fbpx
Laugardagur 06.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Úr Hrunamannahreppi í Hafnarfjörð

Eyjan
Fimmtudaginn 4. júlí 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ríkisstjórn þarf ekki að vera skemmtileg til að ná árangri.“ Þannig er fyrirsögn á grein, sem Sigurður Ingi Jóhannsson skrifaði ofan úr Hrunamannahreppi í Morgunblaðið fyrir réttri viku.

Þetta er kórrétt hjá fjármálaráðherranum. Stjórnmál snúast um að taka eitt verkefni umfram annað og velja eina leið í stað annarra að settu marki.

Stjórnmálamenn mega að sjálfsögðu vera skemmtilegir, en skemmtikraftar eru einfaldlega betri í því.

Áttaviti

Árangur ræðst ekki alfarið af því hversu mörgum krónum er varið í mikilvæg viðfangsefni, heldur hinu hvað við fáum fyrir þær. Þar skiptir hugmyndafræðin oft sköpum.

Þrátt fyrir biðlista og kreppu heilsugæslunnar hefur heilbrigðisráðherra á sumum sviðum náð betri árangri en samstarfsráðherrarnir. Ekki vegna þess að hann hafi fengið verulega meiri fjármuni. Fremur vegna hins að hann losaði sig undan hugmyndafræðilegum kreddum forvera síns.

Því fer fjarri að ráðherrann hafi leyst vanda heilbrigðiskerfisins og útrýmt biðlistum. En hann hefur snúið ákveðnum hlutum til betri vegar vegna þess að áttaviti hans var frjálslynd hugmyndafræði.

Leið

Daginn áður en fjármálaráðherra skrifað grein sína ofan úr Hrunamannahreppi skrifaði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar Morgunblaðsgrein sunnan úr Hafnarfirði um mikilvægi þess að hafa hugmyndafræði sem áttavita í pólitík. Þar segir hún:

„Pólitík snýst einfaldlega um ólíkar leiðir að sameiginlegum markmiðum. Aðild að Evrópusambandinu og evrópska myntsamstarfinu er þannig hvorki stefna né markmið í sjálfu sér.

Hún er hins vegar vænleg leið og skynsöm til að ná mörgum stefnumálum og markmiðum fram, sem þjóðin á sameiginlega.“

Útflutningsfyrirtækin

Á fjármálamarkaði ríkir meiri ójöfnuður en í nokkru öðru vestrænu ríki.

Fyrir þremur áratugum sáu menn að besta leiðin til að bæta samkeppnisstöðu útflutningsgreina var að leyfa þeim að taka lán í erlendum gjaldeyri. Fyrirtækin greiddu atkvæði með fótunum. Fyrir vikið eru 40% af þjóðarkökunni utan við vaxtaumhverfi krónunnar.

Heimilin, smáatvinnurekendur og bændur fá ekki að greiða atkvæði með fótunum af því að tekjurnar eru í krónum. Er það náttúrulögmál?

Heimilin

Þessari spurningu svarar formaður Viðreisnar á þennan veg: „Ríkisstjórnin reynir að jafna þennan aðstöðumun með hærri vaxtabótum og auknum lántökum. Samfylkingin vill gera það með auknum vaxtabótum og hærri sköttum. Lausnir allra þessara flokka eru byggðar á hugmyndafræði um millifærslur og aukin ríkisumsvif.

Viðreisn er mótfallin millifærslulausnum, þegar hægt er að komast hjá þeim. Í þessu tilviki er það einfalt. Með því að tryggja öllum sama gjaldmiðla- og vaxtaumhverfi og útflutningsfyrirtækin starfa nú þegar í.

Þannig er Evrópusambandsaðildin og upptaka evru bara leið að markmiði, sem nokkuð breið samstaða er um að sé skynsamleg. Valið er hins vegar á milli stjórnlyndis eða frjálslyndis.“

Velferðarkerfið

Það hallar líka á velferðarkerfið í þessu samhengi. Við þurfum að taka þrefalt stærri sneið af þjóðarkökunni en nágrannalöndin til að standa undir vaxtagjöldum ríkissjóðs.

Láta mun nærri að vaxtamismunurinn milli Íslands og Norðurlanda nemi um það bil áttatíu milljörðum króna. Þetta eru fjármunir, sem við tökum frá velferðarkerfinu vegna þess eins að of margir þingmenn hafa oftrú á sköttum og vantrú á frjálslyndri hugmyndafræði.

Formaður Viðreisnar segir þetta vera skringilega forgangsröðun fjármuna, ekki síst þegar risaverkefni innan heilbrigðiskerfisins og innviðauppbyggingar blasa við.

Frjálslyndi eða stjórnlyndi

Formaðurinn fylgir áliti sínu eftir með þessum orðum:

„Ríkisstjórnin leysir þetta á hraða snigilsins með lántökum og sköttum síðar. Samfylkingin vill ná markmiðinu með áfangaskiptri hækkun skatta, sem endar með að koma Íslandi í efsta sæti á skattheimtulista vestrænna þjóða.

Viðreisn er heldur ekki með skyndilausn en vill tryggja að velferðarkerfið búi ekki við lakari kost en útflutningsfyrirtækin á fjármálamarkaði. Upptaka evru myndi lækka vaxtagjöld og gefa velferðarkerfinu nauðsynlegt andrými og svigrúm. Á grundvelli frjálslyndrar hugmyndafræði.“

Búð reynslunnar

Boðskapurinn frá Hafnarfirði er þörf áminning um að skýr hugmyndafræði skiptir meira máli fyrir vöxt og viðgang samfélagsins en loforðauppboð um aukin ríkisútgjöld.

Lítil en árangursrík skref heilbrigðisráðherrans á afmörkuðum sviðum sýna að í búð reynslunnar má fá staðfestingu á því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lítil auðnubót fyrir stofnanir lýðræðisins
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið

Óttar Guðmundsson skrifar: Hvalamálið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Styrk forysta Bjarna Ben – skýr framtíðarsýn – hyggst draga úr mannréttindabrotum

Svarthöfði skrifar: Styrk forysta Bjarna Ben – skýr framtíðarsýn – hyggst draga úr mannréttindabrotum
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið
EyjanFastir pennar
06.06.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Spurning um pólitísk eftirmál

Þorsteinn Pálsson skrifar: Spurning um pólitísk eftirmál
EyjanFastir pennar
01.06.2024

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Lattelepjandi listamannsaumingjar

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar: Lattelepjandi listamannsaumingjar
EyjanFastir pennar
01.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Vopn fyrir Úkraínu

Óttar Guðmundsson skrifar: Vopn fyrir Úkraínu