fbpx
Föstudagur 16.ágúst 2024
Eyjan

Bjarni kemur „gegndarlausum ríkisútgjöldum“ til varna og gagnrýnir stjórnlausar launahækkanir

Eyjan
Föstudaginn 16. ágúst 2024 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Verðbólgan er enn of mikil. Um það verður ekki deilt,“ skrifar Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra í grein sem birtist á vef Stjórnarráðsins í dag. Þar vísar hann á bug gagnrýni um „gegndarlaus ríkisútgjöld“ og útskýrir að ríkissjóður standi vel og til að hemja verðbólgu frekar þurfi að auka framboð íbúða og hemja launahækkanir.

Bjarni bendir á að þó að lögum samkvæmt sé það í verkahring Seðlabanka Íslands að stuðla að verðstöðugleika þá leiki ríkisfjármálinu að sjálfsögðu líka stórt hlutverk. Þó megi greina af umræðunni að ríkisfjármálin séu helsti orsakavaldur verðbólgunnar þessa daganna og sé jafnvel talað um „gegndarlaus ríkisútgjöld“.

„Þeir sem vilja vinna málstaðnum gagn þurfa að byggja staðhæfingar sínar á traustum grunni. Ólíkt þeim sem starfa nú í stjórnarandstöðu hafa greinendur komist að þeirri niðurstöðu að peningastefna og ríkisfjármálastefna hafi að undanförnu gengið í takt í átt að verðstöðugleika.“

Samkvæmt nýju áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé aðhaldsstig ríkisfjármála hæfilegt og samhæft aðhald peningastefnu og ríkisfjármálastefnu stuðlað að minnkandi verðbólguþrýstingi.

Deila má um hvort of langt hafi verið gengið í stuðningi

20 þúsund störf hafi tapast í heimsfaraldrinum sem sé meginástæða mikils halla á ríkissjóði.

„Deila má um hvort of langt hafi verið gengið í stuðningsaðgerðum við heimili og fyrirtæki, hjá ríkissjóði jafnt sem Seðlabankanum, og hve mikinn þátt sá stuðningur hefur átt í þenslunni að undanförnu. Fyrir lá allt frá upphafi að af þeim hlytist fórnarkostnaður, sem m.a. kann að hafa birst í tímabundið aukinni verðbólgu. En ekki er hægt að segja annað en að markmiðinu um kröftuga viðspyrnu efnahagslífsins hafi verið náð, raunar miklu hraðar en nokkur þorði að vona – eins og atvinnustig og hagvöxtur síðustu ára er til vitnis um.“

Nýlega útgjaldaaukningu megi svo rekja fyrst og fremst til eldsumbrota á Reykjanesskaga.

„Þegar heimabær á fjórða þúsund landsmanna, öflugt samfélag þar sem fólk hefur notið þess að búa, starfa og alast upp, verður fyrir áfalli – þá stendur Ísland allt með bæjarbúum. Við ákváðum frá upphafi að gera meira en minna, tryggja öryggi fólks og fyrirsjáanleika eftir fremsta megni, með trú á samfélagið í Grindavík að leiðarljósi. Sú leið og tilheyrandi útgjöld hefur verið studd einróma á Alþingi.“

Eins megi nefna aðgerðir sem tengjast kjarasamningum á almennum vinnumarkaði til að styðja við þá hópa sem standa verst vegna verðbólgu og vaxtastigs. Þetta eru tímabundnar aðgerðir sem verða fjármagnaðar með forgangsröðun annarra verkefni ríkissjóðs.

Bjarni segir stöðu ríkissjóðs og efnahags á Íslandi góða þegar horft er til sögunnar og eins í alþjóðlegum samanburði. Þetta telur Bjarni óumdeilanlega staðreynd. Skuldahlutfall ríkissjóðs sé lagt, lánshæfiseinkunn góð, atvinnustig hátt og atvinnuþátttaka mikil. Kaupmáttur launa hafi eins farið vaxandi.

Þessu verðum við að ná betri stjórn á

Bjarni bendir þó á að enn megi ná betri árangri og ávallt tækifæri til umbóta.

„Hlutverk ríkisins er víða of umfangsmikið og stöðugt þarf að leita leiða til hagræðingar og skilvirkari nýtingar á almannafé. Að því hef ég unnið allan minn stjórnmálaferil og er enn að. Stafvæðing stjórnsýslunnar, sameiningar stofnana, stóraukið gagnsæi í ríkisfjármálum og álagningu opinberra gjalda, hvatar til að styðja almannaheillastarfsemi án milligöngu ríkisins, lækkun skatta auk afnáms tolla og vörugjalda eru fáein dæmi af mörgum.“

Bjarni segir að það hafi gengið hægar að vinna niður verðbólguna en æskilegt sé og því sé vaxtastig hærra en fólk eigi að þurfa að sætta sig við til lengdar. En þó megi ekki gleyma þeim árangri sem hefur náðst.

„Á 18 mánuðum hefur verðbólga minnkað um 4 prósentustig og verðbólga án húsnæðis hefur minnkað um nær 5 prósentur. Nú sem fyrr skiptir þáttur húsnæðisverðs miklu máli fyrir þróun verðbólgunnar.“

Bjarni segir forgangsmál að styðja við aukið framboð íbúða og þar leika sveitarfélögin lykilhlutverk til að tryggja framboð loða. En eins þurfi að huga að fleiri þáttum. Laun hafi hækkað verulega undanfarið og launaskrið umfam kjarasamninga verið töluvert.

„Þessu verðum við að ná betri stjórn á, ella er hætta á að við sitjum uppi með of mikla verðbólgu til lengri tíma. Það útilokað að hér á landi sé hægt að hafa launaþróun í allt öðrum takti en í nágrannalöndum, en á sama tíma sambærilega verðbólgu og vexti.“

Það sé forgangsmál hjá ríkisstjórninni að styðja við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og hratt batnandi afkoma ríkissjóðs sé vitnisburður um að sú vegferð gangi vel og framar væntingum. Nú þurfi að halda áfram sömu braut enda „lægri verðbólga og vextir langstærsta hagsmunamál íslenskra heimila og fyrirtækja í dag.“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagðist í samtali við mbl.is telja að flestir hagfræðingar séu sammála því að ríkisútgjöld og peningaprentun skapi verðbólgu. Sigmundur sagði verðbólguna drifna áfram af gegndarlausum ríkisútgjöldum. Var Sigmundur þar að bregðast við ummælum Bjarna í síðustu viku um að umræðan um ríkisfjármál væri á villigötum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Óreiðuhagstjórn hrekur ungt fólk úr landi – tvær þjóðir í landinu

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir: Óreiðuhagstjórn hrekur ungt fólk úr landi – tvær þjóðir í landinu
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Fyrrum seðlabankahagfræðingur segir að við séum óþægilega nálægt samdráttarskeiði

Fyrrum seðlabankahagfræðingur segir að við séum óþægilega nálægt samdráttarskeiði
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Íslamskir ofsatrúarmenn

Björn Jón skrifar: Íslamskir ofsatrúarmenn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar – Uns engin er eftir nema bankinn og asninn

Jón Sigurður skrifar – Uns engin er eftir nema bankinn og asninn
Eyjan
Fyrir 1 viku

780 milljón króna gjaldþrot rekstrarfélags Sjálands – Annað gjaldþrot Stefáns á stuttum tíma

780 milljón króna gjaldþrot rekstrarfélags Sjálands – Annað gjaldþrot Stefáns á stuttum tíma
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ögmundur segir að ekki ríki einhugur um stuðning Íslendinga við Úkraínu – „Vígvæðing grefur undan friði“

Ögmundur segir að ekki ríki einhugur um stuðning Íslendinga við Úkraínu – „Vígvæðing grefur undan friði“