fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Framsókn má búast við grimmilegri refsingu kjósenda vegna einokunar í kjötframleiðslu

Eyjan
Laugardaginn 20. júlí 2024 10:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Óhætt er að segja að fréttin um að Kaupfélag Skagfirðinga hafi keypt keppinaut sinn í kjötframleiðslu, Kjarnafæði Norðlenska, hafi vakið mikla athygli og fengið mjög vond viðbrögð. Orðið á götunni er að með þessum gjörningi hafi verið stigið stórt skref til einokunar á innlendum kjötmarkaði í rauðu kjöti, þ.e. öðru kjöti en fuglakjöti.

Eftir kaupin á Kjarnafæði Norðlenska eru nær allar kjötiðnaðarstöðvar landsins, að Sláturfélagi Suðurlands undanskildu, komnar undir hatt Kaupfélags Skagfirðinga. Þar er um að ræða stöðvarnar á Akureyri, Húsavík, Svalbarðseyri, Sauðárkróki, Hvammstanga, Blönduósi, í Reykjavík og á Hellu. Umrædd viðskipti fóru fram án þess að gera þyrfti fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, enda lét núverandi ríkisstjórn nýlega breyta lögum með þeim hætti að slátrun og kjötiðnaður séu undanþegin eftirliti Samkeppniseftirlitsins, sem eru sams konar forréttindi og mjólkuriðnaðurinn hefur notið undanfarin ár.

Á vorþingi fyrr á þessu ári var lögum breytt þannig að unnt er að sameina kjötiðnaðarfyrirtæki án leyfis frá Samkeppniseftirlitinu, sem mótmælti lagasetningunni harðlega og varaði við afleiðingum hennar. Margir tóku undir þessa gagnrýni og bentu á að með þessu væri stóraukin hætta á einokun sem kæmi beint niður á neytendum.

Kaupfélag Skagfirðinga hefur svarað þessari gagnrýni með því að fullyrða að með aukinni hagræðingu muni vöruverð lækka og unnt verði að greiða hærra verð til bænda. Þessu eiga margir erfitt með að trúa. Bent hefur verið á að fram til þessa hafi meint „hagræðing“ hvorki skilað sér til bænda né neytenda, heldur einungis til afurðastöðvanna sem bætt hafa afkomu sína og hag. Fáir trúa því að hugarfar þeirra sem stýra afurðastöðvunum muni nú breytast til hins betra. Orðið á götunni er að neytendur þurfi af horfast í augu við minnkaða samkeppni með hærra vöruverði.

Athyglin hefur beinst að því hvernig staðið var að umræddri lagasetningu síðasta vor. Formaður atvinnuveganefndar Alþingis, Þórarinn Pétursson bóndi og þingmaður Framsóknar, er talinn hafa gegnt lykilhlutverki við að keyra þá lagabreytingu í gegnum þingið að undanþiggja afurðastöðvarnar eftirliti Samkeppniseftirlitsins. Þetta var vitanlega gert með stuðningi hinna stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna, en frumkvæðið og atbeininn kom frá Framsókn, sem talin er hafa beinlínis gengið erinda Kaupfélags Skagfirðinga og annarra afurðastöðva.

Kastljósi hefur verið beint að þingmanninum og bóndanum Þórarni en, auk þess að hafa komið þessari undanþágu í gegn um Alþingi er hann í hópi þeirra sem selja eignarhlut sinn í Kjarnafæði og fá milljónir króna fyrir. Með því telja margir að hann hafi verið vanhæfur til að fjalla um þessa lagabreytingu í þinginu. Framganga Þórarins í þessu máli er sögð skýr birtingarmynd siðleysis.

Orðið á götunni er að megn Framsóknarfnykur sé af öllu þessu ferli, sem ekki muni gleymast eins glatt og stjórnendur afurðastöðvanna hafa vonað og gert ráð fyrir. Neytendur munu fylgjast með verðþróun kjötvara og láta í sér heyra. Einnig hittist svo á að neytendur eru líka kjósendur og ætla má að þeir hugsi Framsókn þegjandi þörfina og refsi flokknum við fyrsta tækifæri.

Orðið á götunni er að full ástæða sé einnig til að búast við því að ný ríkisstjórn Samfylkingar og fleiri muni breyta þessum umdeildu lögum fljótlega eftir að hún kemur til valda, í síðasta lagi á næsta ári. Þá verður starfsemi kjötiðnaðarins og mjólkurframleiðslunnar sett undir Samkeppniseftirlitið rétt eins og annar rekstur í samfélaginu. Neytendur eygja ljós við enda ganganna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“

Ragnar Þór segir þingmann Framsóknarflokksins staðfesta spillingu í landbúnaði – „Allt í boði spilltra stjórnmála“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun

Björn Jón skrifar: Ríkisútvarpið telst trauðla menningarstofnun