fbpx
Fimmtudagur 08.ágúst 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Af setningarhátíðum og guðlasti

Eyjan
Sunnudaginn 4. ágúst 2024 15:00

Eitt áhrifamesta listaverk mannsandans, mynd Leonardo da Vinci sem sýnir síðustu kvöldmáltíðina. Gerð á tíunda áratug fimmtándu aldar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fræg er sagan af Englendingnum sem ferðaðist vítt og breytt um Ísland á ofanverðri nítjándu öld og kvaðst ekki skilja að þarna hefði fólk búið í þúsund ár því þess að þess sæjust varla nokkrar minjar að heitið gæti. Menningararfur okkar er nefnilega aðeins að litlu leyti áþreifanlegur — ólíkt því sem gerist í öðrum löndum álfunnar, þar sem hvarvetna blasa við aldagömul mannvirki. Það orkar sterkt á okkur dauðlega menn að sjá og finna til smæðar andspænis óbrotgjörnum minnisvörðum — mennskan er í því fólgin að byggja á reynslu kynslóðanna. 

Óvíða er að finna jafnmargar þekktar táknmyndir í menningarminjum og í París og ekki að undra að skipuleggjendur setningarathafnar Ólympíuleikanna hafi nýtt sér umhverfi Signubakka sem leiksvið. Sú athöfn var á ýmsan hátt stórbrotin og falleg en að öðru leyti yfirborðskennd og á köflum jafnvel lágkúruleg eða það sem á erlendum málum er kallað „kitsch“. 

Að vera fangi eigin sjálfsmyndar 

Í Le Figaro á þriðjudaginn var birtist löng grein eftir franska heimspekinginn Bérénice Levet sem kvað setningarathöfnina einkennast af virðingarleysi fyrir sögunni. Hún sagði skipuleggjendur athafnarinnar illa haldna af provincialisme sem þýða mætti sem nesjamennsku, en þó ekki í staðbundinni merkingu heldur sögulegri, í þeim skilningi að telja heiminn einkaeign lifenda — að arfleifð hinna framliðnu eigi sér þar engan stað. 

Levet sagði skilaboðin með athöfninni þau að eindrægni frönsku þjóðarinnar, hin eilífa þjóðarsál, væri fyrir bí og fjölbreytni þess í stað hampað sem höfuðdyggð. Þetta er kunnuglegur söngur á okkar tímum en þá er til þess að líta að fjölbreytni er ekki ákjósanleg í sjálfu sér, hvað þá að hún sé dyggð. Fjölbreytni er bara góð eða slæm eftir atvikum, rétt eins og einsleitni — hún getur undir ýmsum kringumstæðum talist eftirsóknarverðari en fjölbreytni. 

Thomas Jolly, listrænn stjórnandi setningarathafnarinnar, hafði þó komist svo að orði að hann vildi setja upp viðburð sem sýndi fram á einingu og eindrægni en Levet segir útkomuna hafa orðið allt aðra og á sviðinu hafi mátt sjá einstaklinga sem væru „fangar tíðarandans“ og „eigin sjálfsmyndar“ eins og hún orðar það og þá sér í lagi hvað snerti kynferði og kynvitund.  

Táknmynd valdsins 

Mikið hefur verið skrafað um þann þátt athafnarinnar sem sýndi skrumskælda mynd af síðustu kvöldmáltíðinni leysast upp í einhvers konar Díónýsusarhátíð. Reiner Haubrich, blaðamaður Welt, sem er menningarsagnfræðingur að mennt og höfundur fjölda bóka, kallaði það ósmekklegt að vísa til píslarsögu Krists með jafn yfirborðskenndum hætti og þarna hefði verið gert. Enginn velktist í vafa um að það hefði verið kallað „islamophob“ að bæta Múhameð spámanni við samkvæmið og láta hann dilla sér íklæddur bikini. 

Það er í sjálfu sér rétt en kristin kirkja er samt ekki í líkri valdastöðu og trúarleiðtogar eru í löndum múhameðstrúarmanna. Hvað sem því líður er kristin trú oftlega notuð sem táknmynd valdsins. Í því ljósi er ekki að undra að hún verði skotmark háðsádeilu, kannski sér í lagi þess sem finnst hann ofsóttur eða „jaðarsettur“ (sem er auðvitað kaldhæðnislegt í ljósi sögu frumkristninnar). Það réttlætir samt ekki guðlast en skýrir hvers vegna kristnin er notuð með þessum hætti.  

Gluggi inn í eilífðina 

Ég las nýverið hina víðfrægu bók Dominion, eftir breska sagnfræðinginn Tom Holland, þar sem hann leiðir að því rök að áhrif kristninnar á vestræna menningu séu svo djúpstæð og margslungin að skrumskæling á frásögnum guðspjallanna, líkt og við urðum vitni að á opnunarhátíðinni, eigi sér beinlínis rætur í kristinni kenningu, nánar tiltekið siðbótarhreyfingunni. Meira að segja hugmyndin um guðleysi sé sprottinn af arfleifð siðbótarinnar — hugmyndin um að menn geti valið sér trú og jafnvel ekki játað neina trú. Sömu sögu megi segja af vestrænu frjálslyndi og virðingu fyrir rétti hins undirokaða, þarna birtist okkur hin kristna arfleifð. 

En hvað sem líður skrumskælingu á síðustu kvöldmáltíðinni þá er sú saga með tilteknum hætti viðeigandi í þessu samhengi því síðustu kvöldmáltíðina mætti kalla „setningarhátíð kristninnar“. Haraldur Níelsson, einn af okkar fremstu guðfræðingum í byrjun síðustu aldar, leit svo á að með kvöldmáltíðinni hefði Kristur viljað „gera lærisveinum sínum það ljóst með þessari helgu athöfn, að samfélaginu við hann væri ekki slitið, þótt hann dæi“. Annar íslenskur guðfræðiprófessor, Jón Ma. Ásgeirsson, orðaði það svo í grein árið 2010 að kvöldmáltíðarathöfnin væri „gluggi inn í eilífðina“. Þar birtist sú útsýn sem við virðumst þrá og er hvort tveggja í senn tenging við upprunann og vegvísir til framtíðarinnar. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Ný-mjór

Óttar Guðmundsson skrifar: Ný-mjór
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Kennslustund í sumarúða

Steinunn Ólína skrifar: Kennslustund í sumarúða
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Fótboltinn

Óttar Guðmundsson skrifar: Fótboltinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
EyjanFastir pennar
07.07.2024

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun
EyjanFastir pennar
04.07.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Úr Hrunamannahreppi í Hafnarfjörð

Þorsteinn Pálsson skrifar: Úr Hrunamannahreppi í Hafnarfjörð
EyjanFastir pennar
02.07.2024

Svarthöfði skrifar: Pólitískur gereyðingarmáttur Íhaldsins

Svarthöfði skrifar: Pólitískur gereyðingarmáttur Íhaldsins
EyjanFastir pennar
29.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“

Sigmundur Ernir skrifar: „Krísa íslenskrar pólitíkur leikur íhaldið jafn grátt og ysta vinstrið“
EyjanFastir pennar
27.06.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: V og D á svissneskum vogarskálum

Þorsteinn Pálsson skrifar: V og D á svissneskum vogarskálum
EyjanFastir pennar
26.06.2024

Svarthöfði skrifar: Íslandsmet í sjálfshóli án atrennu

Svarthöfði skrifar: Íslandsmet í sjálfshóli án atrennu