fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar – Ríkisstjórn á endastöð

Eyjan
Sunnudaginn 1. september 2024 16:25

Hamlet og Ófelía í túlkun bandaríska málarans Edwin Austin Abbey frá árinu 1897. Myndin er í eigu Columbia-háskólans í New York.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Pólitísku tíðindi liðinnar viku voru niðurstöður mælingar sem sýndu fylgi Sjálfstæðisflokksins á landsvísu komið niður í 13,9%. Mér heyrðist á fréttum að forystumenn flokksins væru nú samt bara furðu brattir í ræðum sínum á flokksráðsfundinum í gær — væntanlega í þeirri von að stjórnin tóri heilt ár til viðbótar og þá verði komin betri tíð með blóm í haga. Andrúmsloftið virtist alltént ofurlítið léttara hjá sjálfstæðismönnum en á fundi vinstri grænna á dögunum sem einhver stjórnmálaskýrandinn líkti réttilega við jarðarför.

Samt er erfitt að sjá hvað gæti orðið til að Eyjólfur hresstist. Hitt er jafnlíklegt að fylgi ríkisstjórnarflokkanna dragist enn saman, en í sömu könnun mældist Framsóknarflokkur með 9,0% og Vinstri grænir 4,6%. Menn munu brátt spyrja sig hvað hefur áunnist á sjö ára skeiði samstjórnar flokkanna þriggja. Er þjóðlíf allt í betra horfi nú en þegar fyrra ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur settist að völdum 30. nóvember 2017? Ýmis veigamikil mál eru í slíkum ólestri að því mætti halda fram að okkur hafi farið aftur. Húsnæðisvandinn hefur versnað stórum, lítið hefur verið aðhafst í samgöngumálum, í útlendingamálum er talað um neyðarástand, virkjun fallvatna hefur setið á hakanum svo stefnir í raforkuskort, illa gengur að koma böndum á verðbólguna, ekki sér fyrir endann á skuldsetningu ríkissjóðs, hið opinbera þenst út án þess að þjónusta við borgarana batni, alvarlegum afbrotum hefur snarfjölgað á fáum árum, nærri helmingur drengja er ólæs við lok skólaskyldu og þannig mætti lengi telja. Engan skyldi undra að ríkisstjórnarflokkarnir séu allir rúnir trausti því almenningur eygir ekki von um að stjórnin leiði stóru málin til lykta.

Athygli vakti viðtal Morgunblaðsins fyrir skemmstu við Hildi Sverrisdóttur, formann þingflokks sjálfstæðismanna. Hún sagði ekki koma til álita að framlengja núverandi stjórnarsamstarf eftir kosningar. Gott og vel — hvernig væri þá bara að ljúka þessu af, losa okkur kjósendur undan þessu afleita stjórnarmynstri þar sem flest stærstu hagsmunamál þjóðarinnar eru látin reka á reiðanum? Eða er hugsjónaleysið orðið slíkt að kjör þingmanna, ráðherra og bitlingaþega eru látin vega þyngra á metaskálunum en hagsmunir þjóðfélagsins?

Nú í sumar var efnt til þingkosninga, hvort tveggja í Frakklandi og Bretlandi með skömmum fyrirvara í ljósi þess að landsstjórnin var rúin trausti. Þar tókust menn á við viðfangsefnin af karlmennsku — horfðust í augu við kjósendur og öxluðu ábyrgð. Hér hanga ráðherrar á stólunum eins og hundur á roði. Það er lítil reisn yfir svona pólitík.

Hugmyndafræðileg deyfð

Í nýjasta hefti Andvara, tímarits Þjóðvinafélagsins, birtist prýðilegt æviágrip Ragnhildar Helgadóttur, alþingismanns og ráðherra, sem sagnfræðingarnir Ragnheiður Kristjánsdóttir og Rósa Magnúsdóttir tóku saman. Ragnhildur talaði frá upphafi síns stjórnmálaferils skýrt út frá hugmyndafræði sem í hinum norrænu löndunum yrði kölluð borgaraleg. Í jómfrúarræðu sinni á Alþingi í nóvember 1956 mælti hún fyrir breytingum á lögum um tekju- og eignaskatt í þá veru að veittur yrði skattaafsláttur af fjárhæðum sem gefnar væru kirkjum og félögum sem ynnu að vísindum, menningar- og mannúðarmálum. Hér talaði þingmaður sem skildi vel mikilvægi þess sem á okkar tímum er kallað félagsauður.

Önnur helstu baráttumál hennar sneru að málefnum fjölskyldunnar og heimilisins. Í greininni er meðal annars vísað til skrifa Ragnhildar á áttunda áratugnum þar sem hún gerði að umtalsefni þau vestrænu og kristnu viðhorf sem mótað hefðu íslenska menningu í nær þúsund ár og „afstaða til grundvallarstofnunarinnar í þjóðfélaginu, heimilisins, er í nánu sambandi við meginsjónarmið í stjórnmálum“ eins og hún orðaði það.

Ég hvet alla áhugamenn um stjórnmálasögu að lesa greinina um Ragnhildi en í stjórnmálastarfi hennar birtust áherslur sem borgaralega sinnaðir stjórnmálamenn hafa svo gott sem aflagt — gildi sem stór hluti þjóðarinnar aðhyllist eftir sem áður. Ef við tökum kjörna fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem dæmi þá tala þeir varla um hugmyndafræði lengur, nema mögulega frelsi einstaklingsins og það er þá yfirleitt gert af ábyrgðarlausri værð. Annars virðast mér flestir stjórnmálamenn samtímans kenna sig við frjálslyndi — fátt óttast þeir meira en vera álitnir íhaldsamir. Jafnan er þetta þó frjálslyndi „í tygjum við þann andlega ræfildóm, sem kann ekki greinarmun á frelsi og lausungu“ eins og Helgi Hálfdanarson þýðandi kallaði það eitt sinn.

Öldinni kippt í liðinn

Á sama tíma og sífellt færri styðja stjórnarflokkanna hefur fylgi Samfylkingar og Miðflokks stóraukist. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson beinir mjög tali sínu að gamalgrónum sjálfstæðismönnum enda blasir við að Sjálfstæðisflokkurinn er um þessar mundir einkum og sér í lagi að glata fylgi til Miðflokksins. Kristrún Frostadóttir talar sömuleiðis skýrt. Henni virðist ætla að takast að koma Samfylkingunni aftur inn á braut klassískrar jafnaðarmennsku og hefur þar augljóslega fylgt fordæmi hins farsæla forsætisráðherra Dana, Mette Frederiksen. Ákall kjósenda felur í sér skýrar hugmyndafræðilegar áherslur og Kristrún hefur sinnt því kalli.

Mér finnst ég skynja mikinn bölmóð í samfélaginu, almenningur gerir sér glögga grein fyrir því hversu alvarleg hnignun á sér stað mörgum sviðum. Shakespeare lætur Hamlet Danaprins mæla (í þýðingu áðurnefnds Helga Hálfdanarsonar): „Úr liði er öldin! Ó, mig hryllir við / þeim örlögum, að kippa henni í lið.“ Nú þörfnumst við forystumanna sem þvert á móti þrá að kippa öldinni í samt lag, en það verður ekki gert undir núverandi ríkisstjórnarsamstarfi sem aldrei átti að stofna til og er komið á endastöð.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin