fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Hvers vegna stoppar flóttafylgið ekki hjá Viðreisn?

Eyjan
Þriðjudaginn 10. september 2024 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að miklir fylgisflutningar fara nú fram frá núverandi ríkisstjórnarflokkum til stjórnarandstöðunnar ef marka má allar skoðanakannanir. Mest er að marka kannanir Gallups sem eru viðamestar. Það breytir ekki því að aðrar kannanir eru í meginatriðum á svipuðum nótum og Gallup. Hér verður einkum vitnað í nýjustu könnun Gallups sem birt var um síðustu mánaðamót.

Frá síðustu Alþingiskosningum hafa ríkisstjórnarflokkarnir þrír tapað 26,8 prósentum fylgis samkvæmt nýjustu könnun Gallups. Sjálfstæðisflokkurinn tapar „bara“ 7.3 prósentustigum og fer í 17,1 prósenta fylgi sem er hið minnsta í sögu flokksins. Framsókn geldur afhroð og missir rúmlega tíu prósenta fylgi. Flokkurinn hefur áður lent í slíkum hremmingum en þá sagði formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson, af sér. Vinstri græn missa fylgi sitt úr 12,6 prósentum í 3,4 prósent sem myndi marka endalok flokksins raungerist það í kosningum.

Fylgið hefur færst með áhrifamiklum hætti til Samfylkingarinnar, 16,5 prósentustig, og til Miðflokksins sem fer úr 5,4 prósentum í síðustu þingkosningum í 16 prósent ef marka má skoðanakönnun Gallups.

Og Viðreisn hefur einungis bætt við sig 1,8 prósentustigum. Farið úr 8,3 prósentum í 10,1 prósent samkvæmt þessari könnun.

Þetta vekur athygli og hlýtur að vera mikið umhugsunarefni innan flokksins. Hvers vegna stoppar flóttafylgið ekki í Viðreisn? Í Silfrinu í gær var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, býsna kampakát yfir 10 prósent fylgi flokks hennar: „Sígandi lukka er best“ sagði hún. Það er út af fyrir sig rétt. En á það við hjá Viðreisn þegar tugir þúsunda kjósenda færa sig frá núverandi vinstri stjórn yfir í stjórnarandstöðuflokka – án þess að fylgið stöðvist í Viðreisn? Það getur alls ekki verið.

Hvers vegna stöðvast flóttamannastraumurinn ekki hjá Viðreisn?

Fyrir því liggja vafalaust nokkrar ástæður. Viðreisn ein þorir að tala um fílinn í herberginu sem er íslenska krónan sem sérhagsmunahópar í landinu beita öllum ráðum til að halda í. Við Íslendingar erum algerir sveitamenn að streitast á móti því að losa okkur undan helsi krónunnar, verðbólgunnar og 9,25 prósenta okurvaxta – í boði vinstri stjórnar Katrínar og Bjarna, nú um stundir. En fleira kemur til. Viðreisn er of upptekin af svonefndum rétttrúnaðar málum. Mætti hafa sig þar hægar um. Viðreisn mætti tala skýrar um sukkið í ríkisrekstri á síðustu sjö árum. Ætlar flokkurinn að sporna við, komist hann í ríkisstjórn? Hver veit?

Orðið á götunni er að endanum snúist þetta allt um fólk. Þingflokkur Viðreisnar telur einungis fimm þingmenn. Sumir þeirra eru öflugir í þinginu, einkum Þorbjörg Sigríður Gunnlaugadóttir sem jafnan leggur andstæðingana í rökræðum, Hanna Katrín Friðriksson sem býr að góðri reynslu úr atvinnulífinu og svo Sigmar Guðmundsson, sá mælski og flinki maður. Vann Morfís á sinni tíð en virðist ekki enn hafa skilið að Alþingi er ekki ræðukeppni. Þar ætti landinu að vera stjórnað. Sigmar talar oft eins og heimsendir sé í aðsigi. Sá málflutningur nær ekki til kjósenda sem vita betur.

Guðbrandur Einarsson er í þessum þingflokki Viðreisnar. Hver er hann? Hvar er hann?

Þorgerður Katrín, sá reyndi og merki stjórnmálamaður, leiðir flokk Viðreisnar. En ekki til þess frama sem við var búist. Hvers vegna dregur flokkur hennar ekki að stærri hluta af því flóttamannafylgi sem nú er á sveimi í íslenskum stjórnmálum? Stór spurning.

Orðið á götunni er að tími Þorgerðar sé að styttast.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“

Ragnar segir tíma til kominn að þora að spyrja stóru spurninganna um lífeyrissjóðina – „Við erum þrælar eigin kerfis“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 4 um ESB/evru: Þýzkaland tók evru fram yfir sitt ofursterka mark (DM) – hvað segir það okkur?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“

Inga lét sverfa til stáls – „Ég get til dæmis ekki lesið í gegnum höfuðið á þér“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “

Sakar dómsmálaráðherra um spillingu – „Hérna, en síðan hvenær var ríkislögreglustjóri í framboði hjá Sjálfstæðisflokknum? “
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Fimmta sætið

Steinunn Ólína skrifar: Fimmta sætið