fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Eyjan
Laugardaginn 6. júlí 2024 16:30

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Allt frá því íslenska þjóðin sagði sig úr lögum við danska kónginn undir miðja síðustu öld hefur hún lagað samfélagsgerðina að vilja þeirra sem helst og lengstum hafa haldið um valdataumana. Þar hafa sjónarmið einokunar og einstaklingshyggju einkum ráðið för, og oftast sú árátta að sem fæstir skuli græða á sem flestum – og að þeir efnameiri komist leiðar sinnar á kostnað hinna efnaminni.

Þetta er auðvitað heiðarleg hægristefna – og ekkert út á hana að setja í sjálfu sér, enda vart nokkurt vit í því að allir hafi sömu skoðun. En þeim mun merkilegra er þó að svona skuli vera komið fyrir samfélaginu, er sú staðreynd að líklega hefur meirihluti þjóðarinnar ávallt verið á móti umræddri stefnu.

Hægriöflin hafa lengst af, allt frá því þau komust til valda, verið með um og undir fjörutíu prósenta fylgi á landsvísu, þótt nokkuð víða hafi þau náð meirihluta í einstaka sveitarfélögum, einkanlega á höfuðborgarsvæðinu. Aftur á móti hafa félagshyggjuflokkarnir – og þar á meðal Framsóknarflokkurinn sem hefur verið hallur undir samvinnu og samtakamátt alþýðunnar, ekki síst til sveita, notið meirihlutafylgis í gegnum tíðina ef kjörfylgi þeirra er lagt saman.

Almennt má því segja að minnihlutaræði hafi einkennt ákvarðanatöku við Íslandsstjórnina – og þeir ráðið mestu sem ríkastir hafa verið.

Þessa sér stað svo víða í samfélaginu að upptalningin væri til að æra óstöðugan. En tökum þó bara eitt dæmi sem er nokkuð einkennandi fyrir „ég-á-þetta-má-þetta“ línuna sem hefur verið strikuð í alla sanda samfélagsins. Og virðist hreinlega ekki vera afturkræf.

„ … á Íslandi er mest um vert að sem fæstir græði á flestum.“

Það er ekki boðið upp á ódýrar almenningssamgöngur á milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar. Svo hefur aldrei verið. Mikilvægara hefur þótt að bjóða upp á dýrkeyptar ferðir um borð í rútum útvalinna, ellegar enn þá kostnaðarsamari leigubílaþjónustu sem leggur sig á fimmtíu þúsund, báðar leiðirnar, en fyrir vikið hefur fólk sést ganga Reykjanesskagann á enda, um sjö tíma rölt til Reykjavíkur.

Og þess eru líka dæmi, ef rúturnar eru valdar, og flugi seinkar vegna vetrarveðra, sem eru algeng á Íslandi, að farþegar verði strandaglópar um miðja nótt við Umferðarmiðstöðina, á þeim tímum þegar erfiðast og dýrast er að fá leigubíl, og bíði af sér nóttina í N1-skálanum skammt frá, af því BSÍ er lokað.

Óhætt er að segja að engar frændþjóðir okkar, eða yfirleitt önnur Evrópuríki, myndu haga sér svona. En á Íslandi er mest um vert að sem fæstir græði á flestum. Og þjónustan sé eftir því óvinveitt alþýðu manna. Því almenningur og samgöngur megi ekki fara saman. Það trufli einstaklingshyggjuna.

Sjálft ríkisvaldið – í þessu tilviki ISAVIA – býður upp á bílastæði við íslenska alþjóðaflugvöllinn. En verðlagning þeirra er úr hófi fram fyrir venjulegan launamann, enda greiðir hann um tíu þúsund krónur fyrir að leggja þar í almennu stæði vegna stuttrar helgarferðar til útlanda, en yfir tuttugu þúsund vegna hálfs mánaðar langrar utanferðar. Og honum er raunar fært að velja dýrari stæði, sem öll verða væntanlega einkavædd á endanum, með tilheyrandi tryllingi í verðlagningu.

Rúta, taxi eða eigin bíll. Það er ekki um annað að ræða á Íslandi. Því almenningssamgöngur á viðráðanlegu verði eru svo að segja bannaðar. Þeim er úthýst á Keflavíkurflugvelli og ekki einu sinni í boði á Akureyrarflugvelli, svo dæmi sé tekið.

Því það verður einhver að græða á þessu. Það er íslenska leiðin.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!

Ágúst Borgþór skrifar: Meiri starfslaun, takk!
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði

Þorsteinn Pálsson skrifar: Meirihluti fyrir málamiðlun um þjóðaratkvæði
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
EyjanFastir pennar
16.11.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
EyjanFastir pennar
14.11.2024

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
08.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?

Steinunn Ólína skrifar: Hvernig getum við skilið heiminn?
EyjanFastir pennar
07.11.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn

Þorsteinn Pálsson skrifar: Eldhúsborðin og umheimurinn