Bandarískir fjölmiðlar fjölluðu um helgina um vinskap trans konunnar Sofia Nelson og J.D. Vance varaforsetaefnis Donald Trump. Nelson og Vance voru vinir í um áratug áður en að slettist upp á vinskapinn en hún hefur veitt New York Times aðgang að tölvupóstum og skilaboðum sem þau sendu sín á milli. Í þessum samskiptum bar meðal annars á harðri gagnrýni Vance í garð lögreglunnar og andúðar gagnvart Trump.
Í samantekt The Daily Beast kemur meðal annars fram að Nelson hafi verið boðið í brúðkaup Vance og konu hans Usha Chilkuri en þau giftu sig 2014. Nelson og Vance munu hafa kynnst þegar þau voru saman í laganámi við Yale háskóla en Vance lauk náminu 2013. Þau héldu vinskapnum næstu árin og höfðu einkum samskipti með því að senda hvort öðru tölvupósta og textaskilaboð.
Upp úr vinskapnum slitnaði hins vegar árið 2021 þegar Vance, sem kjörinn var öldungardeildarþingmaður Ohio 2022, studdi bann við að einstaklingum undir lögaldri verði veittar hvers kyns læknismeðferðir sem eru liður í leiðréttingu á kyni viðkomandi einstaklings.
Nelson, sem starfar í dag sem verjandi hjá hinu opinbera, segist hafa veitt New York Times aðgang að samskiptum sínum við Vance til að sýna fram á algeran viðsnúning hans frá því að vera hófsamur Repúblikani yfir í það að vera dyggur liðsmaður þess arms flokksins sem fylgir Donald Trump að málum. Hún segir Vance hafa nýtt fyrri afstöðu sína til að safna fé og sína nýju afstöðu til að auka völd sín.
Áður hefur komið fram að Vance hafi í samskiptum sínum við herbergisfélaga sinn í Yale líkt Trump við Adolf Hitler. Árið 2015 kallaði hann Trump opinberlega lýðskrumara.
Samskipti hans við Nelson sýna hins vegar fram á að hann hafði skoðanir sem nokkuð líklegt er að stuðningsmenn Donald Trump séu ekki sérstaklega sáttir við.
Haustið 2014 varð hvítur lögreglumaður hinum 18 ára gamla Michael Brown að bana í bænum Ferguson í Missouri ríki. Brown var svartur á hörund og olli dauði hans víðtækum uppþotum á svæðinu. Af þessu tilefni sendi Vance Nelson eftirfarandi skilaboð:
„Ég hata lögregluna. Ég get ekki ímyndað mér hvað svartir menn ganga í gegnum í ljósi neikvæðrar upplifunar sem ég hef ítrekað orðið fyrir síðustu ár af hálfu lögreglunnar.“
Borið hefur á andúð af hálfu Donald Trump og stuðningsmanna hans í garð trans fólks og því vekur vinskapur Vance við trans konu þeim mun meiri athygli.
Í laganáminu tengdust Nelson og Vance vinaböndum ekki síst vegna þess að bæði eru þau alin upp í miðvesturríkjum Bandaríkjanna og áttu það sameiginlegt að hafa alist upp við erfiðar aðstæður.
Nelson segir frá því að Vance hafi fært henni bakkelsi eftir að hún gekkst undir aðgerð sem var liður í kynleiðréttingarferlinu. Hún segir Vance hafa sagt við hana að hann skildi ekki hvað hún væri að ganga í gegnum en að hann styddi hana. Nelson segir þennan stuðning hafa skipt sig miklu máli og það þykir því ljóst að ekki hafi verið um einskæran kunningsskap að ræða milli þeirra heldur einlæga vináttu.
Árið 2016 sendi Vance frá sér bókina Hillbilly Elegy sem fjallar um erfið uppvaxtarár hans í Ohio en Netflix gerði síðar kvikmynd sem byggð er á bókinni. Fjallar bókin meðal annars um það hvernig var fyrir Vance að eiga móður sem glímdi við fíknisjúkdóm. Í tölvupósti til Nelson sendi Vance úrdrátt úr bókinni og sagði í póstinum að í bókinni væri henni lýst sem mjög framsækinni lesbíu. Í póstinum bað hann Nelson afsökunar á þessari lýsingu og sagðist vita að líklega liti hún ekki þannig á sjálfa sig. Hann sagðist vona að Nelson væri ekki móðguð en ef svo væri bæði hann hana fyrirgefningar og að lokum tjáði hann henni væntumþykju sína.
Í yfirlýsingu sem framboð Vance sendi New York Times segir meðal annars að Vance hafi ekkert farið í grafgötur með að skoðanir hans hafi breyst á undanförnum áratug og hann líti ekki Donald Trump lengur sömu augum og hann gerði. Framboðið segir leitt að 10 ára gömlum samskiptum milli vina hafi verið lekið. Þrátt fyrir ágreining hans og Nelson sé varaforsetaefninu enn annt um hana og óski henni alls hins besta.