fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Svarthöfði skrifar: Stígum skrefið til fulls og afnemum samkeppnina alls staðar – fyrir neytendur

Svarthöfði
Þriðjudaginn 9. júlí 2024 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við Íslendingar látum ekki að okkur hæða. Enn og aftur skjótum við umheiminum ref fyrir rass, ekki þarf að spyrja að því. Sem kunnugt sitja þingmenn allra landa, ekki síst hér á Fróni, sveittir dagana langa og leggja jafnvel nóttina við til að bæta hag neytenda.

Svarthöfði var löngum þeirrar skoðunar að samkeppnin væri alfa og ómega alls, þegar kemur að því að hámarka afköst og hagkvæmni í atvinnulífinu neytendum til góða. Já, og frelsið – samkeppnin og viðskiptafrelsið – jafnvel fjórfrelsið.

Svona geta menn haft rangt fyrir sér. Nú sér Svarthöfði ekki betur en að í þessum efnum hafi hann farið villur vegar. Frelsið og samkeppnin ku ekki aðeins hættuleg hagsmunum neytenda heldur beinlínis hrein og klár aðför að neytendum.

Svarthöfði sér að hann hefur verið blindur en nú hafa Þórarinn Ingi Pétursson og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir opnað augu hans. Þeirra sýn á framtíðina er bersýnileg mjög skýr. Þau beittu sér fyrir því að samkeppnislögin voru tekin algerlega úr sambandi hvað kjötvinnslu varðar og árangurinn er þegar áþreifanlegur og stórkostlegur. Kaupfélag Skagfirðinga nýtti sér nýju lögin og keypti Kjarnafæði norðlenska og er nú orðið allsráðandi í kjötvinnslu á gervöllu Norðurlandi – ekki í eigin hagnaðarskyni, nei, þetta er í þágu neytenda og líka bænda.

Þessu hafa engir alþjóðlegir sérfræðingar áttað sig á. Það var í atvinnuveganefnd Alþingis sem þessi hagfræðikenning fæddist, dafnaði og varð að veruleika.

Svarthöfði sér í hendi sér að nú muni nefndarformaðurinn og matvælaráðherrann bretta upp ermar og berjast fyrir enn frekari réttindum og hagsbótum íslenskum neytendum til handa. Hvaða vit er í því að vera með annað fyrirtæki í kjötvinnslu á Suðurlandi. Það gefur augaleið að fyrsta verk nefndarinnar og ráðherrans þegar þing kemur saman í haust verður að tryggja með lagasetningu að Sláturfélag Suðurlands falli með einum eða öðrum hætti undir hatt Kaupfélags Skagfirðinga.

Fyrst samkeppnin er helsti óvinur neytenda í kjötvinnslu er tilvalið að taka alla virðiskeðjuna og bæta hag neytenda í hverjum einasta hlekk hennar. Hefur verið reiknað út hversu mikill kostnaður fellur á neytendur vegna þess að hér keppa þrjár stórar smásölukeðjur um hylli neytenda?

Hví láta staðar numið á matvörumarkaði? Svarthöfða svimar hreinlega þegar hann reynir að gera sér í hugarlund allan sparnaðinn og haginn sem ná mætti fram fyrir neytendur með því að passa að engin samkeppni ríki á íslenskum flutningamarkaði, bæði innanlands og til og frá landinu.

Ekki nóg með það. Öll sóunin sem á sér stað við það að fyrirtækjum er heimilt að keppa sín á milli, flytja inn og selja hvers kyns varning; föt, raftæki, byggingarvörur, bíla, landbúnaðartæki og fleira. Þarna þarf að bregðast við og stöðva samkeppnina. Kannski er eðlilegt fyrsta skref að ýta undir að starfsemi í öllum þessum greinum komist á eina hendi.

Svarthöfði sér svo fyrir sér að í áföngum verði skrefið stigið til fulls. Vitaskuld er óþolandi að einkaaðilar, sem gera ávöxtunarkröfu á rekstur, séu að maka krókinn á kostnað neytenda. Lokaskrefið verður að ríkið taki sjálft yfir alla starfsemi sem í dag níðist á íslenskum neytendum með rándýrri og óhagkvæmri samkeppni. Þegar ríkið er komið með þetta allt saman verður líka hægt að spara enn meira með því að flytja bara inn eina tegund í hverjum vöruflokki.

Vart verður þess langt að bíða að formaður atvinnuveganefndar Alþingis og matvælaráðherra hneigi sig djúpt fyrir Karli Gústaf Svíakonungi og taki við Nóbelsverðlaununum í hagfræði úr hendi hans fyrir þá stórkostlegu uppgötvun að afnám á samkeppni í kjötvinnslu sé stærsta skrefið sem hægt er að stíga til að bæta hag neytenda. Svarthöfði telur að uppgötvun Bjarkeyjar Olsen og Þórarins Inga marki ekki minni vatnaskil í hagfræðinni en útkoma Auðlegðar þjóðanna eftir Adam Smith 1776. Nú verður þeirri bók væntanlega fleygt á bálköst, enda stangast kenningar hennar að öllu leyti á við þá nýju hagfræði sem matvælaráðherra og formaður atvinnuveganefndar hafa kynnt til sögunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar
EyjanFastir pennar
07.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið