fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Þingkona segir ofdrykkju á Alþingi hafa keyrt um þverbak

Eyjan
Mánudaginn 19. ágúst 2024 22:00

Jódís Skúladóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jódís Skúladóttir þingkona Vinstri grænna greinir frá því í viðtali við Samstöðina sem birt var á Youtube fyrr í dag að henni hafi gjörsamlega ofboðið áfengisneyslan á Alþingi við þinglokin fyrr í sumar og að hún hafi rætt það sérstaklega í forsætisnefnd þingsins þar sem hún á sæti.

Jódís segir frá því í viðtalinu að hún sé sjálf óvirkur alkóhólisti en hafi tekist að halda sig frá áfengi í meira en 20 ár. Jódís kemur sömuleiðis úr fjölskyldu sem á sér mikla sögu um alkóhólisma og segir það sína skoðun að ekki eigi að rýmka frekar aðgang að áfengi í verslunum hér á landi í ljósi þess hversu skaðlegt það sé heilsu fólks.

Þegar kemur að neyslu áfengis við þinglok fyrr í sumar segir Jódís:

„Ég ávarpaði það í forsætisnefnd í sumar að mér ofbauð áfengisneysla í kringum þinglokin.“

Ekkert nýtt

Hún segir slíka ofdrykkju meðal þingheims alls ekkert nýtilkomna:

„Þetta er auðvitað margra áratuga saga.  … Við höfum haft hér stór blaðamál og fólk jafnvel verið svipt ærunni fyrir að vera undir áhrifum í þessu starfi.“

Jódís segist hins vegar ekki vilja smána neinn núverandi eða fyrrverandi þingmann fyrir að drekka í vinnunni:

„Ég hef enga þörf fyrir að gera það eða nefna einhver nöfn eða gera eitthvað slíkt en ég verð að líta svo á að ég sem óvirkur alkóhólisti eigi heimtingu á því á mínum vinnustað að þar sé ekki drykkjuskapur.“

Jódís segir þingmannsstarfið þó þess eðlis að oft þurfi þingmenn að mæta á ýmsa viðburði utan þinghússins þar sem áfengi sé haft um hönd en þar geti hún þó alltaf neitað að taka þátt í drykkjunni:

„Sem þingmaður þarf ég að mæta í alls konar. Einhverjar veislur og móttökur og taka á móti einhverjum erlendum gestum og fara erlendis þar sem er allt önnur menning og neysla öðruvísi. Þar hef ég alltaf val um að segja nei takk ég drekk ekki áfengi.“

Ekki hægt að fara úr þinginu

Jódís segir hins vegar öðru máli gegna um skyldustörf í þinghúsinu sjálfu. Hún geti bara ekki farið þótt ofdrykkjan sé farin að verða yfirgengileg:

„Þegar ég er í vinnunni. Það stendur þingfundur. Störf þingsins eru í fullum gangi og ég til dæmis sem varaforseti Alþingis hef þar skyldum að gegna. Ég hef ekkert val um að fara.“

Jódís segir það engan veginn í lagi að þingmenn séu að staupa sig hressilega á meðan þeir eru við skyldustörf í þinginu:

„Mér finnst þetta óvirðing við land og þjóð. Mér finnst þetta óvirðing við samstarfsfólkið. Ég skil það alveg að langir dagar langt fram á nætur, þetta er auðvitað erfitt. Fólk kannski finnur hjá sér einhverja þörf fyrir að drekka.“

Það sé þó engin afsökun að vísa í eðli starfsins sérstaklega þegar kemur að löngum vinnudögum á síðustu dögum fyrir þinglok:

„Þetta er ekki boðlegt … Það er aldrei svo að einhver sé að drekka brennivín og það hafi almennt engin áhrif á nokkurn annan.“

Aðspurð hvort hún vilji að áfengi sé almennt ekki veitt við þinglok svar Jódís:

„Ég bara kýs það að sama í hvaða starfi fólk er, hvort sem það vinnur á hjúkrunarheimili, í grunnskóla, það er tannlæknir eða bara flugstjóri … að þegar þú ert á vaktinni, þegar þú ert á leiðinni í ræðustól á hæsta stað landsins, Alþingi Íslendinga, þá er bara algjörlega út úr korti að fólk sé að neyta áfengis.“

Hafi lagast

Jódís segir að athugasemdum hennar við ofneyslu áfengis í kringum þinglokin hafa verið vel tekið í forsætisnefnd þingsins. Hún á hins vegar ekki von á því að næstu þinglok verði áfengislaus:

„Niðurstaðan er held ég sú að þingflokksformenn ræði við sína þingflokka og það er ekkert í fyrsta skipti. Þetta er eitthvað sem við þurfum að ávarpa reglulega.“

Jódís segir þó málið ekki snúast um hvaða tilteknu þingmenn drekki of mikið við störf sín en ástandið hafi þó lagast:

„Málið er það að við búum við samfélagslega menningu. Ég ætla ekkert að gera Alþingi Íslendinga að öðruvísi vinnustað en öðrum. Auðvitað er og það ítreka ég að mér finnst það gríðarleg óvirðing við land og þjóð og kjósendur að fólk sé að njóta áfengis á vinnutíma sínum. Okkur til varnar þá heyri ég líka að þetta hafi lagast mjög mikið að hér fyrir einhverjum áratugum hafi verið gríðarlegt fyllerí inni í þinghúsinu.“

Þrátt fyrir það verði að ræða um að það eigi ekki að líða drykkju við skyldustörf meðal þingmanna, fyrir utan viðburði þar sem slíkt sé talið eðlilegt, sem og annarra stétta:

„Það má kalla mig bannáradrottninguna en ég held að þetta sé algjörlega eðlileg og raunhæf krafa.“

Viðtalið í heild má nálgast hér.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Egill Þór er látinn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK