fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Ráðamenn sem hossa sjálfum sér

Eyjan
Sunnudaginn 14. júlí 2024 13:30

Konferensráð Tage Reedtz-Thott barón gegndi á árunum 1894–1897 embætti forsætisráðherra Danmerkur (sem þá var kallað ráðuneytisforseti, þ.e. konseilspræsident, en nú statsminister). Hér er hann vandlega skrýddur stórkrossum ýmissa ríkja og fleiri orðum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rúmum fjórum árum gerði ég fálkaorðuna að umtalsefni hér á þessum vettvangi og þá sér í lagi stórkross hennar, en þegar við stofnun fálkaorðunnar 1921 var tekinn upp sá siður að veita forsætisráðherra stórkross að danskri fyrirmynd, en löng venja býður að forsætisráðherra Dana sé sæmdur stórkrossi dannebrogsorðunnar. 

Jafnaðarmenn víðs vegar um álfuna fylgdu lengi þeirri stefnu að þiggja ekki orður og sama gilti um suma framsóknarmenn. Ásgeir Ásgeirsson, forsætisráðherra 1932–1934, þáði til að mynda engar orður fyrr en hann varð sjálfkrafa stórmeistari fálkaorðunnar er hann var kjörinn forseti 1952. Ásgeir hafði raunar flutt tillögu á Alþingi 1924 þess efnis að aðeins erlendum mönnum yrði veitt orðan. 

Hermann Jónasson forsætisráðherra tók heldur ekki við stórkrossinum og sama gilti um son hans, Steingrím, sem leit svo á að hann væri bara að „vinna vinnuna sína“ og engin ástæða til að verðlauna það sérstaklega. Hermann faðir hans mun hafa haft uppi áþekk sjónarmið. Hermann þáði þó orðu frá Frökkum eftir lok stríðsins fyrir að hafa staðið á móti óskum Þjóðverja um flugbækistöð hér á landi. Hann leit þá orðuveitingu öðrum augum þar sem verið væri að sýna honum virðingarvott fyrir tiltekið framlag. 

Þegar ég skrifaði pistilinn fyrir fjórum árum höfðu þessir forsætisráðherra hlotið stórkrossinn frá því að Steingrímur lét af embætti 1991: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Í greininni gerði ég að umtalsefni að Jóhanna Sigurðardóttir, Bjarni Benediktsson og Katrín Jakobsdóttir hefðu aftur á móti ekki veitt stórkrossinum viðtöku. Ég hafði spurst fyrir um málið hjá aðstoðarmanni Katrínar sem staðfesti að hún hefði hafnað móttöku stórkrossins en að öðru leyti kysi hún að tjá sig ekki um málið. Eftir að Katrín laut í lægra haldi í forsetakjöri nú í sumar getur hún alltént huggað sig við að þurfa ekki að gerast stórmeistari fálkaorðunnar. 

Konferensráð Tage Reedtz-Thott barón gegndi á árunum 1894–1897 embætti forsætisráðherra Danmerkur (sem þá var kallað ráðuneytisforseti, þ.e. konseilspræsident, en nú statsminister). Hér er hann vandlega skrýddur stórkrossum ýmissa ríkja og fleiri orðum.

Bjarni þáði orðuna á endanum 

Nokkur blaðaskrif urðu í kjölfar pistilsins fyrir fjórum árum og í frétt DV var haft eftir Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, að ekkert formlegt erindi hefði borist um að veita Bjarna „orðu“ eins og hún orðaði það en málið hefði þó „borið á góma í óformlegu samtali í síma við forsetann fyrir nokkrum misserum og hefur ekki verið rætt síðan“. 

Í janúar síðastliðnum var greint frá því að Bjarni, sem þá var utanríkisráðherra, hefði verið sæmdur stórkrossi fálkaorðunnar í kyrrþey tveimur dögum fyrir jól. 

Svo sem kunnugt er dvaldi Bjarni ekki lengi í utanríkisráðuneytinu heldur gerðist forsætisráðherra öðru sinni á vordögum og getur nú skartað embættistáknum forsætisráðherra í opinberum veislum. Þórdís Kolbrún Reykjörð Gylfadóttir hélt við svo búið aftur í utanríkisráðuneytið. 

Meira af orðum 

Fréttir bárust af því á dögunum að forseti Íslands hefði fallist á tillögu utanríkisráðherra um sérstakt heiðursmerki utanríkisráðuneytisins í gulli, silfri og bronsi sem sæma megi bæði „íslenska einstaklinga og erlenda, er inna af höndum störf, sem mikils þykir um vert á málefnasviði utanríkisráðuneytisins“ eins og það er orðað en samkvæmt dagskrá ríkisstjórnarinnar bar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir málið upp á fundi 11. júní sl.  

Staksteinar Morgunblaðsins hentu að vonum gaman að þessu tiltæki varaformanns Sjálfstæðisflokksins, en merkið prýðir holtasóley sem var flokksmerki Þjóðvaka, flokks Jóhönnu Sigurðardóttur, konunnar sem þvertók fyrir að þiggja nokkrar orður. Þá vakti athygli höfundar Staksteina að borðinn væri gulur, hvítur og grænn, sem sagt í fánalitum Brasilíu. Hann bætti því við að til þessa hefði fálkaorðan dugað en gott væri samt að vita að í utanríkisráðuneytinu hefðu menn „nóg fyrir stafni við að gæta hagsmuna lands og þjóðar“. Svarthöfði hér á DV gantaðist líka með glingrið og sagði utanríkisráðherra þarna sýna að forgangsröðunin vefðist ekki fyrir henni: „Hún vindur sér beint í stóru verkin, sýnir kjark, dirfsku og framsýni svo um munar.“ 

Kannski áðurnefnd Svanhildur Hólm Valsdóttir verði sæmd orðunni með merki Þjóðvaka, en hana skipaði Bjarni sem kunnugt er í starf sendiherra í Washington. En að öllu gamni slepptu er í meira lagi undarlegt að utanríkisráðuneytið af öllum stofnunum telji þörf á sérstakri orðu þar eð diplómatar hafa jafnan notið nokkurra forréttinda hvað varðar orðuveitingar en virðing og vegsemd manna í þeim selskap hefur löngum ráðist af því hversu vel menn eru „krossaðir“ við veislur. Ekki kæmi mér á óvart að ráðamenn segðu sér skylt að stofna til áðurnefndrar orðu til að „uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar“ sem er einn vinsælasti frasinn nú um stundir til að réttlæta illskiljanlegar ákvarðanir. 

Eyður verðleikanna 

Tillaga utanríkisráðherra um sérstakar orðuveitingar ráðuneytisins ber vitni um firringu í opinberu kerfi þar sem menn sjá ástæðu til að hossa hverjir öðrum á sama tíma og traust almennings til stofnana ríkisins fer þverrandi. Nær væri að draga úr orðuveitingum en auka þær. Vel kunn er vísa þjóðskáldsins Steingríms Thorsteinssonar og ekki að undra að hún lifi enn á vörum þjóðarinnar: 

Orður og titlar, úrelt þing, –
eins og dæmin sanna, –
notast oft sem uppfylling
í eyður verðleikanna. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar
EyjanFastir pennar
07.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið