fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Ragnar Þór sýnir myndir sem slá vopnin úr höndum ráðherra – „Eignarhald kennir ekki virðingu“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 10. ágúst 2024 10:30

Ragnar Þór Pétursson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður Kennarasambandsins, hafnar þeirri kenningu að eignarhald kenni börnum virðingu fyrir hlutum eins og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, heldur fram. Virðing kenni grunnskólabörnum virðingu og það sýnir hann með gögnum í færslu á samfélagsmiðlum.

Harðlega gagnrýnd

Áslaug Arna hefur verið harðlega gagnrýnd eftir að hún skrifaði pistil þar sem hún lofsamaði bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir að hætta að styrkja barnafjölskyldur með ritföngum. Sagði hún að ef námsgögn væru öll ókeypis þá myndi tilfinning barnanna fyrir því að passa þau hverfa. Þetta myndi skapa sóun í kerfinu.

Sjá einnig:

Hart sótt að Áslaugu Örnu – „Það er ykkar Kleppur að díla við“

Margir hafa stigið fram á ritvöllinn og gagnrýnt ráðherrann fyrir þessa grein. Meðal annars Hrefna Sigurjónsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, sem benti á mikilvægi þess að stuðla að jöfnuði í grunnskólum. Þá bendir Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins á að breytingin þýði 37 þúsund króna launalækkun fyrir fjölskyldur með tvö börn á grunnskólaaldri.

Úlpur, skór og Airpods

„Einkaeignin kennir virðingu og kemur í veg fyrir sóun. Eða hvað?“ segir Ragnar Þór og birtir myndir úr „tapað-fundið“ hirslum skólanna. En þar má sjá mikið af dýrum fatnaði og öðru sem nemendur hafa gleymt eða týnt í skólanum.

„Ein dýr úlpa kostar meira en strokleður og blýantar fyrir heilan bekk í heilan vetur,“ segir Ragnar Þór. „Úlpur, skór, Airpods – og önnur dýr einkaeign verður eftir í öllum skólum og íþróttahúsum fyrir tugi- eða hundruði milljóna á ári.“

Tapað-fundið hirstlurnar eru troðfullar af dýrum fötum og hlutum.

Segir Ragnar Þór að það sé fjárhagslega miklu meiri sóun á einkaeignum en sameiginlegum eigum hjá íslenskum ungmennum. Ástæðan sé einföld.

„Af því að eignarhald kennir ekki virðingu,“ segir Ragnar Þór. „Virðing kennir virðingu. Hún verður ekki keypt.“

Fara betur með eigur annarra

Taka margir undir þessi orð Ragnars Þórs. Til að mynda segir einn að það þurfi að kenna börnum að bera virðingu fyrir hlutum og hafa aga til að virða mörk sín gagnvart öðrum og eigum þeirra.

Því segist Ragnar Þór sammála. „Ég vil trúa því að vel innréttað fólk fari jafnvel betur með eigur sem því er treyst fyrir af öðrum en sínar eigin,“ segir hann.

Rithöfundurinn Andri Snær Magnason tekur einnig undir með færslu Ragnars Þórs.

„Í Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit var flott lexía þar sem Excelskjali var varpað upp á vegg og svo voru óskilamunir verðmetnir og settir upp í töflu, á fimm mín var upphæðin farin að nálgast hundruð þúsunda. Nike Buxur. 66 jakki. North Face úlpa. 10 húfur… Flott lexía,“ segir Andri Snær.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt