Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, gerir sér mat úr nýjum skoðanakönnunum Maskínu í færslu á samfélagsmiðlum í dag. Ekki er laust við að það hlakki í Degi yfir því hvað kannanirnar sýna.
„Það væri auðvitað freistandi að hafa orð á því að Samfylkingin í borginni (26%) mælist langstærsti flokkurinn í nýrri borgar-könnun en Sjálfstæðisflokkurinn dalar (20%),“ segir Dagur og ber saman fylgi meirihlutans í borginni og ríkisstjórnarinnar. „Meirihlutaflokkarnir hafa nánast haldið sjó samanlagt frá kosningum – en ríkisstjórnarflokkarnir hafa misst helming fylgis síns frá kosningum.“
Nefnir Dagur að í alþingiskönnuninni mælist Sjálfstæðisflokkurinn með aðeins 10 prósent.
„Öðru vísi mér áður brá. Flokksmenn hafa verið duglegir við að skamma borgarstjórnarflokkinn sinn – og í það ætla ég ekki að blanda mér – en hugsanlega þarf að kafa dýpra,“ segir Dagur. „Kannski er það ekki besta taktíkin af sumum þingmönnum og jafnvel ráðherrum að andskotast alltaf þetta út í borgina… við segjum ekki meir, og kannanir eru auðvitað einmitt það, kannanir, en ekki kosningar. Áfram, hærra!“