fbpx
Laugardagur 05.október 2024
Eyjan

Hildur hæðist að Sigmundi og upphlaupi hans í gær – „Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar“

Eyjan
Föstudaginn 5. júlí 2024 15:04

Myndin er samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, stendur í eins konar ritdeilum við Hildi Sverrisdóttur, þingflokksformann Sjálfstæðisflokks, um nýstofnaða Mannréttindastofnun. Tilefni deilnanna er grein Hildar sem birtist í Morgunblaðinu á dögunum þar sem hún furðaði sig á því að Miðflokkurinn sé að amast við stofnun sem þeir samþykktu sjálfir á sínum tíma að stofna. Sigmundur skrifaði í grein sinni í gær að það væri enginn tilgangur með þessari stofnun, henni fengnar yfirgengilegar valdheimildir og að Miðflokkurinn hafi ekki sérstaklega samþykkt Mannréttindastofnun sem slíka heldur samþykkt að lögfesta samning sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Baðst Sigmundur undan því að Sjálfstæðisflokkur haldi áfram að kynna Miðflokki um allt sem miður fer. Miðflokkurinn sé að standa vaktina á meðan þjóðarskútan brennur.

Sjá einnig: „Ekki ráðast á slökkviliðið á meðan allt brennur á bak við ykkur“

Sigmundur nokkuð hvumpinn

Hildur hefur nú svarað Sigmundi sem hún telur hafa brugðist „nokkuð hvumpinn“ við grein hennar. Hildur áréttar að árið 2019 hafi Alþingi ákveðið að skuldbinda Ísland til að starfrækja stofnun á borð við Mannréttindstofnun. Undir það hafi Miðflokkurinn kvittað. Þetta séu staðreyndir máls.

„Þrátt fyrir að allt sem kom fram af minni hálfu hafi verið hárrétt virðist þetta hafa farið svo mikið fyrir brjóstið á formanninum að hann steig sérdeilis skoðanaglaður fram á ritvöllinn.“

Hildur bendir á að Sigmundur hafi í grein sinni kvartað undan því að Miðflokknum sé kennt um gjörðir Sjálfstæðisflokks með því að hafa ekki komið í veg fyrir þær. Telur Hildur að þarna sé Sigmundur að líta nokkuð stórt á sig. Hildur minnir ennfremur á að þingmenn Miðflokksins eru tveir.

„Í grein sinni afgreiðir formaðurinn yfirferð mína á aðdraganda málsins sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið upp nýja nálgun sem felist í því að gjörðir Sjálfstæðisflokksins séu Miðflokknum að kenna því flokkurinn sá með sína tvo þingmenn hafi ekki komið í veg fyrir þær. Maður kemst ekki hjá því að finnast að þarna sé annars vegar verið að líta ansi stórt á sig og hins vegar sé þarna einkar lipur undankoma frá ábyrgð á eigin gjörðum. “

Hildur segir það áhugaverða afstöðu sem birtist í grein Sigmundar en hann virðist telja það valkvætt að standa við skuldbindingar. Mögulega hefði Miðflokkurinn þá heldur átt að sleppa því að taka þátt í þessum skuldbindingum frekar en að kvitta undir, en áskilja sér árum síðar að bera enga ábyrgð.

Miðflokkurinn kosti ríkissjóð meira

Hildur minnir á að það séu engin stórkostlegt útgjöld sem fylgja þessari nýju stofnun. Aðeins 44 milljónir á ári en til samanburðar nefnir hún að launakostnaður hins opinbera vegna tveggja þingmanna Miðflokksins séu hærri, eða 52 milljónir á ári.

„Það má brosa að því þegar formaðurinn baunar misrökstuddum alhæfingum í ýmsar áttir og lætur sem fólk sé með sig á heilanum þegar honum er svarað.“

Valdheimildir Mannréttindastofnunar séu á pari við þær sem Jafnréttisstofa og Persónuvernd svo Hildur skilur ekkert í þeirri gagnrýni þingmannsins. Hildur veltir því fyrir sér hvers vegna Miðflokkur segist styðja við lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en nái svo ekki upp í nef sér þegar slíkt eigi að gera.

„Verður ekki annað séð en að Miðflokksmenn vilji ólmir geta skreytt sig þeim fjöðrum sem felast í samningnum, en á sama tíma vera andsnúnir því að efna samninginn og agnúast með ýkjum út í þá sem að axla þá ábyrgð. Það er mikill munaður að geta leyft sér að vera ósamkvæmur sjálfum sér og gaspra án ábyrgðar og er staða Miðflokksmanna í stjórnarandstöðu til marks um það.

Að endingu þessara skoðanaskipta óskar þingflokksformaðurinn þess að formaðurinn njóti sumarsins sem best og hlakkar til næstu orrustu lýðræðislegrar umræðu til gagns og gamans.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðsporsmorð eru eitt sterkasta vopn Donald Trump – Nú beinir hann spjótum sínum að Kamala Harris

Orðsporsmorð eru eitt sterkasta vopn Donald Trump – Nú beinir hann spjótum sínum að Kamala Harris
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Ragnar fer hörðum orðum um Davíð – „Heiftin og löngunin til að sýna valdið hefur knúið hann áfram“

Ólafur Ragnar fer hörðum orðum um Davíð – „Heiftin og löngunin til að sýna valdið hefur knúið hann áfram“