fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Eyjan

Gauti segir að ef illa fer í næstu eldgosum væri gott að vera í skjóli ESB og evrunnar

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 25. júlí 2024 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gauti Kristmannsson, prófessor og deildarforseti íslensku- og menningardeildar HÍ, segist sannfærður um það að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru yrði gríðarleg lífskjarabót fyrir Íslendinga. Gauti gerir þetta að umtalsefni í aðsendri grein sem birtist á vef Vísis í dag.

Í grein sinni rifjar hann upp að um tíu ár séu liðin síðan aðildarviðræður Íslands við ESB voru stöðvaðar. Hann segir að fyrir meginþorra Íslendinga hafi þetta verið vond ákvörðun því hún hafði það í för með sér að við urðum að búa við íslensku krónuna og vextina á henni.

„Í dag borga skuldarar innlendra lána jafnvel tugþúsundir mánaðarlega aukreitis miðað við að við hefðum evru sem gjaldmiðil. Þetta kom hins vegar stórútgerðinni vel, sem gerir upp í evrum en greiðir laun í krónum. Bændur eru að vakna upp við vondan draum, en þetta tekur tíma og kannski nokkur gjaldþrot að síast inn,“ segir hann í grein sinni og rifjar upp að ein rökin gegn evrunni hafi verið þau að hægt var að lækka gengi krónunnar til að koma í veg fyrir atvinnuleysi.

„Það gerðist reyndar ekki alveg þannig eftir hrunið þegar það rauk upp og þúsundir fluttu úr landi til að fá sér vinnu. Þar kom sér vel að vera með frjálsa för innan EES, sem gerði fólki kleift að flýja hörmungarnar hér á landi og finna vinnu. En við höfum þraukað þessi tæpu 16 ár sem liðin eru og þar sem ferðaþjónustan kom til að bæta efnahaginn með gjaldeyrisinnflæði þá virtist þetta vera svo sem allt í lagi. Covid var að vísu viðvörun þar sem tengslin við ESB í gegnum EES hjálpuðu þó til, til að mynda með útvegun bóluefna.“

Gauti segir að nú sé kannski að teiknast upp önnur staða í ljósi þeirra miklu jarðhræringa sem eiga sér stað á Reykjanesskaganum.

„Nýlega var lýst yfir hættustigi vegna Grindavíkur á rauðu svæði, og óvissustigi í Svartsengi með orkuverinu og Bláa lóninu sem eru á appelsínugulu svæði. Ef illa fer og við missum hvort tveggja í náttúruhamförum þá verður Ísland mjög illa statt, líkast til verr en 2008, ekki síst ef manntjón yrði í slíkum hamförum. Víst er að Reykjanesskagi yrði hamfarasvæði, líka þeir staðir sem ekki yrðu fyrir beinu tjóni, vegna rafmagns- og vatnsleysis. Ferðaþjónustan myndi vafalaust falla saman eftir slíkar fréttir og það aftur á móti leiddi til mikils falls krónunnar, geri ég ráð fyrir. Við getum svo ímyndað okkur hvaða áhrif þetta hefði síðan á flugfélögin og hótelin í landinu. Gífurlegt atvinnuleysi væri afleiðingin hvað sem liði gengi krónunnar. Efnislega tjónið yrði gífurlegt og Náttúruhamfarasjóður hefði líkast til enga möguleika á að standa undir því öllu saman,“ segir Gauti.

Hann spyr svo hvernig þetta komi ESB og evrunni við.

„Jú, ef við hefðum evru sem gjaldmiðil myndi hún ekki hrynja þótt hamfarir verði á Íslandi, hún myndi ekki haggast, held ég. ESB er síðan með digra sjóði vegna náttúruhamfara sem Íslendingar hefðu aðgang að sem aðildarríki. Ég vona innilega, eins og við öll, að ekkert gerist á Reykjanesskaga í líkingu við þessa sviðsmynd, en jafnvel þótt svo verði ekki, er ég sannfærður um að aðild og evra yrðu gríðarleg lífskjarabót fyrir Íslendinga.“

Magnús: Nú væri gott að vera í ESB vegna stöðunnar í Grindavík

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“

Líf sendir Einari væna pillu – „Hér má sjá algera uppgjöf og metnaðarleysi borgarstjóra“
Eyjan
Fyrir 1 viku

„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn“

„Ég held að landsmenn verði miður sín að hafa ekki Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn“