Á dögunum þurftu þingmenn Íhaldsflokksins í Bretlandi að horfast í augu við verstu kosningaúrslit sögunnar. Á sama tíma horfa þingmenn Sjálfstæðisflokksins á skoðanakannanir sem vísa í svipaða átt.
Margt bendir til þess að vandræði beggja flokka séu af sömu rót runnin. Óskýr og fálmkennd afstaða til Evrópusamvinnu á við þá báða.
Minnihluti breska Íhaldsflokksins fékk meirihluta í þjóðaratkvæði um Brexit. Hann gat hins vegar ekki staðið við Brexit-loforðin loks þegar þjóðin veitti honum völd til þess á þingi. Loforðin höfðu alltaf verið blekking. Trúverðugleikinn hrundi.
Í kosningunum 2013 notaði Sjálfstæðisflokkurinn vel hönnuð auglýsingaspjöld til að kynna loforð sitt um þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna. Loforðið var svikið um leið og talið hafði verið upp úr kjörkössunum með vísun í pólitískan ómöguleika.
Í framhaldinu var því haldið fram að flokkurinn þyrfti bara nægan tíma við ríkisstjórnarborðið til að sýna árangur án fullrar aðildar. Eftir ellefu ár greiða íslensk heimili vexti, sem einungis þekkjast í stríðshrjáðum löndum Evrópu.
Breski Verkamannaflokkurinn hefur breytt Evrópustefnu sinni til samræmis við þjóðaratkvæðagreiðsluna. Fyrst reyndi hann að sitja á girðingunni, en glataði trausti við það.
Hér sýna kannanir að Samfylkingin er orðin stærsti flokkur landsins og hefur tekið við forystuhlutverki VG á vinstri væng stjórnmálanna. Og meiri hluti kjósenda styður fimm vinstriflokka, sem boða umtalsverðar skattahækkanir.
Allt væri þetta gott og blessað ef sá böggull fylgdi ekki skammrifi að Samfylkingin hefur lagt Evrópumálin á hilluna án leiðsagnar í þjóðaratkvæði.
Ég hef skilið þessa hillulagningu svo að Samfylkingin hafi ekki snúist gegn frekari Evrópusamvinnu. Hins vegar ætli hún öðrum flokkum að gera út um það mál við ríkisstjórnarmyndun. Þetta auðveldar vissulega leiðina að ríkisstjórnarborðinu hvort heldur það er með Sjálfstæðisflokknum, flokkum á miðjunni eða lengra til vinstri.
Þessu má líkja við kjósendur, sem ákveða að skila auðu eða sitja heima í kosningum. Þeir eftirláta öðrum að ráða úrslitum.
Þetta leiðir hugann að trúverðugleikavanda breska Íhaldsflokksins og Sjálfstæðisflokksins.
Fálmkennd afstaða til þessa stóra viðfangsefnis er líkleg til að grafa fljótt undan trúverðugleika nýrrar ríkisstjórnar. Málið hverfur einfaldlega ekki af dagskrá stjórnmálanna fyrr en skýr afstaða verður tekin.
Að sitja á girðingunni grefur líka undan trausti þegar til kastanna kemur með svipuðum hætti og svikin loforð.
Ekki verður séð að með góðu móti sé unnt að brúa þessa gjá milli trausts og ótrúverðugleika nema með þjóðaratkvæði. Ný taflstaða á vettvangi stjórnmálanna gerir þessa lausn reyndar enn brýnni en áður.
Kosningar snúast um ólík markmið stjórnmálaflokka. Evrópusambandsaðild er til að mynda ekki sjálfstætt pólitískt markmið heldur leið til þess að ná mörgum sameiginlegum markmiðum flokka, sem eru ýmist með aðild, á móti aðild eða sitja á girðingunni.
Þannig eru umfangsmestu gjaldeyrishöft á Vesturlöndum ekki markmið þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Og ekki heldur viðvarandi þrefalt hærri vextir en í samkeppnislöndunum. Þetta er bara leið, sem þeir telja óhjákvæmilegt að fara til að halda uppi verðgildi krónunnar.
Á sama hátt er full Evrópusambandsaðild ekki markmið þingmanna Viðreisnar. Þeir benda aftur á móti á að hún er leið til að gera gjaldeyrishöftin óþörf, tryggja heimilum og velferðarkerfinu varanlega samkeppnishæfa vexti og gera verðtryggingu óþarfa.
Eftir að þingmenn Samfylkingar settu Evrópusambandsaðild á hilluna leggja þeir til þriðju leiðina: Hækka skatta og greiða þannig niður kostnað heimila og velferðarkerfisins af krónunni.
Hluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins og mikill meiri hluti kjósenda Viðreisnar og Samfylkingar styður hugmyndina um þjóðaratkvæði um framhald aðildarviðræðna. Klípan er að flokkarnir hafa þrenns konar afstöðu í Evrópumálum.
Þetta gerir þjóðaratkvæði óhjákvæmilegt. Fari það fram fyrir næstu kosningar gæti það bæði hjálpað stjórnmálunum í heild að bæta traustið og eins auðveldað stjórnarmyndun að þeim loknum.
Stjórnmálin þurfa skýr skilaboð frá kjósendum um Evrópuleiðina. Og það er betra að þau komi fyrir kosningar en eftir, hver sem þau verða.