Sjálfstæðisflokkurinn tapar 3 prósentustigum á milli kannana en Viðreisn bætir við sig 3 prósentum. Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, er vinsælasti borgarfulltrúinn.
Þetta kemur fram í borgarvita Maskínu þar sem kannaðir eru ýmsir þættir varðandi stjórn borgarinnar.
Ekki eru miklar breytingar á fylgi flokkanna. Áðurnefnd sveifla Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar eru þær mestu.
Sjálfstæðisflokkurinn fengi nú 20 prósent samkvæmt könnuninni en hafði 23 prósent í síðustu könnun, í mars síðastliðnum. Flokkurinn var stærsti flokkurinn í síðustu borgarstjórnarkosningum með 25 prósenta fylgi en hafnaði þó í minnihluta.
Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn í könnuninni með 26 prósenta fylgi, það sama og hann mældist með í síðustu könnun. Þetta yrði nokkur bæting en Samfylkingin fékk 20 prósent í síðustu kosningum, vorið 2022.
Viðreisn fer úr 9 prósentum í 12 en flokkurinn fékk aðeins 5 prósent í síðustu kosningum. Píratar halda sínum 12 prósentum milli kannanna og Framsóknarflokkurinn mælist áfram með aðeins 4 prósent, en Framsóknarflokkurinn vann mikinn sigur í síðustu kosningum og hlaut 19 prósent. Miðað við stöðuna núna er óvíst hvort að flokkur borgarstjórans myndi ná inn fulltrúa í kosningum.
Samanlagt fylgi meirihlutaflokkanna fjögurra mælist nú 51,3 prósent en þeir fengu 55,8 í kosningunum.
Sósíalistar mælast með 8 prósent eins og í síðustu könnun og í kosningunum. Miðflokkur mælist einnig með 8 prósent, en flokkurinn fékk aðeins 2 prósent í kosningunum og var langt frá því að ná inn manni.
Flokkur fólksins mælist með 6 prósent, einu prósenti minna en í síðustu könnun, og Vinstri græn tapa sömuleiðis einu prósenti, fara úr 4 prósentum í 3.
Sanna Magdalena Mörtudóttir, sósíalisti, er nú sá borgarfulltrúi sem flestir telja að hafi staðið sig best á kjörtímabilinu, 18 prósent.
Í öðru sæti er Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri og oddviti Samfylkingar, sem mælist nú með 16 prósent en var með 22 prósent í könnun Maskínu í mars og þá langvinsælasti borgarfulltrúinn.
Á eftir þeim tveimur koma Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokks með 14 prósent, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og oddviti Framsóknarflokks með 7, Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins með 6, Alexandra Briem Pírati 6, Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata 6, Kjartan Magnússon Sjálfstæðismaður 5, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir hjá Viðreisn 5 og Heiða Björg Hilmisdóttir hjá Samfylkingu 4.
18 prósent telja að meirihluti borgarstjórnar hafi staðið sig vel en 44 prósent illa. Þetta er mjög svipað og í síðustu könnun. Mestan meðbyr hafði meirihlutinn í desembermánuði árið 2022, en þá töldu 22 prósent hann hafa staðið sig vel.
En þó að meirihlutinn mælist ekki hár þá mælist minnihlutinn langtum minni. Aðeins 10 prósent telja að minnihlutaflokkarnir hafi staðið sig vel á kjörtímabilinu en 42 prósent telja hann hafa staðið sig illa. Minnihlutinn hefur aldrei mælst með meira en 12 prósent ánægju.
23 prósent eru ánægð með störf Einars Þorsteinssonar borgarstjóra. Þar af 26 prósent í miðborg og Vesturbæ, 25 í Hlíðum, Laugardal, Háaleiti og Bústaðahverfi en aðeins 20 prósent í hverfum austan Elliðaáa.
Könnunin fór fram 7. til 16 ágúst. Svarendur voru 869.