Útgerðin ætlast til að fá nær gjaldfrjálsan afnotarétt af dýrmætri þjóðarauðlind og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa nú pantað enn eina grátskýrsluna sem ætlað er að afstýra því að útgerðin greiði eðlilega leigu fyrir afnot af sjávarauðlind þjóðarinnar.
Í nýjum Dagfarapistli á Hringbraut skrifar Ólafur Arnarson að það sé beinlínis rangt sem haldið er fram í nýrri skýrslu hagfræðinga um stöðu sjávarútvegsins að veiðigjald sé sérstök skattheimta. Veiðigjald sé ekkert annað en leiga sem sjávarútvegurinn greiði fyrir afnot af eign íslensku þjóðarinnar. Útgerðin hafi hins vegar unnið að því sleitulaust um árabil að kasta eign sinni á þessa dýrmætu sameign allrar þjóðarinnar.
„Það mætti líkja þessu við það þegar atvinnufyrirtæki greiðir húsaleigu fyrir afnot af atvinnuhúsnæði sem er í eigu annars aðila. Ef t.d. Hagkaup og Bónus vilja stunda viðskipti í Kringlunni, sem er í eigu fasteignafélagsins Reita, þá verður verslunarfyrirtækið að greiða húsaleigu fyrir afnot af húsnæði fasteignafélagsins annars getur verslunarfyrirtækið ekki stundað þarna viðskipti. Og víst er að ekkert annað en sanngjörn markaðsleiga kemur til greina. Engum hefur enn þá dottið í hug að líta á þessa húsaleigu sem viðbótartekjuskatt á verslunarfyrirtækið.
Einnig kemur stjórnendum Hagkaups og Bónuss ekki til hugar að þeir geti fengið vörur til endursölu í verslunum sínum án þess að greiða fullt heildsöluverð fyrir þær vörur. Þeir líta ekki á það sem viðbótarskattheimtu að þurf að kaupa kjöt og mjólkurvörur af afurðastöðvum til endursölu í verslununum.“
Ólafur segir náin tengsl hafa verið milli hagfræðideildar Háskóla Íslands og SFS/LÍÚ um langt árabil, m.a. hafi LÍÚ kostað sérstaka prófessorsstöðu við skólann. „Þjónkun hagfræðideildar HÍ og prófessora þar við sérhagsmuni útgerðarinnar á sér því langa sögu. Því hefur verið haldið fram að LÍÚ/SFS geti pantað álit og skýrslur frá prófessorum hagfræðideildar að vild.“
Hann segir ástæðu þess þess að Samtök í sjávarútvegi fóru af stað núna til að fá fram á sjónarsviðið pantaða skýrslu um það hve veiðigjald veiki íslenskan sjávarútveg vera þá að matvælaráðuneytið hafi haft uppi áform um að leggja fyrir Alþingi frumvarp um sjávarútveg þar sem m.a. var gert ráð fyrir talsverðri hækkun veiðigjalda sem séu allt of lág og hafi verið skammarlega rýr í tekjuöflun ríkisins.
Ólafur hafnar því með öllu að staða sjávarútvegsins hér á landi sé slík að með hækkun veiðigjalda í fjárhæð, sem frekar gæti orðið sátt um meðal eigenda auðlindarinnar, þjóðarinnar, kjósenda á Íslandi, geti greinin farið á hliðina eins og skýrsluhöfundar halda fram. Ólafur telur rétt að byrja á því að tvöfalda veiðigjöldin og sjá svo til með frekari hækkanir
„Landsmenn vita alveg hver er raunveruleg staða sjávarútvegs hér á landi. Ekki þarf annað en líta í kringum sig til að sjá hvernig sjávarútvegsfyrirtæki hafa sópað til sín eignum og atvinnufyrirtækjum í mörgum atvinnugreinum. Ekki bara í sjávarútvegi. Ein af skýringunum er sú að sjávarútvegur hefur „sparað“ sér gífurlegar fjárhæðir með því að sleppa óeðlilega vel frá greiðslu veiðigjalda fyrir leigu fyrir afnot á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.“
Ólafur hafnar því að hærri veiðigjöld dragi úr þjóðarframleiðslu og hagvexti. Eðlileg gjaldtaka fyrir afnot af þjóðarsameigninni tryggi einungis að arðurinn af auðlindinni renni í meiri mæli til eigenda auðlindarinnar en endi ekki óskiptur í vasa þeirra sem fá að nýta hana.
Ólafur hvetur stjórnarandstöðuna til að halda þannig á spilunum í umræðum um veiðigjöld nú á kosningavetri með þeim hætti að skýrt komi fram hverjir gæslumenn sægreifanna séu á Alþingi; kjósendur þurfi að fá að vita hverjir það eru sem vilja halda áfram að gefa fámennum hópi sægreifa ódýrt aðgengi að sameiginlegri auðlind allrar þjóðarinnar og hafa þar með umtalsverðar tekjur af ríkissjóði.
„Um þetta þarf að kjósa í komandi kosningum og sú ríkisstjórn sem tekur svo við verður að hafa kjark til að verðleggja leigu á þessari auðlind með sanngjörnum hætti, landsmönnum öllum til hagsbóta. Stjórnmálamenn sem ætla ekki að ganga erinda grátkórs sægreifanna mega ekki láta ófyrirleitinn áróður samtaka þeirra villa sér sýn með falsrökum og pöntuðum falsskýrslum.“
Dagfara í heild má lesa hér.