Kannski stafar mannkyninu mesta ógnin af eftirlits- og upplýsingasöfnunarvaldinu í heiminum. Risunum, Google, Facebook og X, áður Twitter, sem skrásetja og greina alla okkar hegðun, sálgreina okkur svo nákvæmlega að þessi fyrirtæki sem eru auðvitað markaðsfyrirtæki eignast vitund, vilja, skoðanir og duldar óskir okkar með húð og hári. Fyrirtækin þekkja okkur jafnvel betur en okkar nánustu fjölskyldumeðlimir og vinir.
Á þessum upplýsingagrundvelli matreiða risarnir ofan í okkur hugmyndir, heimspeki, pólitískan áróður ofan á auðvitað allskonar varning sem otað er að okkur vegna þeirra upplýsinga sem við gefum uppi um okkur sjálf og það sem meira er, þetta leyfum við án mikilla eftirþanka.
Ég hef sjálf sagt í samtölum við aðra þegar þetta ber á góma, ,,ég hef ekkert að fela, líf mitt er ekki merkilegt og þar er ekki eftir neinu að slægjast fyrir markaðsrisana í minni hegðun“, en er það svo í raun?
Allt það sem við aðhöfumst á veraldarvefnum er mynd af sálarlífi okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr og hegðun okkar á netinu skipar okkur í hópa með öðrum líkt leitandi, þenkjandi og þar með erum við orðin hluti af manngerð sem hægt er að ráðskast með, sé sá vilji fyrir hendi.
Risarnir selja jafnvel innsýn inn í sálarlíf okkar til þriðja aðila án okkar leyfis til að geta sýnt fram áhuga okkar á einhverju tilteknu. Við erum þar með orðin hluti af hópi sem sýnir af sér „svona hegðun“, hugsar á „ákveðinn hátt“ og er því líklegur til að falla fyrir „þessu eða hinu“ eða aðhyllast „eitt fremur en annað.“
Með innsýn inn í hegðun manneskjunnar eru fyrirtæki metin að verðleikum, veitt brautargengi og fjármögnuð því við viðtakendurnir erum búin að sýna að við erum viljug hópdýr og móttækileg fyrir því sem að okkur er rétt ef einhver þekkir okkur vel og getur matreitt ofan í okkur það sem við óafvitandi höfum gefið uppi.
Allir hafa lent í því að skoða auglýsingar, klikkbeitur sem leiða bara í ógöngur og hraða sér þaðan út aftur. En fótspor okkar á slíkum ruslslóðum er einhverjum verðmætt, það er eitthvað fyrirtæki sem græðir á villuakstri okkar um veraldarvefinn. Slíkir afkimar eru önglar sem lagðir eru fyrir manneskjurnar, því athygli okkar er söluvara á markaði.
Google sem var góð leitarvél einhvern tímann í fyrndinni er orðin ófært flag. Leitir verða erfiðari og erfiðari, hvergi er þverfótað fyrir auglýsingaönglum sem afvegaleiða og færa okkur frá því sem við leitum að og ýta okkur inn á síður þar sem hegðun okkar er skrásett til framtíðar markaðstækifæra.
Þetta er auðvitað þrælahald af einhverjum toga, þrælahald sem með sálrannsóknum og hegðunarnjósnum heldur okkur að einhverju eða miklu leyti föngnum og mannsandanum þar með ófrjálsari til að afla sér upplýsinga til gagns, til að öðlast skýrleika í hugsun og þar með verja sig gegn ofureflinu.