fbpx
Miðvikudagur 28.ágúst 2024
Eyjan

Ole Anton Bieltvedt skrifar: 100.000 króna sekt verði við vopnaburði í þéttbýli

Eyjan
Miðvikudaginn 28. ágúst 2024 08:00

Ole Anton Bieltvedt.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég hygg, að flestu hugsandi og ábyrgu fólki sé löngu farið að blöskra þær tíðu og alvarlegu hnífstunguárásir, sem eru að eiga sér stað í okkar litla samfélagi. Hvaða ófögnuður hefur eiginlega hlaupið okkar unga fólk, gripið það!? Í raun má líkja þessum hnífa- og vopnaburði við hálfgert æði, firringu, þar sem eðlilegri hugsun og skilningi á því hvað er siðsöm og ábyrg framkoma er varpað fyrir róða. Virðing við verðgildi lífs og lima annarra, velferð þeirra, fótum troðin. Stórt og vont skref aftur í tímann. Þar glittir í miðaldir.

Í „gamla daga“ lentu menn oft í slagsmálum, ekki síst á fylliríi, og meiddu þá ribbaldar oft hvern annan, slösuðu, börðu stundum hvern annan í Bakkusar-rugli með flösku í hausinn. Var þetta auðvitað nógu ljótt og illt.

Munurinn á því, sem þá var, og því, sem nú, er samt sá – og er það mikill munur – að menn fóru í fyrndinni sjaldnast að heiman, á ball eða önnur mannamót, með þau áform í huga, undir það búnir að meiða eða særa, limlesta, hvað þá drepa Pétur eða Pál. 

Nú taka menn hníf, hnúajárn, eða bara skrúfjárn, til handargagns, koma þessu vel fyrir inni á sér, eða í bíl, með þeim skýra ásetningi að ef einhver leyfir sér að vera að ybbast eitthvað upp á viðkomandi, þó að ekki sé nema í orðum, þá skuli hann fá að kenna á því, hnífstunga í handlegg, búk eða háls, andlitsbein eða nef brotin með hnúajárni eða skrúfjárn keyrt jafnvel í gegnum brjósthol og lungu.

Fyrir undirrituðum er þetta ekkert nema fjandans ónáttúra, sem hlaupið hefur í ýmsa unglinga og aðra, og er afleiðingin óöryggi og hálfgerð skálmöld, sem gengur þvert á alla viðleitni til að byggja hér siðmenntað, öruggt og mannvænt samfélag.

Skv. nýlegri frétt í MBL voru útköll sérsveitarinnar, en hún er ekki kvödd til nema að vopn séu í spilinu, 50 talsins allt árið 2013, en á síðasta ári, 2023, voru þau 461! 

Í frétt af viðtali við Fjölni Sæmundsson, formann Landssambands lögreglumanna, á RÚV, líka nú í júni, segir m.a. þetta:

„Fjölnir segir að harka í samfélaginu hafi aukist og vopnaburður sé orðinn algengari, sem vitanlega hafi mikil áhrif á störf lögreglu og álag. Lögreglumenn eigi fyrst og fremst að huga að eigin öryggi og öryggi borgaranna. Þess vegna sé sérsveit kölluð út oftar en áður“.

Líka þetta:

„Fjölnir segir að hnífstungur hafi aukist og lögregla finni oft vopn í bílum sem hún stoppi. Það sé alltaf styttra í að vopnum sé beitt, gangi fólk með þau á sér, jafnvel þótt það segist aðeins eiga vopnin sér til varnar. Þetta sé áhyggjuefni“.

RÚV átti líka viðtal við Margréti Valdimarsdóttur, doktor í afbrotafræði, nú á dögunum, og í frétt af því segir m.a. þetta:

„Vopnaburður ungs fólks er að aukast. Doktor í afbrotafræði segir þróunina alvarlega og mikilvægt sé að finna viðeigandi úrræði fyrir þessa ungu gerendur. – Vopnaburður og ofbeldi er að færast í aukana meðal ungs fólks á Íslandi. Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og dósent við Háskóla Íslands, stóð ásamt fleirum fyrir könnun meðal ungmenna á aldrinum 13 til 16 ára, þar sem vopnaburður var meðal annars kannaður. Þegar börnin voru spurð hvers vegna þau beri vopn var algengasta ástæðan sjálfsvörn. Fæst þeirra ef nokkur ætluðu að nota vopnið til að ráðast á einhvern“.

Þetta virðist sýna ljóst að vítahringur sé að myndast meðal unglinga hér hvað varðar vopnaburð. Fleiri og fleiri gangi út frá því að aðrir beri vopn, og þess vegna telja þeir sig þurfa, að bera vopn sjálfir. Ég efast þó um, að þetta sé rétt heildarmynd. Skyldi enginn hafa vopnað sig til þess eins að geta ráðist á aðra að fyrra bragði án þess að á hann sjálfan væri ráðist með vopnum!? Er þessi vopnaburður unglinga ekki líka, kannski mikið, hluti af einhverri ofbeldis- og drottnunarhneigð og ómenningu!?

Nóg virðist vera af meiðingum, særingum og drápum, án þess að fórnarlambið sjálft hafi beitt vopni. Ef ég skil atburðarásina á Menningarnótt rétt réðist þar 16-ára unglingur á 2 óvopnaðar og varnarlausar stúlkur og óvopnaðan palestínskan dreng, sem öll voru að reyna að forða sér í bíl, virðist árásadrengur meira að segja hafa brotið rúðu í bílnum til að geta komið hnífstungum á þau og það í slíkum mæli að önnur stúlkan liggur nú á gjörgæzlu, milli heims og heljar.

Þar með dettur auðvitað botninn nokkuð úr þeirri túlkun og fullyrðingu, að unglingar vopni sig bara í sjálfsvarnarskyni. Í mínum huga blandast líka inn í þetta ónáttúra og grimmd, yfirgangs- og ofbeldishneigð, sem nokkuð kann að stafa af ófullnægjandi uppeldi og slæmum heimilisaðstæðum þó að það þurfi ekki alltaf að vera.

Doktorinn talar um „viðeigandi úrræði“. Það eru mikið notuð orð, vinsæl, en orðin hálf slitin og meira bara eitthvert snakk, heitt loft, því hver á að standa fyrir þeim úrræðum, hvernig á að fá vandræðagripina inn í þau og hvaðan eiga peningarnir að koma? Það vantar „viðeigandi úrræði“ alls staðar.

Fyrir mér er hér engin leið fær og virk nema afgerandi harðar og skýrar aðgerðir, harkan sex. Viðurlög, sem ekki þarf mikið að vöflast með eða ræða og allir skilja. Banna þarf vopnaburð hvers konar í þéttbýli, úti og inni, svo að ekki sé talað um í skólum. Brot varði 100.000 króna ófrávíkjanlegri sekt. 

Sveitar- og bæjarfélög verða að standa fyrir slíku banni og svo þarf dómsmálaráðherra sennilega að koma að málinu með lagasetningu. Fyrir brot þarf að refsa harðlega og strax, lágmark með 100.000 króna sekt fyrir burð á hnífi, hnúajárnum, skrúfjárni eða öðrum hættulegum verkfærum eða vopnum.

Það ætti svo að verða gert að skyldu allra, sem að svona málum koma, að kalla strax til lögreglu til að tryggja framgang vopnasviptingar og sektarákvæðis. Hér má enga linkind sýna og hér er ekki eftir neinu að bíða.

Höfundur er samfélagsrýnir og dýraverndarsinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt

Sigmundur Ernir skrifar: Afhjúpun á íhaldsins nekt
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Formaður Neytendasamtakanna: Áfellisdómur yfir Fjármálaeftirlitinu að hafa ekki tryggt að lánaskilmálar bankanna standist lög

Formaður Neytendasamtakanna: Áfellisdómur yfir Fjármálaeftirlitinu að hafa ekki tryggt að lánaskilmálar bankanna standist lög
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi

Steinunn Ólína skrifar: Allir eru ómissandi
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Formaður Neytendasamtakanna: Háir stýrivextir virka ekki – fjármagnseigendur maka krókinn og almúginn hrekkst í verðtryggð lán

Formaður Neytendasamtakanna: Háir stýrivextir virka ekki – fjármagnseigendur maka krókinn og almúginn hrekkst í verðtryggð lán
Eyjan
Fyrir 1 viku

Skólamál: Niðurstöður PISA sýna aukinn félagslegan ójöfnuð á Íslandi og færri afburðanemendur en í öðrum löndum

Skólamál: Niðurstöður PISA sýna aukinn félagslegan ójöfnuð á Íslandi og færri afburðanemendur en í öðrum löndum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Kolefnisjöfnun

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Kolefnisjöfnun