fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Eyjan

Vilhjálmur sótillur: „Að hugsa sér að stjórnvöld skuli voga sér að leggja þetta til“

Eyjan
Þriðjudaginn 17. september 2024 11:21

Vilhjálmur Birgisson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segist ekki trúa því að ríkisstjórn Íslands ætli sér að ráðast af alefli á lífeyrisréttindi verkafólks með því að skerða örorkubyrði lífeyrissjóðanna um nokkra milljarða á næsta ári og fella síðan framlagið niður árið 2026.

Vilhjálmur gerir þetta að umtalsefni í pistli á Facebook-síðu sinni þar sem hann gagnrýnir áformin, sem koma fram í fjárlagafrumvarpi næsta árs, harðlega. Gert er ráð fyrir að framlögin lækki úr sjö milljörðum króna í 2,5 milljarða á næsta ári og hverfi svo á brott á því þarnæsta.

Rennblaut tuska í andlitið

„Að hugsa sér að stjórnvöld skuli voga sér að leggja þetta til í ljósi þess að lífeyrissjóðir verkafólks sem vinna erfiðisvinnu eru með langmesta örorkubyrði af öllum sem eru á íslenskum vinnumarkaði,“ segir Vilhjálmur í pistli sínum og bætir við a sökum þess að örorkubyrði er meiri hjá lífeyrissjóðum innan raða verkafólks en hjá öðrum starfsstéttum þá sé réttindaávinnsla minni en hjá örðum sjóðum.

„Meira að segja dugar framlag til jöfnunar á örorkubyrði í dag ekki einu sinni til, til að jafna þennan mun. Þetta vita stjórnvöld mætavel en ætla samt að skella þessari rennandi blautu tusku í andlitið á verkafólki sem vinnur erfiðisvinnu.“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, tjáði sig um málið í ræðu á Alþingi í síðustu viku þar sem hún gagnrýndi áformin harðlega.

„Vinnandi fólk sem hefur greitt í sjóði eins og Gildi, Stapa, Festu, Lífeyrissjóð Vestmannaeyja og Lífeyrissjóð Rangæinga, það á að borga brúsann. Er það í alvörunni kappsmál hjá þessari ríkisstjórn að borga fyrir breytingarnar á örorkulífeyriskerfinu með því að seilast í ellilífeyri fátækasta fólksins á Íslandi?,“ spurði Kristrún.

Ríkisstjórnin áformar að fella brott jöfnunarframlag á örorkubyrði lífeyrissjóða – „Seilast í ellilífeyri fátækasta fólksins á Íslandi“

Árás á lífeyrisréttindi verkafólks

Vilhjálmur minnir á að lífeyrissjóðir séu samtryggingarsjóðir og hann veltir fyrir sér hvaða sanngirni sé fólgin í því að smala vinnandi fólki eftir starfsgreinum í ljósi þeirra bláköldu staðreynda að hjá verkafólki er örorkubyrði margfalt meiri en hjá öðrum starfsgreinum.

„Hvaða samtrygging er það? Framlag til jöfnunar á örorkubyrði hefur verið til þess fallið að jafna þennan óréttláta mun á milli lífeyrissjóða með aukna örorkubyrði en nú á að fella það niður með umtalsverðri skerðingu hjá lífeyrissjóðum verkafólks sem nú þegar búa við skerta réttindaávinnslu vegna mikillar örorkubyrði.“

Vilhjálmur segir að skerðingin og svo niðurfellingin á þar næsta ári sé fyrst og fremst árás á lífeyrisréttindi verkafólks innan Starfsgreinasambands Íslands og Eflingar.

„Það vita það allir að hærri örorkutíðni hefur áhrif á skuldbindingar lífeyrissjóða og dregur úr getu þeirra til að greiða lífeyri. Það liggur t.d. fyrir að þetta mun bitna illilega á sjóðsfélögum Festu lífeyrissjóð og Gildi sem eru verkamannalífeyrissjóðir. Það blasir við að ef þessi árás stjórnvalda á lífeyrissjóði verkafólks verður að veruleika þá mun þurfa að skerða núverandi lífeyrisgreiðslur til sjóðsfélaga sem og réttindaávinnslu um allt að 4%.“

Vilhjálmur segir morgunljóst að Starfsgreinasambandið muni ekki láta þetta átölulaust og hans mat er að ef þetta verður að veruleika þurfi að umbylta kerfinu. Til dæmis með því að fólk fái að ráða sjálft í hvaða lífeyrissjóð það greiðir og/eða að ríkið sjái alfarið um alla örorku.

„Enda útilokað að leggja þær byrðar á verkafólk að það eitt og sér verði látið bera þær byrðar að hið réttláta framlag til jöfnunar á örorkubyrði verði skert og fellt niður. Ég veit ekki annað en Samtök atvinnulífsins séu algjörlega sammála Starfsgreinasambandi Íslands að það er alls ekki hægt að skerða og afnema framlag til jöfnunar á örorkubyrði í verkamannalífeyrissjóðunum. Eitt er víst að SGS mun og ætlar alls ekki að láta þessa aðför að lífeyrisréttindum verkafólks sem vinnur erfiðisvinnu átölulaust!“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári

Segir 10 Prís verslanir opna á næsta ári
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina

Afhjúpar lævíst plott Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér fjárhagslega yfirburði – Svona reyndi hann að veikja samkeppnina
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum

Halla endurnýjar listaverkin á Bessastöðum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember

Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu: Góð verslun fyrir jólin – sprenging í netverslun í nóvember
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða

Björn Leví skrifar – Verri niðurstaða
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”

Sigmundur um vöruhúshneykslið – „Ekki skipulagsslys heldur skemmdar­verk”