fbpx
Miðvikudagur 15.janúar 2025
Eyjan

Topparnir hjá Högum fá kauprétt á sama tíma og áfengissala Hagkaupa opnar – Stærsti hluthafinn reyndi að sporna við

Kristinn H. Guðnason
Miðvikudaginn 28. ágúst 2024 16:30

Sigurður Reynaldsson (t.v.) boðaði áfengissölu Hagkaupa. Samkvæmt tillögu stjórnar fær Finnur Oddsson forstjóri (t.h.) leyfi til að kaupa 0,4 prósent í félaginu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Útlit er fyrir að níu æðstu starfsmenn Haga fái kauprétt í félaginu á hagstæðum kjörum í næsta mánuði. Reikna má því með að fyrirætlanir Haga um áfengissölu í Hagkaup muni koma þeim persónulega mjög til góða. Stærsti eigandinn í Högum, lífeyrissjóðurinn Gildi, hefur þó reynt að draga úr umfangi kaupréttanna.

Tillaga um kauprétt forstjóra, framkvæmdastjóra og nokkurra lykilstarfsmanna var lögð fram á aðalfundi Haga þann 30. maí síðastliðinn. Samkvæmt henni átti að verða heimilt að útdeila rúmlega 22 milljón hlutum í kaupréttarkerfi, það er 2 prósentum af hlutafé félagsins. Finnur Oddsson, forstjóri, hefði fengið rétt til að kaupa allt að 0,4 prósent í félaginu og aðrir lykilstarfsmenn 0,2 prósent.

Uppgefin ástæða fyrir kaupréttarkerfinu er sú að tvinna saman hagsmuni lykilstarfsmanna og hluthafa félagsins. Það er að skapa hvata fyrir þá að skapa hagnað.

Þann 23. maí, viku fyrir aðalfund Haga, tilkynnti Sigurður Reynaldsson framkvæmdastjóri Hagkaupa að opnuð yrði netverslun með áfengi. Þar með myndi smásölurisinn fylgja í fótspor Costco, Sante Wines, Smáríkisins og fleiri aðila sem hafa riðið á vaðið og opnað netverslanir í trássi við einokun ÁTVR á áfengissölu.

Sagði Sigurður að upphaflega hafi Hagkaup ætlað að bíða þar til stjórnvöld myndu setja skýrari ramma utan um starfsemina, en hann hafi hins vegar ekki komið fram. Greindi hann frá því að undirbúningur væri á lokametrunum og áfengissalan myndi hefjast í júní. En þessu var hins vegar frestað, rétt eins og ákvörðun stjórnar Haga um kauprétt lykilstarfsmanna.

Stærsti hluthafinn reynir að sporna við

Lífeyrissjóðirnir eiga meira en þrjá fjórðu hlut í Högum og stærsti eigandinn er lífeyrissjóðurinn Gildi með tæplega 18 prósent. Það var vegna breytingatillögu frá Gildi sem ákvörðun um kauprétti var frestað á aðalfundinum í maí. Í stað þess að kjósa um tillögurnar var ákveðið að kjósa um hana á næsta hluthafafundi.

Í breytingartillögunni er dregið úr kaupréttum, hver starfsmaður fái mest að kaupa 0,15 prósent í félaginu og á hærra verði en í upphaflegu tillögunni.

„Markmiðið er að kaupréttarhafi hagnist ekki á kaupréttarkerfinu nema með aðgerðum sem hafi jákvæð áhrif á hlutabréfaverð til lengri tíma litið og er kerfið þannig uppbyggt að mati stjórnar að ekki er litið til skammtímaáhrifa á gengi hlutabréfa í félaginu,“ segir í breytingatillögu Gildis.

Sjá einnig:

Lögreglurannsókn á lokastigi á sama tíma og Hagkaup boðar áfengissölu í Skeifunni

Þá þurfi að útfæra kerfið í samhengi við önnur árangurstengd starfskjör. Kaupréttarkerfið sé í raun hrein viðbót við núverandi laun umræddra lykilstarfsmanna og því sé rétt að lækka eða að minnsta kosti að hækka ekki launin.

Samkvæmt tillögu stjórnar ávinnur lykilstarfsfólk sér inn kauprétt á hverju ári. Verðið miðar við núverandi gengi í Högum og næstu kaup uppreiknuð með 5,5 prósent vöxtum frá fyrra ári. En Gildi telur verðið of lágt. Frekar eigi að miða við meðalverð 20 daga fyrir kaupin og uppreiknaðir vextir séu 7,5 prósent.

„Umrætt gengi er nokkuð undir núverandi gengi hlutabréfa félagsins og því væri að óbreyttu verið að leggja upp með innbyggðan hagnað í upphafi innleiðingar á hinu nýja kaupréttarkerfi,“ segir í greinargerð Gildis.

Heppilegar tímasetningar

Eins og áður segir frestaði Hagkaup opnun áfengisverslunar á sama tíma og ákvörðun um kauprétti var frestað. Í viðtali við Vísi í júlí sagði Sigurður að pappírsvinnan hefði verið meiri en áætlað var. Það er mál sem tengdust leyfum og kennitölum. Þá væri Hagkaup einnig að missa tæknifólkið sitt í sumarfrí.

Um miðjan ágúst var svo greint frá því að áfengissala Hagkaupa myndi hefjast á næstu tveimur vikum. Það er í síðasta lagi um mánaðamótin, en hún er ekki enn þá hafin.

Rétt eins og í maí rennur tímasetning um ákvörðun kaupréttasamninga og opnun áfengisverslunar saman hjá Högum. Áðurnefndur hluthafafundur, þar sem kosið verður um tillögurnar tvær, verður haldinn á föstudag, 30. ágúst.

Reikna má því með að hagur níu lykilstarfsmanna félagsins muni vænkast á komandi vikum þótt óljóst sé hvort Hagar græði mikið á þessu í ljósi þess að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú lögmæti netverslunar áfengis hjá einkaaðilum og skatturinn hafi skilað lögreglu svarta skýrslu um starfsemina. Ekki sé ólíklegt að þessum netverslunum verði brátt lokað.

Þá hefur breiðfylking félaga heilbrigðisstétta og forvarnarsamtaka talað hart gegn starfsemi einkarekinna netverslana með áfengi. En undir þeirri regnhlíf eru meðal annars Læknafélag Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfélaga, Sjúkraliðafélag Íslands, Sálfræðingafélag Íslands, SÁÁ og mörg fleiri félög.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Opinn fundur um tjáningarfrelsi og framtíð fréttamennsku

Opinn fundur um tjáningarfrelsi og framtíð fréttamennsku
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorsteinn Pálsson: Samskiptin við Bandaríkin lík samskiptum við alræðisríki

Þorsteinn Pálsson: Samskiptin við Bandaríkin lík samskiptum við alræðisríki