fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Steinunn Ólína skrifar: Vanþekking á sveppum varð þeim að aldurtila

Eyjan
Föstudaginn 16. ágúst 2024 06:00

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir Mynd: Kári Sverrisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ég dró vinkonu mína í sveppamó á dögunum þó hún nennti því nú varla. ,,Ég á enga minningu af því að tína sveppi” sagði hún stundarhátt þar sem við kjöguðum um skógarbotna. En finnst þér ekki gaman að líða smá eins og Rauðhettu, spurði ég þar sem ég stikaði vongóð með körfu í hendi. Jú, jú, alveg smá, svaraði hún, því auðvitað vissi hún strax hvaða tilfinningu ég var að lýsa. Allir sem lesið hafa Rauðhettu muna það að fara ókunna stigu sem barn. Rauðhetta sem kennir okkur að varast ókunnuga og að falla ekki fyrir skjalli og hrósi því annars verðurðu étin!

Ég hef kannski alla tíð horft meira niður en upp á göngu því gróður og það sem vex á jörðinni finnst mér sennilega þótt öfugsnúið sé stórbrotnara en fjöllin og skýin, allavega er á þessum árstíma svo fyrir mér farið. Ég get glápt löngum á jörðina og undrast það smáa og skrýtna. Ofurlítil félög jurta, mosa og fléttna. Agnarsmáar byggðir lífvera, örlitlar heimsálfur.

Lífríki skóga er svo makalaust dularfullt þegar hausta fer, vegir sveppa um skógarbotna leiðarvísar um samfélög neðanjarðar sem eru okkur hulin en þekja jörðina alla. Þéttriðið samskiptanet sem við kunnum alls ekki fyllilega skil á.

En við vorum sum sé að leita að kantarellum og ekki leið á löngu þar til ég þóttist hafa komist í feitt og við byrjuðum að tína í körfuna sem mest við máttum. Nokkur ár eru síðan ég týndi kantarellur svo fljótlega fóru að renna á mig tvær grímur. Voru þetta kantarellur? Nagandi kantarelluefi greip um sig. Ég játaði óvissu mína og við stöllur ákváðum að láta hér staðar numið og leggjast í rannsóknir á fengnum áður en við legðumst í át og lægjum örendar eftir.

„Tvær miðaldra konur fundust látnar í sumarhúsi. Vanþekking á sveppum varð þeim að aldurtila.“

Ég sendi skilaboð og ljósmynd af fengnum til Guðríðar Gyðu Eyjólfsdóttur sem stýrir síðunni Funga Íslands – sveppir ætir eður ei á Facebook en sú mæta kona er allra fróðust um svepparíki Íslands og virðist fátt annað gera á þessum árstíma en að svara spurningum styttra kominna. Mér sýnist hún ekki una sér nokkurrar hvíldar. Þvílíkur kennari og meistari! Magnað svona fólk sem leggur á sig að fræða og upplýsa aðra af svo miklu örlæti sem raun ber vitni.

Meðan við biðum svara ókum við vinkonurnar fram á tvær konur, ekkert úlfslegar ,sem virtust vera á sömu buxum og við og ákváðum við því að leita ásjár hjá þeim og spyrja þær hvort þær gætu borið kennsl á sveppina góðu.

Þær kímdu þegar við viðurkenndum að við hefðum staðið í þeirri trú að við hefðum verið að moka upp kantarellum og fullvissuðu þær okkur um að svo væri ekki.

Önnur kvennanna ráðlagði okkur að hinkra við, maður hennar væri líffræðingur og gæti örugglega sagt okkur deili á sveppunum. Líffræðingurinn lét sjá sig skömmu síðar og greindi sveppina nokkuð öruggur í bragði.

Gulbroddi var það örugglega, hélt hann, og stuttu seinna staðfesti Guðríður Gyða hið sama og sagði fyrirtaks matsvepp.

Rauðhetturnar önduðu léttar og svo var uppskeran auðvitað hreinsuð og snædd í hópi góðra vina og enn eru allir lifandi eftir því sem ég best veit.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar

Björn Jón skrifar: Endimörk dellunnar
EyjanFastir pennar
20.10.2024

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
19.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins

Sigmundur Ernir skrifar: Vandi villta vinstrisins
EyjanFastir pennar
12.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut

Óttar Guðmundsson skrifar: Ríkisstjórn á skilnaðarbraut