fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Litla græna hagkerfið sem brennir olíu

Eyjan
Laugardaginn 21. september 2024 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er auðveldara að fá leyfi fyrir dísilrafstöð á Íslandi en grænum og sjálfbærum orkuverum. Landinn er sumsé enn þá af gamla skólanum. Hann keyrir hvern olíutrukkinn af öðrum austur á firði, ríflega sjö hundruð kílómetra leið til að kynda fiskimjölsverksmiðjur með arabísku jarðefnaeldsneyti.

Fram undan er enn einn veturinn sem forkólfar sjávarútvegsfyrirtækja neyðast til að brenna olíu vegna raforkuskorts. Fyrir vikið er staðan æði afkáraleg: Sú aukna olíunotkun sem af þessu hefur leitt síðustu vetur hefur þurrkað upp allan loftslagsávinning af innfluttum rafmagnsbílum frá upphafi!

Svona er þá litla græna hagkerfið eftir allt saman. Það er í rauninni svargrænt. Í besta falli.

Sífellt meiri raforkunotkun stórfyrirtækja, heimila og smærri fyrirtækja veldur því að mati stjórnenda Landsvirkjunar að fyrirtæki eins og fiskimjölsbræðslur og raunar fleiri til, þurfa að að sæta skerðingu, hvern veturinn á eftir öðrum. Og næsti vetur verður þar engin undantekning. Það vantar orku.

Ástæðan er þrennskonar. Fyrst er til að taka alvarlegan skort á vatni í þremur helstu miðlunarlónum landsins, Blöndulóni, Þórisvatni og Hálslóni, vegna rýrnunar jökla, en það síðastnefnda fylltist ekki fyrr en í gærdag, vonum seinna en vanalega. Í annan stað hefur ekki verið virkjað alla stjórnartíð núverandi valdhafa í landinu vegna pólitískrar bóndabeygju, því nýjasta vatnaflsver landsmanna, Búrfellsstöð 2 var vígð fyrir meira en sex árum, í júlí 2018, en hún er ein af sjö vatnsaflsstöðvum Landsvirkjunar á Þjórsársvæðinu, sem reist var til að nýta framhjárennsli Búrfellsstöðvar. Og loks eru tengingar frá aflstöðvum til byggðakjarna landsins enn þá allt of veikar, en þær hafa engan veginn fylgt eftir örri þróun í eftirspurn, meðal annars vegna deilna á milli sveitarfélaga.

En hvað er til ráða? Brenna bara meiri olíu? Fresta fullum orkuskiptum aftur og aftur? Og aftur?

Núverandi virkjanir í landinu eru nánast fullnýttar að afli og orku – og þó svo skýrslur á borði iðnaðarráðuneytisins geri ráð fyrir að samanlögð aflaukning þeirra geti verið allnokkur, hugsanlega yfir þúsund megavött, dugar hún engan veginn til að mæta fólksfjölgun, hagvexti og sjálfbærni í orkuviðskiptum í fyrirsjáanlegri framtíð. Slík er orkuþörfin og slík mun hún verða.

„En hvað er til ráða? Brenna bara meiri olíu? Fresta fullum orkuskiptum aftur og aftur? Og aftur?“

Nú mun sá sem hér lemur lyklaborðið með tveimur vísifingrum ekki tala fyrir því að fara með moksturstækin upp og yfir um allt hálendið. Það er ekki í boði. Og heldur ekki áform um að beisla vindinn sem nemur 3.400 megavöttum eins og eru á teikniborðinu. Og jafnvel þótt Blöndu- og Búrfellslundir séu báðir komnir í nýtingarflokk verður aldrei sátt um að fela íslenska náttúruparadís á bak við hundruð vindspaða á tröllslega vöxnum mylluturnum. Til þess eru einstakar óbyggðirnar allt of verðmætar. Og fyrir vikið þarf að fara með gát og kunna sér mörk. Um það eru flestir sammála.

Eftir stendur því ein erfiðasta spurningin sem íslensk stjórnmál standa frammi fyrir. Og raunar er þar komið eitt viðkvæmasta úrlausnarefni sem þjóðin á eftir að reyna á eigin skinni á komandi árum. Það lýtur að einhverju leyti að því hvenær og hvernig við getum stækkað núverandi virkjanir, svo Búrfellsstöð 2, en við hönnun hennar var gert ráð fyrir því bæta einum hverfli við þann sem fyrir er, en líka að nýjum stöðvum og fleiri kostum til að ná markmiðinu, fullum orkuskiptum.

Vilji virðist til þess að beisla meira afl á jörðu og í jörðu. Það má meðal annars lesa út úr nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins en þar virðist sem 97 prósent landsmanna séu hlynnt „aukinni grænni orkuframleiðslu í landinu,“ en innan við 3 prósent á móti, ef horft er til þeirra sem tóku afstöðu.

Og fyrir liggja auðvitað verkfræðilegir útreikningar sem sýna að hægt er að gera hagkerfið algerlega grænt og henda sér í hundrað prósent orkuskipti. Virkja sumsé bara út í eitt, sem er þó ekki raunhæft.

Svo veruleikinn er annar. Og hann er sjálfsagt sá helstur að keyra áfram með olíuna um allt land!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum

Björn Jón skrifar: Af valkyrjum
EyjanFastir pennar
01.12.2024

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
30.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta

Óttar Guðmundsson skrifar: Leiðinleg kosningabarátta
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
21.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Sér íslenskir skattar og yndi stjórnlyndra flokka
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
11.11.2024

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón