fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Lindarhvoll: Milljónir í stjórnarlaun en engir stjórnarfundir – óheyrilegur lögfræðikostnaður en engar tímaskýrslur

Ólafur Arnarson
Föstudaginn 19. júlí 2024 14:26

Myndin er samsett.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslög, lögmannsstofa Steinars Þórs Guðgeirssonar, hefur frá árinu 2016 sent fjármálaráðuneytinu og Lindarhvoli, einkahlutafélagi sem fjármálaráðherra stofnaði 2016, reikninga upp á hátt í 300 milljónir og fengið greidda án þess að tímaskýrslur fylgi reikningum. Þetta er andstætt samningi sem ráðuneytið gerði við Íslög f.h. Lindarhvols árið 2016, en í honum er skýrt tekið fram að tímaskýrslur skuli fylgja reikningum.

Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, stofnaði Lindarhvol til að taka við, halda utan um og ráðstafa eignum sem kröfuhafar föllnu bankanna afhentu ríkinu sem stöðugleikaframlög árið 2016. Íslandsbanki var utan við Lindarhvol.

Strax í upphafi fékk ráðuneytið Steinar Þór Guðgeirsson lögmann, sem hafði starfað áður fyrir Eignarhaldsfélag Seðlabanka Íslands (ESÍ). Steinar Þór sinnti framkvæmdastjórn Lindarhvols.

Verkefnum Lindarhvols lauk 2018 og það ár var felldur úr gildi samningur milli félagsins og fjármálaráðuneytisins. Í skýrslu stjórnar með ársreikningi Lindarhvols 2022 (sem er síðasti ársreikningur sem hefur verið skilað) segir:

„Í ársbyrjun 2018 hafði Lindarhvoll ehf. að mestu lokið þeim verkefnum sem það hafði með höndum og komið stærstum hluta þeirra eigna í verð, sem það annaðist umsýslu með. Samkomulag varð um það milli stjórnar Lindarhvols og fjármála- og efnahagsráðuneytisins að fella við svo búið niður samning sem ráðuneytið gerði við félagið í apríl 2016 um úrvinnslu og umsýslu stöðugleikaeigna frá og með 7. febrúar 2018. Félaginu skyldi slitið í kjölfarið.“

Ekki gekk það eftir að félaginu yrði slitið vegna þess að eftirmál urðu af starfsemi þess. Frigus II stefndi Lindarhvoli og fjármálaráðuneytinu vegna þess að það taldi að Lindarhvoll hefði mismunað tilboðsgjöfum í félagið Klakka árið 2016, en Klakki virðist hafa verið seldur á miklu undirverði, jafnvel hálfvirði, til félags sem fyrir fór þáverandi forstjóri Klakka. Héraðsdómur dæmdi ríkinu í vil í mars 2023 en Frigus II hefur áfrýjað því og reikna má með að það verði flutt þar á komandi hausti.

Eftir stendur að engin starfsemi hefur verið í Lindarhvoli frá því á árinu 2018. Einu verkefni félagsins hafa tengst áðurnefndu dómsmáli. Fækkað var í stjórn félagsins og síðustu árin hefur aðeins einn stjórnarmaður verið í félaginu, Esther Finnbogadóttir, sem er í fullu starfi í fjármálaráðuneytinu.

Sjá einnig: Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Í samræmi við að verkefni félagsins hafa engin verið voru stjórnarlaun felld niður. Hins vegar brá svo við að á árinu 2022 eru stjórnarlaun aftur komin á, 150 þúsund krónur á mánuði, og í fundargerð aðalfundar Lindarhvols frá 27. júní 2023 kemur fram að launin verði hin sömu á því ári. Ekki verður betur séð af fundargerðinni en að stjórnarlaunin fyrir 2022 hafi verið ákveðin afturvirkt á þessum fundi.

Eyjan hefur ítrekað óskað eftir fundargerðum stjórnar Lindarhvols en svo virðist sem engir stjórnarfundir hafi verið haldnir frá árinu 2020, hið minnsta. Því er með öllu óljóst fyrir hvað er verið að greiða með stjórnarlaunum til Estherar upp á 150 þúsund á mánuði, 1.800 þúsund á ári síðustu tvö ár. Eyjan hefur spurst fyrir um hver hafi tekið ákvörðun um stjórnarlaunin og fengið þau svör ein að fulltrúi ríkisins (eina hluthafans) hafi ákveðið þau á aðalfundi.

Ætla verður að einhver annar en embættismaður í fjármálaráðuneytinu taki ákvörðun um að greiða stjórnarmanni í hlutafélagi með enga starfsemi, þar sem engir stjórnarfundir eru haldnir, taki ákvörðun um að greiða stjórnarlaun. Athygli vekur að samningurinn sem starfsemi Lindarhvols grundvallaðist á var felldur úr gildi fyrir sex árum, starfsemin engin, en samt borguð há stjórnarlaun til embættismanns í fjármálaráðuneytinu, sem er á fullum launum í ráðuneytinu og virðist sem stjórnarmaður í Lindarhvoli vera lítið meira en nafn á blaði.

Sjá einnig: Lindarhvoll skilar ársreikningi fimm mánuðum of seint – fjárframlög ríkissjóðs virðast byggja á samningi sem fallinn er úr gildi fyrir fimm árum

Sala Lindarhvols á Klakka kemur sem fyrr segir til kasta Landsréttar í haust. Lögmannskostnaður ríkisins vegna málsins fram til ársloka 2022 er þegar kominn yfir 20 milljónir króna, en lögmaður ríkisins og Lindarhvols er Steinar Þór Guðgeirsson, sem einnig er eitt helsta vitnið í málinu. Reyndir lögmenn sem Eyjan hefur rætt við telja 20 milljóna kostnað vegna undirbúnings og flutnings máls af þessu tagi fyrir Héraðsdómi vera svimandi háan og svo virðist sem helmingi lægri fjárhæð myndi teljast eðlilegri.

Samkvæmt upplýsingum frá Esther Finnbogadóttur hafa engar tímaskýrslur fylgt reikningum Steinars Þórs, ekki heldur vegna málflutningsins. Eyjan sendi fjármálaráðherra fyrirspurn vegna þessa 19. apríl síðastliðinn. Var ráðherrann inntur eftir því hvort þessi vinnubrögð, að ganga ekki eftir tímaskýrslum vegna vinnu upp á tugi og hundruð milljóna fyrir ráðuneytið, yrðu látin viðgangast áfram. Engin svör hafa borist. Ráðherra þegar fyrirspurnin var send var Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. Fyrirspurnin var hins vegar ekki stíluð á hana persónulega heldur á fjármálaráðherra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina

Kristrún Frostadóttir: Lítum á þingflokka ríkisstjórnarinnar sem einn stóran þingflokk – nýtt verklag við landsstjórnina
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir

Óttar Guðmundsson skrifar: Grænlandsraunir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“

Andri Snær kemur Carbfix til varnar – „Ég hef þessa skoðun, get skipt um skoðun“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“

Tímamóta-Dagur þakkar fyrir sig – „Og angurværi gaurinn – ég – til hægri, þakkar fyrir sig!“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni

Fyrrum þingmaður segir okkur ekki ráða við þetta einfalda verkefni
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð