„Á 21. öldinni hefur Sjálfstæðisflokkurinn afsalað sér hlutverki hins frjálslynda og víðsýna stjórnmálaafls sem hefur forgöngu um að efla hag lands og þjóðar í farsælu samstarfi við aðrar lýðræðisþjóðir,“ skrifar Náttfari á Hringbraut.
Davíð Oddsson og Bjarni Benediktsson hafa breytt flokknum í úr frjálslyndum og framfarasinnuðum flokki í hagsmunagæsluaðila fyrir sérhagsmuni auðfyrirtækja, sem skeyti lítt um hagsmuni atvinnulífsins og heimila, hið minnsta ef valið stendur á milli almannahagsmuna og sérhagsmuna, skrifar Ólafur Arnarson sem ritar pistilinn.
Hann byrjar á því að benda á hversu illa ríkisstjórnarflokkarnir koma út úr skoðanakönnunum og segir ríkisstjórnina ekki aðeins lifandi dauða heldur sé farið að slá í hana eftir að Katrín Jakobsdóttir hvar frá borði.
Hann spyr hverju sæti að staða Sjálfstæðisflokksins skuli vera jafn bágborin og raun ber vitni? Stutta svarið sé að í þessu stjórnarsamstarfi hafi flokkurinn týnt tilgangi sínum, glatað erindinu. Enginn þurfi að furða sig á því. Stefnuskrá og grunngildi VG og Sjálfstæðisflokksins stangist gersamlega á. Þessir flokkar eigi aldrei að vinna saman í ríkisstjórn.
„Árangur stjórnarsamstarfsins, eða öllu heldur afleiðingar þess, blasa við öllum. Atvinnulífið og heimilin í landinu finna á eigin skinni að hér hefur í sjö ár starfað ríkisstjórn sem engin tök hefur á ríkisfjármálunum, Lykilástæður mikillar og þrálátrar verðbólgu eru lausung í ríkisfjármálunum, en ríkissjóður hefur verið rekinn með miklum halla og er þá ekki átt við viðbótarhallann sem stafar af Covid og náttúruhamförum. Innviðir grotna og má í því sambandi benda á samgöngur, heilbrigðismál og mennta- og skólamál. Ísland dregst sífellt aftur úr þeim löndum sem við berum okkur saman við, sérstaklega þegar horft er til verðmætasköpunar.
Fjármagnskostnaður íslenska ríkisins er margfaldur á við það sem önnur ríki í Evrópu, sem þó glíma við meiri skuldir en Ísland. Fyrir vikið getur ríkissjóður ekki staðið undir innviðum sem standast samanburð við það sem tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Peningarnir fara í að borga vexti.“
Ólafur segir samstarf VG og Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn grundvallast á því að flokkarnir hafi náð saman um það versta í stefnu hvor annars. Í báðum flokkum séu öfl sem vilji „verja“ Ísland fyrir umheiminum og óæskilegum áhrifum erlendis frá.
Hann segir Sjálfstæðisflokkinn hafa verið frjálslynt og víðsýnt stjórnmálaafl sem á síðustu öld hafi verið í fylkingarbrjósti varðandi umbætur í frelsisátt í íslensku viðskiptalífi, gjarnan í samstarfi við Alþýðuflokkinn. Nefnir hann sem dæmi inngönguna í NATÓ, EFTA og EES.
Með hliðsjón af sögunni má ætla að ýmsir gengnir foringjar sjálfstæðismanna frá síðustu öld myndu vart þekkja þann flokk sem í dag berst með kjafti og klóm fyrir því að viðhalda hér á landi gjaldmiðli sem veldur því að vaxtakostnaður fyrirtækja og heimila er margfaldur á við það sem stendur til boða í þeim löndum sem við berum okkur saman við og stórskaðar þar með samkeppnishæfni landsins.
Náttfara í heild má lesa hér.