fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Hinn ærandi skarkali

Eyjan
Sunnudaginn 25. ágúst 2024 19:00

Hugsuðurinn eftir Rodin

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar ég vaknaði í morgun leit ég yfir helstu fréttir íslenskra miðla af atburðum næturinnar, á hinni svonefndu „menningarnótt“. Lögregla hafði í nógu að snúast og tíðindi voru flutt af slagsmálum og líkamsmeiðingum, þar með talið hnífstungum. Ekki mikill menningarauki af því. Ég leit líka á samfélagsmiðla og sá að Ari Gísli Bragason fornbókasali hafði ekki séð sér fært að hafa verslun sína opna í gær þar sem ómögulegt var að hafast við þar inni vegna yfirþyrmandi hávaða frá plötusnúð sem þeytti skífur af stóru sviði sem komið hafði verið fyrir rétt við verslunina. Ekki heldur góður bragur á því að ein menningarlegasta verslun borgarinnar þurfi að vera lokuð þennan dag. En ég sá að ýmsir höfðu á orði að hvert sem farið var um miðbæinn í gærdag hefði hávaðinn verið óskaplegur — á þeirri hátíð sem kölluð er menningarnótt bæri mest á hávaðasömum viðburðum, útihljómleikum sem ættu mikið frekar heima á þjóðhátíðardaginn. Hátíðahöldin á lýðveldisdaginn eru raunar varla svipur hjá sjón, Reykjavíkurborg hefur ekki séð sóma sinn í að efna til kvöldskemmtunar um árabil, en úr því mætti bæta með því að flytja stóru hljómlistarviðburði menningarnætur yfir á sautjánda júní.

Ábendingar Ara Gísla leiddu líka hugann að því hvernig komið er fyrir miðbænum. Flestar rótgrónar verslanir hafa hörfað þaðan undangenginn áratug og landsmenn fátt þangað að sækja annað en matsölustaði og skemmtanalíf. Einn veitingamaðurinn kvartaði undan afskiptum lögreglu af fjölda borða og stóla framan við kaffihús hans en reglulega berast fréttir af slíku. Á sama tíma er látið óátalið að öldurhús í miðbænum hafi hátalara úti fyrir dyrum sínum og láti glymja misáheyrilega popptónlist vegfarendum til ama og leiðinda. Ég hefði talið að slíkt varðaði við lögreglusamþykkt Reykjavíkur. Bæjarbraginn setur niður við það ónæði sem þessu fylgir.

Mikilvægi þess að hugsa

Einn rithöfundurinn talaði um „dynkjavæðingu“ á menningarnótt, hljómflutningstækin séu svo kraftmikil að allt leiki á reiðiskjálfi. En einhverjir höfðu á orði að þessar umkvartanir væru bara raus í karlfauskum, en hvað sem því líður langar mig að taka undir með umræddum körlum. List er nefnilega oft þess eðlis að hennar þarf að njóta í næði því hún þarfnast íhugunar — hugsunar. Sigurður Nordal sagði eitt sinn að listin að lifa væri framar öllu „listin að hugsa, að hugsa frjálslega, af einlægni og alvöru“. Og djúp hugsun krefst einbeitingar.

Ég las á dögunum bók danska sálfræðiprófessorsins Svend Brinkmann, Tænk – til forsvar for et tankefuldt liv, sem út kom fyrir tveimur árum. Þar gerir hann að umtalsefni mikilvægi þess að við hugsum — gefum okkur tíma til að láta hugann reika og hugsum djúpt og skipulega. Hann bendir á að þegar Danir segi „jeg tænker“ hafi það núorðið oft áþekka merkingu og „jeg føler“. Orðið hafi glatað nokkru af hinni tæru merkingu sinni. Danska orðið tænke er rótskylt norræna orðinu þekkja — enda dregur Brinkmann vel fram hvernig hugsun sé vitaskuld lykill að skilningi. Allt æðra nám krefst djúprar hugsunar og hún næst ekki fram nema með mikilli þjálfun. Í því agaleysi sem ríkir víða í skólum hér á landi er hætt við að slíkt fari fyrir ofan garð og neðan.

Brinkmann leggur áherslu á að verja þurfi tungumálið, sjá til þess að orð glati ekki merkingu sinni — enda séu þau lykill að hugsuninni. Þegar ég hef verið að hvetja nemendur mína til aukins bóklesturs reyni ég gjarnan að benda á að aukin málfærni og orðaforði gagnist ekki eingöngu við ritun texta, skilning á efni og tjáningu — heldur ekki hvað síst við hugsunina sjálfa. Hafi menn til að bera góðan orðaforða er næsta víst að hugsunin verður dýpri en ella, enda unir skipulögð hugsun ekki óvönduðu málfari. Hugsaðu áður en þú talar — lestu áður en hugsar, eru ágæt kjörorð í þessu sambandi.

Töfrum líkast

Af því ég vitnaði hér að framan til Sigurðar Nordal þá segir hann líka á einum stað að munurinn á vitrum manni og heimskingja sé oft alls ekki fólginn í ásköpuðu gáfnafari „heldur í því, að annar stefnir á brattann í hugsunum sínum, en hinn vafrar um í þoku sinnuleysis og verður vinglaður á að elta skottið á sjálfum sér“. Brinkmann dregur áþekkar ályktanir í sinni bók og vitnar mikið til heimspekinga allt aftur í fornöld.

Orðið hugur var í fyrndinni notað í ýmsum germönskum málum um sjálfstæða sál eða anda sem gat farið út úr líkamanum og látið þar til sín taka. Sú orðanotkun segir okkur ef til vill eitthvað um skilning forfeðra okkar á gildi djúprar hugsunar — áhrifin væru töfrum líkust. Og djúp hugsun er ekkert minna en lykillinn að lífshamingjunni segir Brinkmann, en til að við getum ástundað hana er nauðsynlegt að skrúfa niður í skarkalanum og síbyljunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina

Björn Jón skrifar: Ástæða til bjartsýni á framtíðina
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar

Óttar Guðmundsson skrifar: Einmanaleiki drykkjunnar
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
02.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin

Óttar Guðmundsson skrifar: Móðgaða þjóðin