Chris Wallace, fréttamaður CNN, ræddi við Jake Tapper, sem stýrði kappræðum Trump og Biden í júní en þær enduðu hörmulega fyrir Biden eins og flestir muna eflaust. Wallace var ekkert að skafa utan af hlutunum og sagði: „Jake, ég hélt ekki að ég myndi nokkru sinni sjá kappræður sem voru jafn skelfilegar, eins og þær sem þú og Dana stýrðuð í júní, þegar Joe Biden gerði í raun og veru út af við kosningabaráttu sína. Ég held að kvöldið í kvöld hafi verið jafn slæmt en núna fyrir Trump.“
Trump er sjálfur á öðru máli og þegar hann ræddi við fréttamenn að kappræðunum loknum sagði hann meðal annars: „Ég held að þetta séu bestu kappræður mínar í sögunni. Mjög mikilvægar kappræður. Þetta var áhugavert og sýndi hversu veik staða þeirra er, hversu brjóstumkennanleg þau eru,“ sagði hann.
Hann sakaði stjórnendur kappræðnanna um að hafa verið í liði með Kamala og að hann hafi verið einn á móti þremur á sviðinu.
Fréttamaður dönsku TV2 sjónvarpsstöðvarinnar náði tali af Trump skömmu eftir að kappræðunum lauk og spurði hann hvað honum fyndist um kappræðurnar: „Ég tel þetta hafa verið góðar kappræður. Ég hef tekið þátt í mörgum góðum kappræðum og finnst þetta hafa verið besta frammistaða mín,“ svaraði forsetinn fyrrverandi.
Mirco Reimer-Elster, sem er sérfræðingur í bandarískum málefnum, sagði í samtali við TV2 að Harris hafi staðið sig miklu betur en Trump: „Hún veitti honum ekki bara harða samkeppni, hún valtaði yfir hann.“ Hann sagði engan vafa leika á að Harris sé sigurvegari kappræðnanna.