Þetta segir Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur, formaður Verkfræðingafélags Íslands og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, í niðurlagi aðsendrar greinar sem hún skrifar í Morgunblaðið í dag.
Í grein sinni segir hún að gríðarleg áhætta fylgi markmiðum og verkefnum samgöngusáttmálans eins og hann liggur fyrir í núverandi mynd. Nefnir hún ýmis atriði í grein sinni máli sínu til stuðnings.
„Eftir að hafa rýnt þau gögn sem aðgengileg eru um samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins tel ég mér skylt að benda á nokkra alvarlega ágalla sáttmálans; ágalla sem mikilvægt er að lagfæra áður en lengra er haldið,“ segir hún og bendir á að lítið sé gert úr fjárhagslegri skuldbindingu sveitarfélaganna næstu ár og áratugi. Ekki sé rétt að tala um sáttmálann sem viljayfirlýsingu því hann sé bindandi og fyrirvarar engir.
Hún segir að látið sé að því liggja að ef sveitarfélögin samþykki ekki sáttmálann geti það haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér.
„Undir liggur hótun um að viðkomandi sveitarfélag verði gert brottrækt úr samstarfi um Strætó bs og e.t.v. fleiri samstarfsverkefnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu (SSH),“ segir hún og bætir við:
„Það er óþægilegt að vera sett í þá stöðu, sem bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, að fá upplýsingar um samgöngusáttmálann nokkrum klukkustundum áður en hann er undirritaður. Sú skýringin var gefin að hér væri um svo mikið trúnaðarmál að ræða að kjörnum fulltrúum sveitarfélaganna væri vart treystandi til að fara með slík trúnaðargögn á viðkvæmum tímapunkti, þ.e. fyrir undirritun. Bæjarstjóri Seltjarnarness undirritaði sáttmálann 21. ágúst sl. ásamt forsvarsmönnum annarra sveitarfélaga og fulltrúum ríkisstjórnar Íslands. Sáttmálinn var undirritaður með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar; við þetta verklag er ég ekki sátt,“ segir Svana.
Svana segir að ofangreint vinnulag sé stórgallað og eðlilegt hefði verið að þeir sem greiða þurfa atkvæði um samgöngusáttmálann fengju tækifæri til að rýna hann fyrir undirritun og koma á framfæri athugasemdum um ágalla.
„Þannig hefði verið hægt að gera breytingar án erfiðleika, þ.e. án þess að þeir aðilar sem helst tala fyrir sáttmálanum í núverandi mynd missi andlitið yfir augljósum ágöllum hans,“ segir Svana sem fer svo í löngu máli yfir ágalla samgöngusáttmálans að hennar mati.
Endar hún grein sína á að benda á að varhugavert sé að trúa því að kostnaðar- og tímaáætlun samgöngusáttmálans standist. Þá hafi láðst að gera ráð fyrir lántökukostnaði og kostnaði við verktafir sem gera þennan þátt enn erfiðari við að eiga.
„Ekki er gert ráð fyrir að framkvæmdafé sé notað til að greiða fjármagns- og lántökukostnað. Sveitarfélögin bera í raun ábyrgð á lántökunum. Að þessu sögðu má ljóst vera að gríðarleg áhætta fylgir markmiðum og verkefnum samgöngusáttmálans eins og hann liggur fyrir í núverandi mynd. Það er hryggilegt að mörg ár hafi liðið án þess að unnið hafi verið að raunverulegum samgöngubótum og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu hafa sífellt orðið torveldari.“