fbpx
Fimmtudagur 22.ágúst 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Aftur eða aldrei aftur?

Eyjan
Fimmtudaginn 22. ágúst 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Formaður þingflokks sjálfstæðismanna opnaði stjórnmálaumræðuna eftir hefðbundna sumarládeyðu. Boðskapurinn var skýr og afdráttarlaus: Aldrei aftur í stjórn með VG.

Yfirlýsingin vakta talsverða athygli. Og hún kveikti líka spurningar:

Hvers vegan ekki að hætta strax ef það þykir sjálfgefið að ári? Eða: Hvers vegna er útilokað að halda áfram að ári þegar þingmenn stjórnarflokkanna sjá ekki betri leið til að þjóna landsmönnum en einmitt með þessu samstarfi næstu tólf mánuði?

Eftir stutta umhugsun tók formaður Sjálfstæðisflokksins skorinorða yfirlýsingu þingflokksformannsins til baka með háttvísum hætti.

Fyrirheitið „aldrei aftur með VG“ er sem sagt ekki lengur fullgilt.

Stærri var syndin ekki

En til varnar þingflokksformanni sjálfstæðismanna er rétt að minna á að núverandi formaður VG gaf sams konar fyrirheit á flokksráðsfundi á Ísafirði 2022, þegar ýmsum þótti sem í óefni stefndi.

Þáverandi varaformaður, sem nú hefur tekið við formennsku, sagði þá þegar og aldeilis afdráttarlaust að næst myndi flokkurinn kjósa aðra til samstarfs.

Eftir reynsluna af fyrstu fimm árum samstarfsins og þegar heil þrjú ár voru til kosninga þótti nauðsynlegt að róa flokksráð VG með fyrirheitinu: Aldrei aftur í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hvort þetta var merkingarlaust leikbragð eða alvara veit enginn.

En formaður þingflokks sjálfstæðismanna var bara að gjalda líku líkt eftir tveggja ára umþóttunartíma. Stærri var syndin ekki.

Rangan á gömlu lögmáli

Á Ísafjarðarfundinum 2022 þótti núverandi formanni VG óvarlegt að láta við það eitt sitja að segja: Aldrei aftur með Sjálfstæðisflokknum.

Hann taldi ennfremur nauðsynlegt að minna flokksráðsmenn á að helsti árangur samstarfsins fælist í því að koma í veg fyrir að samstarfsflokkarnir næðu sínum málum fram.

Flestir landsmenn höfðu þá þegar áttað sig á því að samstarfið byggðist ekki á hefðbundnum málamiðlunum þar sem flokkar mætast á miðri leið.

Hið nýja lögmál var að setja samstarfsflokkum í ríkisstjórn stólinn fyrir dyrnar. Fram að myndun núverandi stjórnar fólst lögmál stjórnarsamstarfs aftur á nóti í hinu að lyfta eigin stefnumálum en setja stjórnarandstöðunni stólinn fyrir dyrnar með sín mál.

Hver er staðan?

Hver er þá staðan nú þegar stjórnin hefur setið í sjö ár og fjórðungur lifir enn af kjörtímabili Alþingis?

Ýmsir telja að eftir flokksráðsfund VG í Reykjanesbæ um liðna helgi sé komin upp ný staða í stjórnarsamstarfinu.

Þegar grannt er skoðað er þó fátt nýtt í samþykktum fundarins. Undanfarin sjö ár hafa þær fremur verið til innanhússbrúks en leiðsagnar í stjórnarsamstarfi. Af hverju ætti að verða breyting þar á nú. Alla vega er lítill trúverðugleiki á bak við vangaveltur af því tagi.

Ein ályktun fundarins hafði efnislega þá merkingu að það hafi verið gæfa þjóðarinnar að Sjálfstæðisflokkurinn veitti ráðherrum VG umboð til setu í ríkisstjórn en að sama skapi hafi það verið ógæfa hennar að VG veitti ráðherrum sjálfstæðismanna slíkt umboð.

Þegar nánar er að gætt felst þó lítið annað í þessari hugsun en það sem féll af vörum þáverandi varaformanns á Ísafjarðarfundinum. Og vindorkuályktunin er endurtekning á því sem fyrrverandi forsætisráðherra sagði í þjóðhátíðarræðu í byrjun kjörtímabilsins.

Liz Truss áhrif

Þegar öllu er á botninn hvolft hefur lítið breyst. Fátt bendir til annars en komandi þingvetur verði einfaldlega svipaður þeim fyrri.

VG og Sjálfstæðisflokkur munu einfaldlega halda áfram að skjóta þau mál hvor annars í kaf, sem einhverju skipta.

Fjárlög verða afgreidd með hefðbundnum hætti. Þrátt fyrir fyrirséða lækkun verðbólgu og nafnvaxta telur fjármálamarkaðurinn að ávöxtunarkrafa á skuldabréf ríkissjóðs verði áfram ekki langt frá því sem hún var á breskum ríkisskuldabréfum eftir heimssöguleg fjárlög ríkisstjórnar Liz Truss, sem ollu pólitísku kvikuhlaupi.

Breski Íhaldsflokkurinn lét sér það að kenningu verða. Það dugði þó ekki til. En hér þótti bara best að koma ríkisfjármálaábyrgðinni yfir á formann Framsóknar.

Að þessu virtu má ætla að síðasta þingvetur kjörtímabilsins fái þingmenn VG og Sjálfstæðisflokks ríflegan tíma til að velta vel og vandlega fyrir sér spurningunni: Aftur eða aldrei aftur?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Stjórnleysinu allt

Steinunn Ólína skrifar: Stjórnleysinu allt
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um traust og leiðsögn kjósenda

Þorsteinn Pálsson skrifar: Um traust og leiðsögn kjósenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að útskrifa sjálfan sig

Steinunn Ólína skrifar: Að útskrifa sjálfan sig
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ekkert eftir nema efinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Ekkert eftir nema efinn
EyjanFastir pennar
14.07.2024

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér
EyjanFastir pennar
13.07.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu
EyjanFastir pennar
07.07.2024

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun
EyjanFastir pennar
06.07.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á