fbpx
Mánudagur 15.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Eyjan
Laugardaginn 13. júlí 2024 15:15

Sigmundur Ernir Rúnarsson.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samfélagshyggja hefur verið á hröðu undanhaldi hér á landi um árabil, en fyrir vikið er Ísland löngu búið að skera sig úr skandinavíska módelinu þar sem samstaða almennings einkennir öðru fremur mannlífið – og fólk hugsar út fyrir eigin nafla.

Á meðan er svo komið fyrir Íslendingum að þeim er varla annt um aðra en sjálfa sig.

Ástæðu þessa viðskilnaðar má rekja til þess að hægrimenn hafa haft tögl og hagldir við valdstjórnina um áratugaskeið – og raunar langt umfram kjörfylgi íhaldsaflanna hverju sinni, en samstarfsflokkar þeirra, oftast Framsóknarflokkurinn, hefur alla jafna verið svo meðvirkur við ríkisstjórnarborðið, að honum hefur hreinlega ekki sést fyrir. Gamla samvinnuhugsjónin hefur glatað gljáa sínum í hvert sinn sem hann hefur staðið í skugga stóra flokksins.

Það sama má raunar segja um vinstriflokkana í þau skipti sem þeir hafa lagt lag sitt við Sjálfstæðisflokkinn. Þeim hefur ekki tekist að sporna við einstaklingshyggjunni og þeim útsmogna áróðri að hver og einn skuli eiga sitt og að sameign sé beinlínis varhugaverð.

Og þess vegna skuli allir hugsa um sitt. Og allir eignast sitt. Jafnvel svo að tuttugu garðsláttuvélar séu til staðar í tuttugu húsa íbúðagötu. Það megi heita aulaháttur að deila svoleiðis græju með nágranna sínum. Gott ef það er ekki bara minnipokamennska.

En þetta er hugsanahátturinn. Ég um mig frá mér til mín. Og aðrir mega eiga sig.

Samfélagsgerðinni á Íslandi hefur verið breytt að þessu lagi með valdi. Opinber þjónusta hefur verið litin hornauga. Ríkisrekstur hefur verið talaður niður. Einkavæðing hefur verið töfraorðið. Úthlutun auðlinda til sem fæstra, á kostnað sem flestra, hefur verið leiðarstefið á stefnuskrá valdhafanna.

„Íslenska lífeyrissjóðskerfið, sem er fyrirmynd á heimsvísu í fyrirhyggju jafnt og samfélagshyggju, hefði líklega aldrei komið til greina á þeirri öld sem landsmenn nú lifa.“

Af þessum sökum var sameignarfyrirkomulaginu á húsnæðismarkaði slátrað á sínum tíma, líklega fyrir aldarfjórðungi eða svo. Verkamannaíbúðakerfið var einfaldlega lagt niður. Það mátti ekki lengur heita svo að það væri félagslegt úrræði að verða sér úti um þak yfir höfuðið. Það skyldu sko allir, altso hver og einn einstaklingur, sjá um sig sjálfur. Og borga íbúð sína eins oft og ævin entist honum, en helst lengur. Séreignarstefnan varð allsráðandi. Og leigumarkaður var þar af leiðandi vanræktur. Leiguþak kom aldrei til greina. Markaðurinn ætti að sjá um þetta. Húsaleiga mætti vera eins há og leigusalanum kæmi til hugar. Því það ætti að græða á fólki – og almenningur mætti blæða.

Hægrið eignaði sér land og þjóð. Og valdaránið stóð yfir á meðan allir sáu til.

Þessi algera breyting sést best á því að fyrir hálfri öld hvarflaði að íslenskri þjóð – og þáverandi valdhöfum – að efna til stórkostlegasta samfélagssáttmála sem gerður hefur verið á tímum lýðveldisins. Það var afráðið að búa til sameiginlegan sjóð svo aldraðir Íslendingar gætu notið ævikvöldsins við þokkaleg efni. Örlætið í þágu alþýðunnar var jafnvel svo mikið á þessum tíma, fyrir fimmtíu árum, að þeir sem þegar voru orðnir gamlir – og voru við það að detta út af vinnumarkaði, gátu fengið úthlutað úr sjóðnum við stofnun hans, þótt þeir væru ekki búnir að borga í hann. Því nú skyldu allir hjálpa öllum. Það var erindið. Auðna óháð efnahag.

Íslenska lífeyrissjóðskerfið, sem er fyrirmynd á heimsvísu í fyrirhyggju jafnt og samfélagshyggju, hefði líklega aldrei komið til greina á þeirri öld sem landsmenn nú lifa. Það er búið að breyta hugsunarhætti heillar þjóðar. Nú skal hver bjarga sér sjálfur. Annað heitir víst fé án hirðis.

Einstaklingshyggjan hefur nefnilega rænt okkur vitinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna

Óttar Guðmundsson skrifar: Frelsi listamanna
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu

Steinunn Ólína skrifar: Glæpurinn gegn mannkyninu
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland

Steinunn Ólína skrifar: Kæra miðaldra Ísland
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi

Svarthöfði skrifar: Þess vegna er Viðreisn í bjórfylgi
EyjanFastir pennar
14.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar

Steinunn Ólína skrifar: Í dag erum við öll Akurnesingar
EyjanFastir pennar
08.06.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar

Óttar Guðmundsson skrifar: Eftir kosningar
EyjanFastir pennar
07.06.2024

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið

Steinunn Ólína skrifar: Verðmætamatið