fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Öfugmæli Bjarna í Silfrinu – flokkurinn milli steins og sleggju

Eyjan
Þriðjudaginn 27. ágúst 2024 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fór yfir sumarið, efnahagsmálin, ríkisstjórnarsamstarfið og meinta ánægju flokksfélaga hans í Sjálfstæðisflokknum með formennsku hans í Silfrinu í gær. Orðið á götunni er að þeir fáu sem horfa á Silfrið á mánudögum hafi lítið kannast við lýsingar Bjarna á góðri hagstjórn mikilli samstöðu innan ríkisstjórnarinnar, sumir hafi jafnvel talið hann fara með fleipur.

Bjarni var spurður út í stöðu sína sem formaður í Sjálfstæðisflokknum. Úr loðnu orðalagi í svari hans mátti lesa að hann sé alvarlega farinn að hugsa um að hverfa úr stóli formanns á næsta landsfundi flokksins, sem heldinn verður í vor.

Orðið á götunni er að ákvörðun um áframhaldandi formennsku sé ekki að öllu leyti í höndum Bjarna. Meðal flokksmanna sé vaxandi vantrú á að hann hafi getu til að hífa fylgi flokksins upp úr þeim sögulegu lægðum sem það hefur verið í allt þetta ár og raunar lengur, en allt þetta ár hefur fylgi flokksins mælst undir 20 prósentum í öllum skoðanakönnunum.

Bjarni sagði keikur í Silfrinu að hann hefði haft góðan stuðning frá sínu fólki og það væru helst pólitískir andstæðingar sem vildu losna við hann af formannsstóli í flokknum. Orðið á götunni er að þessu sé þveröfugt farið, það séu einmitt pólitískir andstæðingar Sjálfstæðisflokkinn sem vilji fyrir alla muni halda Bjarna sem formanni, enda sé það ávísun á slakt gengi flokksins í næstu þingkosningum gangi hann til þeirra undir forystu óvinsælasta og traustminnsta stjórnmálamanns landsins, sem þar að auki leiði nú óstarfhæfa ríkisstjórn sem nýtur trausts innan við 28 prósenta kjósenda.

Orðið á götunni er að það geti þó bjargað formennsku Bjarna að enginn sjáanlegur eftirmaður hans er í sjónmáli. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem fékk yfir 40 prósent atkvæða í formannskosningu á síðasta landsfundi myndi líkast til velta Bjarna úr sessi á næsta landsfundi ef hann kærði sig um það, en talið er að hann hafi ekki hug á að bjóða sig fram aftur.

Nefndar eru til sögunnar þrjár konur; Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðrún Hafsteinsdóttir. Orðið á götunni er að allar þrjár hafi augastað á formennskunni og líklegt sé að þær bjóði sig allar fram verði Bjarni ekki í kjöri. Allar eigi þær eitthvert bakland í flokknum en einnig mæti þær töluverðir andstöðu hver og ein. Litið var á Þórdísi Kolbrúnu sem sjálfsagðan arftaka í flokknum en hún njóti ekki lengur óskoraðs trausts flokksmanna. Sterk öfl innan flokksins standa að baki Áslaugar Örnu en mörgum þykir hún ekki hafa sýnt þá dómgreind á ráðherrastóli sem krafist er af formanni flokksins. Guðrún er talin eiga nokkuð fylgi á landsbyggðinni en það sé minna á höfuðborgarsvæðinu.

Orðið á götunni er að formannsslagurinn geti því orðið mikil hjaðningavíg sem ólíklegt sé að styrki flokkinn í aðdraganda kosninga. Niðurstaða landsfundar geti orðið tvenns konar: Stórlaskaður Bjarni Benediktsson verði áfram formaður eða nýr formaður, með mjög veikt umboð, leiði flokkinn til kosninga. Sjálfstæðisflokkurinn sé því milli steins og sleggju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni

Þorsteinn Pálsson skrifar: Pælingar um raunsæi og bjartsýni
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Lofar nýjum og betri Brynjari 2025 – „Ekki þjóðsaga að nefið stækki með hverri lygi“

Lofar nýjum og betri Brynjari 2025 – „Ekki þjóðsaga að nefið stækki með hverri lygi“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“

Efling segir SVEIT grípa í hálmstrá – „Geta þar sjálfum sér um kennt“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn