fbpx
Þriðjudagur 16.júlí 2024
Eyjan

Ari Kr. Sæmundsen skrifar: Óbærilegur léttleiki tilverunnar

Eyjan
Föstudaginn 7. júní 2024 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nú velta menn fyrir sér að breyta forsendum útreikninga á neysluverðsvísitölunni, reikna húsnæðisliðinn með öðrum hætti, líkt og í þeim löndum „sem við helst berum okkur saman við“. Með þessari nýju reiknireglu lækkar verðbólgan? Þá lækkar peningastefnunefnd Seðlabankans væntanlega stýrivextina? Er tilvera okkar þá háð einhverjum síbreytilegum reiknikúnstum embættismanna úti í bæ?

Verðbólga var mönnum einmitt hugleikin í kjaraviðræðum stéttarfélaga innan ASÍ og Samtaka atvinnulífsins, helst að skilja að ef fólk fengi einhverja skitterís kauphækkun færi allt þjóðfélagið á hliðina. Látum það liggja á milli hluta en hitt er annað að ekkert hefði orðið af samningum nema Ríkið hefði komið með myndarlegan pakka inn í fundarherbergið: fleiri íbúðir, fríar skólamáltíðir og mikilfenglegar breytingar á bótakerfinu, svo eitthvað sé nefnt; áttatíu milljarðar næstu fjögur árin. Hefur engum dottið í hug að einfalda skattkerfið, fækka skattþrepum í eitt, afnema bótakerfið og persónuafsláttinn og hækka þess í stað skattleysismörkin? Hvað kostar þetta millifærslukerfi og hvað vinna margir við það? Veit það nokkur? Hvað með að afnema undanþágur frá virðisaukaskatti og lækka hann? Ein og sama prósentan fyrir allt og alla. Hagstofan hlýtur að geta reiknað þetta út, svo ríkissjóður komi út á núlli. Hún eru svo góð í reikningi.

Af hverju var bara Ríkið kallað að samningaborðinu, en ekki bankarnir?  Eru þeir alltaf stikkfrí? Það er reyndar kannski ekki skrítið að Ríkið skuli kallað til, við búum í e.k. sovéti, Ríkið alltumvefjandi. Ríkið er t.d. í fjármálastarfsemi, selur áfengi og nærföt, rekur ljósvakamiðil og ætlar nú að koma sér fyrir á tryggingamarkaði. Spurning hvenær Ríkið opnar bílasölu og fer að gefa út dagblað? Pravda?

Fjármálaráðherra fær skömm í hattinn frá Umboðsmanni Alþingis. Hann axlar ábyrgð og segir af sér með því að færa sig yfir í utanríkisráðuneytið og utanríkisráðherra allt í einu orðinn fjármálaráðherra. Matvælaráðherra brýtur lög, en verst fimlega og segir lögin gömul og úrelt, ekki mark á þeim takandi. (Góð málsvörn ef maður skyldi einhvern tímann verða dreginn fyrir dóm.) Hann axlar enga ábyrgð og fer svo í veikindaleyfi. Óska honum góðs bata. Þáverandi forsætisráðherra tók að sér matvælaráðuneytið og stjórnaði forsætisráðuneytinu með vinstri hönd og matvælaráðuneytinu með þeirri hægri. Það fyrsta sem hægri höndin gerði var að skipa starfshóp til að lagfæra lögin, sem matvælaráðherra braut. Og nú er fjármálaráðherra aftur orðinn utanríkisráðherra, en utanríkisráðherra forsætisráðherra. Um leið fór innviðaráðherra í fjármálaráðuneytið og matvælaráðherra, kominn úr veikindaleyfi, í innviðaráðuneytið. Og svo var skipaður nýr matvælaráðherra, sem virðist við fyrstu sýn frekar ráðvilltur, ætlar t.d. að veita norskum laxeldisfyrirtækjum óheftan aðgang að íslenskum fjörðum. Þetta er kallað ráðherrakapall og þykir víst skemmtileg afþreying í stjórnarráðinu.

Það vinna um 700 manns hjá stjórnarráðinu. Við hvað starfar þetta fólk, ef fagráðuneytin þurfa í sífellu að skipa starfs- eða spretthópa til að greina ýmis úrlausnarefni og koma með tillögur? E.t.v. eru starfsmenn stjórnarráðsins svo uppteknir við að gullhúða tilskipanir frá löggjafa Íslendinga, Evrópusambandinu (ESB), að þeir hafa ekki tíma til að vera að vasast í einhverjum tittlingaskít. Þess á milli er verið að „skoða“ mál. Það er einmitt eftirtektarvert að þegar verið er að þýfga ráðherra um um einhver mál, sem eru brýn og þarfnast úrlausnar, þá er alltaf verið að „skoða“ þau í viðkomandi fagráðuneyti, eða verið að skipa starfshóp, eða bíða eftir skýrslu frá starfshópi.

Allskonar glæpalýður streymir til landsins og við gætum stöðvað þennan straum, en mörg flugfélög uppfylla ekki þá lagalegu skyldu sína að upplýsa yfirvöld um hverjir eru um borð. Mönnum er vísað úr landi, en eru komnir aftur með næstu vél daginn eftir. Um 75% gæsluvarðhaldsfanga 2023 voru með erlent ríkisfang. En örvæntið ekki, þetta mál er í „skoðun“ í dómsmálaráðuneytinu. Tillaga: Við yfirheyrslur sýnum glæponunum mynd af gömlu síldarverksmiðjunni í Ingólfsfirði á Ströndum í vetrarbúningi og segjum þeim að þangað verði þeir sendir í afplánun verði þeir fundnir sekir. Sleppum þeim svo lausum og þeir forða sér með fyrstu vél og koma aldrei aftur.

Nú eru uppi áform um að selja hlut Ríkisins í Íslandsbanka og jafnvel haft á orði að tímabært væri að huga að því að selja Landsbankann. Þá verður allt vitlaust í þinginu og ríkisstjórnin sökuð um að ætla að selja „gullgæsina“, enginn arður til framtíðar. Þessi gagnrýni kemur frá sama fólki sem í hinu orðinu fárast yfir gjaldtöku og okurvöxtum bankanna. Hvort er það, gullgæs eða okurbúlla?

Paprikuræktandi á Flúðum telur sig vera að rækta paprikur með vistvænni orku, en allt í einu er búið að selja undan honum vistvænu fullyrðinguna með upprunavottorði til paprikuframleiðanda á Spáni, sem heldur áfram að rækta paprikur með rafmagni framleiddu með olíubrennslu, en getur nú haldið því fram að framleiðsla hans sé vistvæn, hún sé jú framleidd með endurnýjanlegri orku frá Íslandi.

Við Íslendingar losum svo mikið af gróðurhúsalofttegundum, samkvæmt einhverjum illa skilgreindum mælingum, að við þurfum að kaupa losunarheimildir frá hinni umhverfisvænu Austur-Evrópu. Hvaða fábjánar komu þessum kerfum upprunavottorða og losunarheimilda á og hvaða vitleysingar viðhalda þeim? Hef stundum sagt í gríni að það sé of mikið af fólki í vinnu hjá ESB í Brussel sem hefur of lítið að gera og þá dettur því allskonar vitleysa í hug eins og t.d. að tappar eigi að vera áfastir plastflöskum. Það er því nánast ógerningur að drekka af stút.  Hvað gerir almenningur þá? Nú, hann slítur bara tappann lausan. Þetta er hætt að vera fyndið.

Umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra er mikið niðri fyrir, orkuskortur yfirvofandi. Á sama tíma hvetur hann landsmenn til að kaupa sér rafmagnsbíla. Hvað gerist þegar allir Íslendingar stinga í samband og stóri lekaliðinn á Háaleitisbrautinni slær út? Las einhvers staðar að um 6% af losun okkar á gróðurhúsalofttegundum séu frá almennri bílaumferð, restin að mestu frá landnotkun, stóriðju og flug- og skipaumferð. Af hverju er verið að djöflast í bifreiðareigendum? Jú, það er einfalt og auðvelt. Gerði mér heldur ekki grein fyrir því að við værum í einhverri pissukeppni við Noreg um hvor þjóðin væri með hlutfallslega fleiri rafmagnsbíla.

Við erum í óða önn að flokka sorp og matarleifarnar eru notaðar í moltugerð og til að framleiða „lífrænt“ metan. Er til ólífrænt metan? Metan og CO2 eru þessar s.k. gróðurhúsalofttegundir, en hvað myndast við bruna metans? Jú, CO2. Við erum sem sagt að framleiða eina gróðurhúsalofttegund til að mynda aðra.

Og nú ætlar ESB að skattleggja farþega- og farmflutninga til og frá Íslandi af því að við eigum frekar að flytja vörur og fólk með járnbrautarlestum, knúnum rafmagni framleiddu með jarðefnaeldsneyti, og meirihluti alþingis lætur sér það vel líka. Samræmist þessi skattlagning 40. gr. stjórnarskrárinnar? Í hvað fara þessir skattar?

Það á að skattleggja Evrópubúa í drep í nafni loftslagsvár á meðan mestu umhverfissóðar heims yppa bara öxlum og glotta út í annað. Þeir vita fæstir hvar Ísland er eða er slétt sama hvað við erum að puða. Ísland er ekki einangrað vistkerfi, aðgerðir okkar eru dropi í hafið og við erum ekki og munum aldrei verða umhverfissóðunum fyrirmynd.

Svona er óbærilegur léttleiki tilverunnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á