Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar óskar Verkamannaflokknum og leiðtoga hans og verðandi forsætisráðherra Breta, Keir Starmer, til hamingju með sigur þeirra í kosningunum í gær.
„Ég óska Keir Starmer og Verkamannaflokknum til hamingju með sögulegan sigur,“
segir Kristrún í færslu á Facebook og birtir með mynd af þeim Starmer.
„Eftir 14 ár í stjórnarandstöðu er jafnaðarmaður orðinn forsætisráðherra Bretlands á ný.
Nú er verkefni Starmers og Verkamannaflokksins að blása Bretum aftur von í brjóst eftir áralanga stöðnun. Það verður best gert með áþreifanlegum breytingum sem fólk finnur fyrir í daglegu lífi.“
Verkamannaflokkurinn vann stórsigur í bresku þingkosningunum sem fóru fram í gær. Til að öðlast meirihluta þarf 236 sæti af 650 sætum. Verkamannaflokkurinn hefur fengið 412 þingsæti. Íhaldsflokkurinn sem verið hefur við stjórnvölinn síðustu 14 ár fær 121 þingsæti. Eftir er að skera úr um hvaða frambjóðandi stóð uppi sem sigurvegari í tveimur kjördæmum af 650.