„Það er list að vera leiðinlegur. Veit ekki hvort hægt sé að kenna þá list í Listaháskólanum, en það eru kenndar margar ómerkilegri listgreinar þar á bæ,“
segir Brynjar Níelsson.
Segist hann vera sammála Ársæli Arnarssyni prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands sem heldur námskeið um þá list að vera leiðinlegt foreldri. Ársæll segir foreldra eiga að vera leiðinlegustu manneskjur sem börnin þeirra þekkja og segir feður ólíklegri til þess að segja nei og algengt að skólum sé kennt um leiðinlegar reglur á heimilinu.
„Leiðinlegir menn eru ekki bara nauðsynlegir þegar kemur að uppeldi barnanna. Leiðinlegir menn í stjórnmálum eru ekki síður mikilvægir. Það er nefnilega svo að vera foreldri og stjórnmálamaður er mjög svipað hlutverk. Það þarf að kunna og geta sagt nei, sem er lykilorð, og láta ekki undan þegar stappað er niður fótum í mestu frekjuköstunum. Stjórnmálamenn þurfa eins og foreldrar að vera samkvæmir sjálfum sér. Ekki kaupa sér frið á kostnað annarra. Vinsældarvagnahopp kemur á endanum í bakið á bæði foreldrum og stjórnmálamönnum.“