólaf son sinn til að fara til Írlands og vitja frænda sinna. Þar hitti hann fyrir afa sinn, Myrkjartan Írakonung. Ólafur var skartmaður mikill og fékk því viðurnefnið pá. Power gerði að umtalsefni myndir af páfuglum í Kells-bók og bláa litinn sem aðeins konungborið fólk mátti klæðast á Írlandi. Mér vitanlega hefur páfugl aldrei komið hingað til lands en Ólafur pá færði Gunnari Hámundarsyni að gjöf hundinn Sám sem var írskrar ættar — ef marka má frásögn Njálu. Írskir úlfhundar eru meðal allra stærstu hunda en til er frásögn af því að rómverski konsúllinn Quintus Aurelius Symmachus hafi fengið að gjöf sjö slíka hunda til að berjast við ljón og birni í hringleikhúsum. Sem sagt engir venjulegir hundar. Sámur átti að vara húsbónda sinn við fjandmönnum en við þekkjum öll af frásögn Njálu af því hvernig það fór á endanum.

Forn hreysti og hugvitsemi

Stórbrotnustu skeið mannsandans hafa gjarnan orðið þar sem menningarstraumar hafa mæst samfara miklu ríkidæmi sem orðið hefur á grundvelli millilandaverslunar. Dæmi um þetta má nefna list endurreisnaraldar í norður-ítölsku borgríkjunum og blómaskeið málaralistarinnar í Hollandi sautjándu aldar. Íslensk bókmenning, merkilegasta framlag okkar til heimsmenningarinnar, varð ekki til í tómarúmi. Hér gætti mikilla menningaráhrifa víðs vegar að en sagnaritunin var í meira lagi kostnaðarsamt fyrirtæki — allt frá því að senda menn til mennta á erlendri grundu árum saman þar til orðnar voru til heimsbókmenntir. Hugmyndir um að hér hafi hagnaður af Grænlandsversluninni haft afgerandi áhrif á eru í meira lagi athyglisverðar. Og þá ekki hvað síst af verslun með rostungstennur.

Rostungurinn — sem ef til vill átti stærstan þátt í að reka norræna menn hingað út — sést æ oftar hér við land á seinni árum. Vera kann að hann kjósi að setjist hér að á nýjan leik og yrði skemmtileg viðbót við annars fábreytta fánu spendýra. Hið sama verður aftur á móti ekki sagt um ísbjörninn.

Stjórnvöld í Peking senda pandabirni af og til úr landi til að efla tengsl við önnur ríki. Þær hæglátu skepnur eru höfuðdjásn dýragarða víðsvegar um heim og þetta minnir á ísbirnina sem íslenskir höfðingjar færðu konungum og keisurum miðalda, en hér er sannarlega ólíkum dýrum að jafna þó skyld séu. Ef til vill væri ráð að láta stoppa upp hræ allra þeirra ísbjarna sem hingað koma til að færa þeim erlendu þjóðarleiðtogum að gjöf sem þyrfti að friðmælast við hverju sinni — líklega væri þó ekki ráðlegt að fanga birnina lifandi sem forfeður okkar virðast þó hafa gert og ekki annað hægt en dást að því hugviti og þeirri hreysti sem þurft hefur til að handsama lifandi birni og sigla með yfir opið úthaf til móts við konunga og keisara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tveir fundir og tvenns konar hugmyndafræði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Eiríkur Bergmann: Stjórnmálaflokkarnir eiga ekkert fastafylgi lengur – fólk samsvarar sig ekki flokkunum eins og áður

Eiríkur Bergmann: Stjórnmálaflokkarnir eiga ekkert fastafylgi lengur – fólk samsvarar sig ekki flokkunum eins og áður
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kirkjuræningjar

Óttar Guðmundsson skrifar: Kirkjuræningjar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Bubbi, vextir og kosningar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Bubbi, vextir og kosningar
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Kúvendingar á hægrivængnum

Sigmundur Ernir skrifar: Kúvendingar á hægrivængnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: „Multifunktional og multikultural“

Óttar Guðmundsson skrifar: „Multifunktional og multikultural“
EyjanFastir pennar
23.08.2024

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi
EyjanFastir pennar
22.08.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Aftur eða aldrei aftur?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Aftur eða aldrei aftur?
EyjanFastir pennar
16.08.2024

Steinunn Ólína skrifar: Vanþekking á sveppum varð þeim að aldurtila

Steinunn Ólína skrifar: Vanþekking á sveppum varð þeim að aldurtila
EyjanFastir pennar
15.08.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?

Þorsteinn Pálsson skrifar: Hvað á að gera við skakka heildarmynd?