Jaðarskatturinn á ellilífeyrisþega á tilteknum tekjubilum er á bilinu 70-80 prósent, sem þekkist hvergi annars staðar á byggðu bóli lengur. Ástæðan fyrir því er mikið til sú að Skatturinn og Tryggingastofnun líta á verðbætur sem vaxtatekjur. Mikilvægt er að kafa ofan í þessi mál til að gera bót á. Þórólfur Matthíasson er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Markaðarins á Eyjunni.
„Það er eitt með fjármagnstekjurnar Þeir sem fá þær, það er dálítið eldra fól, og ég hjó eftir því að núna í fjárlagafrumvarpinu á að hækka frítekjumarkið vegna atvinnutekna fyrir skjólstæðinga Tryggingastofnunar. Það er nú reyndar fjármagnað af þeim sjálfum vegna þess að lífeyrissjóðatekjur hafa aukist og þar með hafa útgjöld Tryggingastofnunar í ellilífeyri minnkað,“ segir Þórólfur.
Hann segir stundum talað um að Tryggingastofnun sé einn stærsti móttakandi lífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðunum.
Það var nú ekki hugmyndin í byrjun, var það?
„Ja, það má svolítið ræða það. En hins vegar þá er ekkert gert með frítekjumarkið á fjármagnstekjunum en þegar Tryggingastofnun og Skatturinn líta á verðbætur á bankabólum þá teljast þær vera vaxtatekjur og það kemur til frádráttar á lífeyrinum frá Tryggingastofnun. Ég hef persónulega rætt við fólk sem hefur lent í stórkostlegum vandræðum vegna þess að það er kannski nýbúið að selja eign og flytja í annað húsnæði – breyta um eignarform á húseigninni sinni – og á þar af leiðandi einhverja fjármuni á bók. Skilaboðin til þessa fólks eru nánast þessi: Elskurnar mínar, flýtið ykkur að borga þetta út sem fyrirframgreiddan arf.“
Þórólfur segir að kafa þurfi betur ofan í þetta kerfi. „Jaðarskatturinn á ellilífeyrisþega á ákveðnum tekjubilum er 70-80 prósent.“
Sem er náttúrlega algerlega út úr kortinu.
„Það bara þekkist ekki á byggðu bóli lengur.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.