fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Thomas Möller skrifar: Ekki nefna vextina!

Eyjan
Sunnudaginn 11. ágúst 2024 16:21

Thomas Möller er varaþingmaður Viðreisnar í SV kjördæmi.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í starfi mínu sem leiðsögumaður fyrir þýska ferðamenn hafa efnahagsmál á Íslandi oft borið á góma.

Auk þess að hafa áhuga á náttúru og sögu landsins okkar vilja þeir einnig vita hvað það kostar að búa á Íslandi.

Ég segi þeim hvað rafmagn, drykkjarvatn og húshitun er ódýr hér. En það vekur furðu þeirra þegar ég nefni matvælaverð og vexti af húsnæðislánum á Íslandi.

Nýlegar kannanir sýna að matarverð á Íslandi er það þriðja hæsta í heiminum. Þetta háa verðlag upplifa ferðamenn þegar þeir fara á veitingastaði eða kaupa vörur til neyslu sjálfir.

Þjóðverjar eru orðlausir þegar þeir sjá verðið á bjórnum sem er allt að fjórfalt hér á landi miðað við Þýskaland.

Það sem vekur þó mesta athygli Þjóðverjanna eru himinháir vextir á húsnæðislánum hér á landi.

Húsnæðislán í Þýskalandi bera í dag um það bil 3,4% vexti (10 ára lán í evrum) meðan þeir eru 10,75% á Íslandi (Landsbankinn, í íslenskum krónum).

Munurinn er 7,35% sem þýðir að unga fólkið á Íslandi er að borga 4,4 milljónum meira í vexti á fyrsta ári en Þjóðverjar sem eru að taka 60 milljón króna (eða 400 þúsund evru) húsnæðislán.

Íslensk heimili eru þannig að borga 367 þúsund krónum meira á mánuði en þau þýsku í vexti sem eru um það bil 500 þúsund krónur fyrir skatta. Á íslenskum heimilum má segja að annar makinn er bara að vinna fyrir umframvöxtum á Íslandi miðað við þýsku heimilin.

Einn þýskur viðmælandi minn var furðu lostinn þegar hann heyrði þetta og sagði að ef þessir vextir væru í Þýskalandi myndi það leiða til byltingar í landinu. Enginn Þjóðverji myndi sætta sig við þessa okurvexti.

Gjaldmiðillinn okkar, krónan, er aðalorsök hárra vaxta hér á landi. Lán í krónum bera áhættuálag, svokallað krónuálag vegna óstöðugleika gjaldmiðilsins og verðbólguvæntinga í krónuhagkerfinu.

Háir vextir á Íslandi valda hækkun húsnæðisverðs og þar með vísitöluhækkun. Þeir valda hærra matarverði og kynda undir verðbólgubálið.

Háir vextir hér á landi eru engin tilviljun. Þeir eru pólitísk ákvörðun núverandi stjórnvalda sem neita að horfast í augu við ókosti þess að notast við áhættugjaldmiðil sem hefur rýrnað um 99.99% frá því hann var tekinn upp með tilheyrandi eignaupptöku og veldur háu vaxtastigi vegna óstöðugleika hans og smæðar.

Í rauninni er það skammarlegt að íslensk stjórnvöld skuli bjóða unga fólkinu upp á slíka vaxtaþrælkun. Að kaupa íbúð er grunnþörf allra fjölskyldna og hagstæðir vextir eru í raun mannréttindi. Þannig má segja að vaxtastigið hér á landi sé viss skerðing á mannréttindum.

Svona háir vextir eru í dag eingöngu í stríðshrjáðum löndum eins og Rússlandi og Úkraínu, auk Íslands.

Krónan er úrelt hugmynd

Í öllum löndum í norðurhluta Evrópu sem nota evrur eru vextir af húsnæðislánum um 4%. Seðlabanki Evrópu hefur nýlega lækkað stýrivexti og eru þeir einnig um 4%.

Ef Ísland væri með evru sem gjaldmiðil værum við með húsnæðisvexti um 4% eins og önnur evrulönd en ekki 10,75%.

Það er þekkt staðreynd í fjármálaheiminum að íslenska krónan er áhættugjaldmiðill. Öll lán í krónum eru með krónuálagi sem nemur að minnsta kosti 5% þannig að lán í krónum á Íslandi munu alltaf vera með um 5 prósentustigum hærri vexti en lán í evrum, sama hvaða vaxtastig eða stýrivextir eru í landinu.

Krónan er minnsti gjaldmiðill í heiminum. Ekkert þróað smáríki eins og Ísland er með eigin gjaldmiðil. Það er einfaldlega of mikil áhætta og kostar of mikið. Að nota örgjaldmiðil eins og krónuna í flóknu nútíma hagkerfi eins og á Íslandi er afleit og úrelt hugmynd.

Þetta vita þau 265 fyrirtæki á Íslandi sem hafa yfirgefið krónuna og gera upp sinn rekstur aðallega í evrum. Þau taka hagstæð lán í evrum sem okkur almenningi og flestum fyrirtækjum á Íslandi er óheimilt að gera. Þessi fyrirtæki hafa í raun flúið krónuhagkerfið og starfa í mun hagstæðari efnahagsumhverfi en við hin.

Annað gildir um lánskjör þeirra fyrirtækja sem eru enn að starfa í krónuhagkerfinu. En þau geta einfaldlega látið hina háu vexti fara inn í verðlag á matvöru, verð nýbygginga og verð annarra nauðsynja sem kyndir undir verðbólgubálið.

Heimilin í landinu borga hina háu vexti að lokum með hærri verðum á vöru, þjónustu og húsnæði.

Töku upp evru sem gjaldmiðil

Það sem þarf að gera er að taka upp alvöru stöðugan gjaldmiðil á Íslandi. Það gerist með inngöngu landsins í ESB og upptöku evru í kjölfarið.

Talið er að kostnaðurinn við krónuna nemi um einum milljarði króna á dag á Íslandi eða um 400 milljarða á ári, eingöngu í hærri vöxtum af krónulánum einstaklinga, heimila, fyrirtækja og hins opinbera.

Það er í raun furðulegt að almenningur á Íslandi skuli sætta sig við þennan viðbótarkostnað sem rýrir lífskjör og eykur vinnuálag á heimilin í landinu. Þessu er hægt að breyta með því að skipta um gjaldmiðil.

Upptaka evru mun auk þess leiða til aukinnar samkeppni á bankamarkaði og í tryggingum þar sem erlend fyrirtæki munu koma til landsins í auknum mæli. Það hefur gerst í öllum löndum sem taka upp evru.

Með upptöku evru yrðu vextir af húsnæðislánum allt að 60% lægri en í krónum og heimili sem skulda 60 milljónir hefðu tæplega 400 þúsund krónur meira milli handanna í hverjum mánuði. Það munar um minna.

Viðreisn er eini flokkurinn á Alþingi sem vill að Ísland gangi í ESB og taki upp evru.

Í næstu kosningum verður kosið um þetta stærsta hagsmunamál Íslendinga. Þú getur haft áhrif á þetta mál þá.

En þangað til mun ég halda áfram að dásama íslenska náttúru í leiðsögn minni um landið en ég mun ekki minnast á vextina aftur!

Höfundur varaþingmaður Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump