Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hefur beðið Samfylkinguna afsökunar á staðreyndavillu sem hún hélt fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í morgun. Þar hjólaði Hildur meðal annars í Samfylkinguna í borgarstjórn Reykjavíkur og sagði kjósendur ekki geta treyst loforðum flokksins um bættan hag barnafjölskyldna.
„Í baráttu sinni við að telja barnafjölskyldum trú um að þau séu best til þess fallin að stýra för hefur Samfylkingin til að mynda lagt fram stefnu með fögrum fyrirheitum en reyndar líka blygðunarlausum sögufölsunum líkt og að tólf mánaða fæðingarorlof hafi orðið að lögum undir þeirra forystu árið 2012. Hið sanna er að það var gert fyrir fjórum árum af sitjandi ríkisstjórn,“ skrifaði Hildur í umræddri grein.
Í færslu á Facebook-síðu sinni bendir Hildur á að hún hafi haft Samfylkinguna fyrir rangri sök varðandi þetta atriði.
„Þetta var ekki alveg rétt hjá mér því þáverandi ríkisstjórn Samfylkingar samþykkti vissulega árið 2012 að koma á 12 mánaða fæðingarorlofi í þrepum til ársins 2016. Þau áform tóku aldrei gildi því þau voru metin ófjármögnuð vegna stöðu ríkissjóðs af ríkisstjórninni sem tók við og var hámarksupphæð orlofsins hækkuð í staðinn. Það var svo árið 2020 sem fæðingarorlof er hækkað i 12 mánuði af núverandi ríkisstjórn,“ skrifaði Hildur og bætti stórmannlega við: