fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Björn Leví segir Stefán Einar ljúga

Eyjan
Miðvikudaginn 18. september 2024 15:00

Björn Leví Gunnarsson og Stefán Einar Stefánsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata er ósáttur við Stefán Einar Stefánsson þáttastjórnanda Spursmála sem sýndur er á vef Morgunblaðsins. Björn Leví segir Stefán Einar hafa farið rangt með ummæli sem þingmaðurinn viðhafði í þættinum og hafi hreinlega logið um orð hans og þar að auki um framgöngu hans þegar kemur að umræðum um menntamál.

Björn skrifar um málið á Facebook:

„Það barst mér til eyrna að það hefði verið misfarið með ummæli mín úr þættinum Spursmál á bjórkvöldi einhvers hlaðvarps á Akureyri. Stefán Einar Stefánsson minntist þar á hvernig ég ætti ekki að tala um að ég hefði unnið í Menntamálastofnun á meðan ekkert hefði verið gert í Menntamálastofnun í sex ár. Ég ætti nú ekki að hafa hátt um það.“

Þar á Björn Leví væntanlega við bjórkvöld hlaðvarpsins Þjóðmál sem haldið var á Akureyri en upptaka af því hefur verið aðgengileg á hlaðvarpsveitum síðan 13. september síðastliðinn.

Ekki hafa hátt

Í þættinum sagði Stefán Einar að enginn þingmaður hefði undanfarin misseri sýnt því áhuga að ræða slæma stöðu menntamála á Alþingi og það væri til skammar. Um Björn Leví sagði Stefán Einar:

„Björn Leví Gunnarsson mætti til mín í Spursmál á föstudaginn síðasta. Hann var í ósamstæðum sokkum. Hann var ekki í skóm. Það er allt í lagi. Það er vel skúrað uppi á Mogga. Það var dálítið merkilegt hann sagði … ég var að spyrja hann út í menntamálin og hann sagði: „Það gerðist ekkert í Menntamálastofnun í sex ár, ekkert. Ég veit það af því ég vann þar.“ Ekki hafa hátt um það. Í guðanna bænum ekki segja okkur þetta. Það gerðist ekkert.“

Við þessi ummæli Stefáns Einars var mikið hlegið í salnum en þátturinn var tekinn upp fyrir framan áhorfendur.

Hafi æpt á hjálp

Björn Leví segir Stefán Einar hafa með þessum orðum farið rangt með ummæli hans í Spursmálum. Þátturinn hefur verið aðgengilegur á Mbl.is síðan 6. september síðastliðinn. Í þættinum var Björn Leví gestur ásamt Teiti Birni Einarssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins. Þegar talið barst að menntamálum og starfi Björns Leví hjá Menntamálastofnun, þar sem hann starfaði áður en hann fór á þing en stofnunin var nýlega lögðniður, sagði þingmaðurinn meðal annars:

„Vandinn sem við vorum að glíma við þar er að það átti að taka upp ákveðið námsmat. Það átti að veita skólum leiðbeiningu. Ráðuneytið bar ákveðna ábyrgð á þessu og svo framvegis og í sex ár gerðist ekki neitt, ekki neitt. Skólarnir æptu á hjálp.“

Aðspurður hvers vegna ekkert hefði gerst í stofnuninni í þessum málum í svo langan tíma sagði Björn Leví:

„Umboðsmaður (umboðsmaður Alþingis innsk. DV) var að skila skýrslu fyrir árið 2023 og hún var mjög skýr um það að ráðuneytin láta í rauninni oft stofnanir mjög afskiptalausar og tekur nokkur dæmi um hvað getur gerst í því. Þetta er eitt af því sem getur gerst.“

„Sat þá fólk bara í sex ár og gerði ekki neitt,“ spurði Stefán Einar.

„Já,“ svaraði Björn Leví.

„Þegar skólarnir kölluðu eftir aðstoð fengu þeir enga aðstoð. Þeir kölluðu eftir aðstoð í sex ár,“ bætti hann við.

Námsmatið og lygin

Björn bætir við í Facebook-færslunni:

„Umræðuefnið var innleiðing á nýju námsmati sem var verkefni sem var kastað í sveitarfélögin og skólana að innleiða. Skólarnir spurðu og spurðu um hvernig þau ættu að túlka háleit markmið aðalnámskrár hvað námsmat varðaði en fengu engin svör frá ráðuneytinu í þau sex ár sem liðu þangað til námsmatið var innleitt í flýti. Fyrir fólk sem kann að telja þá var aðalnámskrá samþykkt 2008 og byrjaði að koma til framkvæmda 2011 – 2012. Þó var frestun á innleiðingu námsmats til 2015 – 2016. Hér er því verið að tala um árin 2010 – 2016 eða svo þar sem ekkert var að gerast.“

Björn Leví lýsir síðan í færslunni nánar störfum sínum hjá Menntamálastofnun og segir þau aðallega hafa falist í að skipta út úreldum hugbúnaði en að hann hafi viljað koma meira að gerð hins umrædda námsmats sem svo hægt og illa gekk að innleiða.

Björn Leví bætir því við að Stefán Einar sé hreinlega að ljúga um hvað hann hafi sagt í Spursmálum en einnig þegar hann fullyrði að hann eins og aðrir þingmenn hafi ekkert sagt um menntamál undanfarin misseri:

„En það má alveg segja brandara um þetta svo sem. Það er hins vegar verra að nota þá til þess að ljúga upp á fólk. Ég hef einmitt hátt um að ekkert hafi verið gert í menntamálum í svo langan tíma af því að það þarf svo nauðsynlega að láta hendur standa fram úr ermum í þeim málum.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump