fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Með kveðju til allra sem syrgja

Eyjan
Föstudaginn 20. september 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mannkynið reynir mikið til að sigrast á dauðanum sem er auðvitað alls ekki gerlegt. Náttúran minnir okkur samt sífellt á dauðleikann. Árstíðirnar eru þar fremstar, vorið með sína birtu, nýjalífs boðun og upprisu, sumarið með litskrúðuga afkomendur, uppskeruhaustið með hnignunarlitina fegurstu og loks veturinn með sinn kalda dvala, svefn og dauða.

Náttúran kennir okkur líka að allt er hverfult og ekkert er öruggt. Vorið kemur stundum seint, sumrin eru stundum skammvinn, haustið með sína uppskerubresti er líka hluti af veruleikanum og snjóað getur að sumri.

Hvernig á að bregðast við missi? Ótímabærum missi. Þrátt fyrir að lífið sé óneitanlega aðeins undirbúningur fyrir dauðann, kemur það alltaf jafn illa við okkur þegar einhver deyr langt fyrir aldur fram eða er hrifsaður skyndilega af vettvangi okkar sem eftir lifum.

Hinn ótímabæri dauði er illskiljanlegastur því við sem eftir sitjum heyjum innri baráttu við eitthvað sem við upplifum sem algjöran ósigur og altjón. Við festumst í kringumstæðunum, áfallinu. Brostnar eru vonirnar, ófullnægðar hugmyndir okkar um framtíðina líta nú aldrei dagsins ljós, allt það sem hefði getað orðið og það sem nú aldrei verður rís hæst. Við lifum okkur líka svo sterkt inn í dauða annarra að sorgin fyrir þeirra hönd og þess sem við ímyndum okkur að viðkomandi sé að fara á mis við tekur allt yfir.

Sársaukinn verður ekki síst óbærilegur því við finnum líka svo til með okkur sjálfum; hvernig á ég að lifa þetta af? Hvað verður nú um mig? Hvernig gat þetta gerst? Af hverju?

Sú sjálfsmeðaumkun er til komin ekki síst vegna þess að við erum svo ofurseld þeirri hugsun að manneskjan sé bara líkaminn sem henni er búinn frá fæðingu. Að þegar hylkið gefi sig, þá sé ekkert meir.

Líkaminn sem okkur er úthlutaður er eitt en sálin er annað. Það er ég viss um. Sálin er til óháð því farartæki eða líkamanum sem við fáum að upplifa tilveruna í hér á jörðinni.

Hvers vegna er hið markaðsvædda mannkyn af vanmætti, jafnvel vanþakklæti, að slást við þennan líkama sínkt og heilagt? Það er ekki bara auglýsingamennska ódauðleikans sem dregur okkur í slaginn, það er líka vegna þess að innst inni skynjum við að sálin er svo miklu stærri en farartækið sem setur okkur svo þröngar skorður. Við getum ekki flogið, við getum ekki hlaupið jafn hratt og tígurinn, við getum ekki andað í kafi.

Þess vegna erum við kannski alltaf að láta á það reyna, hylkið okkar, og þenja mörk þess? Hvað við getum til dæmis troðið miklum upplýsingum í þennan heila. Slagsmálin við líkamann eru augljós. Þoli ég þessar aflraunir, getur þessi skrokkur klifið þetta fjall? Hvernig get ég breytt þessum líkama, stækkað hann, minnkað hann, styrkt hann, umbreytt honum?

Fyrir þær sakir að sálin er eilíf og óendanleg þá verður hylkið óhjákvæmilega stundum takmarkandi fyrir marga. Sálin er nefnilega vængjuð, eilíflega frjáls og verður alltaf til óháð líkamanum.

Ég vil trúa því að okkur sé fyrir fram úthlutaður tími hér á jörðinni. Að um það gildi engin sanngirnislögmál.

Ég trúi því líka að það að við fáum að fæðast í heiminn sé til einhvers, sama hversu lengi eða stutt við fáum að dvelja hér.

Við fáum að fæðast og vera til vegna þess að okkur er boðið að upplifa lífið einhverja stund. Við þurfum margt að læra en líka öðrum að kenna. Sumir þurfa að vera hér lengi og aðrir skemur. Þeir sem fara skilja heiminn eftir auðugri fyrir þá sem nálægt standa. Og það er sá auður sem er haldreipið eina og sjálf lækningin við sorginni.

Í haust, sex árum eftir andlát Stefáns Karls, kom heldur aftan að mér að verða slegin af sorg og þetta olli mér hugarangri og heilabrotum. Hvers vegna núna og af hverju af svona miklum þunga? Ég hélt ég væri búin að ganga í gegnum þetta, óttann, reiðina, sorgina, sjálfsvorkunnina og finna sáttina? Ég gaf mér svigrúm til þess að takast á við þetta og talaði við Stefán upphátt á morgnana, setti mér fyrir tíma til þess arna og varð margs vísari. Ég mæli eindregið með þessu fyrir syrgjendur. Það er ofurlítið ankannalegt til að byrja með en venst furðu fljótt. Ef maður fer að líta á eitthvað sem sjálfsagt mál, þá verður það það. Þú átt þinn huga og stjórnar honum.

Það laukst upp fyrir mér að kannski hafði ég ekki gefið mér næði til þess um langa hríð að minnast og þakka fyrir það sem var mér mikilvægast í okkar samskiptum og breytti lífi mínu til batnaðar. Hvað það var ég met og virði og varð mér lífsbreytandi vissa um hvað er dýrmætast í samskiptum fólks, vissa sem ég öðlaðist af nálægðinni við hann. Með því að einbeita mér að því sem ég átti fremur en því sem ég missti þá breyttist þunginn í andhverfu sína eins og fyrir galdur. Það er nefnilega val að lifa í þakklætinu sem endurgeldur svo ríkulega.

Ef maður leyfir sér að nálgast þá sem eru farnir með athygli sinni og hugsunum um það sem var manni kært og til gleði verður nærvera þeirra áþreifanleg. Sálin fer ekkert þótt hylkið sé farið. Það skiptir máli hvernig við hugsum um hlutina og það er því miður enginn og ekkert sem getur gert sorgina bærilegri en maður sjálfur.

Með kveðju til allra sem syrgja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin