fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Mælikvarði á samfélag, mælikvarði á þjóð

Eyjan
Laugardaginn 14. september 2024 13:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslendingum finnst sjálfgefið að heilbrigðisþjónusta í útlöndum standi alvarlega veikum börnum þeirra til boða – og gildir einu þótt það kunni að vera í öðrum heimsálfum, svo sem í Bandaríkjunum. Þeir taka ekki annað í mál en að færustu læknar og hjúkrunarfólk á hátæknisjúkrahúsum á erlendri grundu líkni þeim og sinni án nokkurra undanbragða. Og annað er ekki til umræðu.

Öðru máli gildir um útlensk börn sem leita sér hjálpar á Íslandi. Það á við um Yasan Aburajab Tamimi, ellefu ára dreng frá Hebron á hersetnum svæðum Palestínu sem glímir við vöðvarýrnunarsjúkdóminn Duchenne Muscular Dystrophy (DMD), en afráðið hefur verið að vísa honum úr landi eftir ársdvöl á Íslandi.

Engu skiptir þótt heilsu og velferð hans hafi margsinnis verið ógnað heima fyrir þar sem ekki er tryggt aðgengi að öruggri heilbrigðisþjónustu, sem raunar þarf að sækja til Ísraels, og því ákváðu foreldrar hans að fara með drenginn til Íslands þar sem þau höfðu kynnt sér að vel væri hlúð að langveikum börnum.

Þau vissu líka hvert stefndi. Sjúkdómur sonarins er krónískur og verður ágengari með tímanum, en miskunnarlaus hrörnunin af hans völdum rýrir alla meginvöðva líkamans, þar á meðal hjarta- og öndunarvöðva hans. Þar af leiðandi blasir við í tilviki Yasans að hann mun þurfa á öndunarstuðningi að halda og á eftir að glíma við hjartabilanir á næstu árum í lífi sínu. Af sjálfu leiðir að sjúkdómnum fylgja því ekki aðeins líkamlegar afleiðingar heldur líka sálrænar og félagslegar, svo sem depurð, vanlíðan og einmanaleiki. Eru þá lífslíkurnar ónefndar en þær eru taldar vera á milli 14 og 30 ár, og við blasir að án meðferðar verða þær mun styttri.

„Íslensk stjórnvöld ætla að senda þennan pilt úr landi. Þau telja hann vera utan þjónustusvæðis.“

Staða Yasans er óbærileg. Hann er á þeim aldri sem strákar með DMD missa máttinn hvað hraðast. Hann er hættur að geta gengið og notast því við hjólastól. Á sama tíma hefur hann fengið afar takmarkaða aðstoð heima fyrir, því íbúum á Vesturbakkanum fyrir botni Miðjarðarhafs er alls ekki alltaf leyft að fara yfir til Ísraels og geta engan veginn gengið að heilbrigðisþjónustu þar vísri.

Af þessum sökum horfa Yasan og foreldrar hans fram á að aðstæður hans flýti fyrir framgangi sjúkdómsins og er sú hrörnun óafturkræf.

Íslensk stjórnvöld ætla að senda þennan pilt úr landi. Þau telja hann vera utan þjónustusvæðis. Þeim er sama þótt hann endi aftur í heimalandi sínu þar sem hans bíða ömurleg örlög á stríðshrjáðum Vesturbakkanum þar sem ófriðurinn magnast sem aldrei fyrr. Engin trygging er að Yasan fái alþjóðlega vernd á Spáni, þar sem hann millilenti á leiðinni frá Palestínu til Íslands, og þótt svo einhver von væri til þess, tekur afgreiðsla óskar um alþjóðlega vernd allt að tvö ár. Fái hann verndina strax þar í landi, sem er útópískt, tæki það minnst fimm mánuði að komast inn í kerfið þar í landi.

Þann tíma hefur Yasan ekki.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur áður lagt að íslenskum stjórnvöldum að leita svara og trygginga frá viðtökuríki um viðunandi þjónustu. Það ætla þau ekki að gera í þessu máli, þó að um sé að ræða alvarlega veikt og fatlað barn. Þau ætla að þverskallast þótt læknar hér heima beiðist vægðar fyrir hönd þess. Og þau vilja ekki einu sinni kannast við að hann hafi fengið þjónustu þeirra hér á landi.

Og vitaskuld er Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna léttvægur fundinn í þessu efni, en þar segir að „það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar stjórnvöld gera ráðstafanir um hagi þess.“

Það er akkúrat þetta sem við skulum, sem samfélag og þjóð, hugsa um þegar við sendum næsta barn okkar til læknismeðferðar í öðru landi, austan hafs eða vestan. Þá skulum við einmitt hugsa til Yasans.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið

Óttar Guðmundsson skrifar: Fimmtugastaogfyrsta ríkið
EyjanFastir pennar
18.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir

Steinunn Ólína skrifar og talar: Loftlausir hoppubelgir
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim