fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Morgunblaðið auglýsir eftir „nýrri köllun“ Katrínar Jakobsdóttur

Eyjan
Þriðjudaginn 4. júní 2024 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Orðið á götunni er að það hafi verið grátbroslegt að fylgjast með því í dag hvernig þeir sem töpuðu forsetakosningunum um liðna helgi hafa reynt að sleikja sár sín og leita sökudólga.

Ekki fór á milli mála að Morgunblaðið gekk fram fyrir skjöldu í aðdraganda kosninganna í stuðningi við Katrínu Jakobsdóttur. Útsendarar blaðsins voru gerðir út til að reyna að sverta helstu keppinauta Katrínar og birtar voru furðufréttir vegna þeirra allt fram á síðasta dag. Umfjöllun blaðsins var því ekki til sóma og furðu vekur að stjórn og eigendur útgáfunnar hafi ekki séð ástæðu til að grípa inn í. Reynt var að gera störf Höllu Hrundar Logadóttur í embætti orkumálastjóra tortryggilegt með einkennilegum upplýsingum úr bókhaldi stofnunarinnar sem ekkert var athugavert við, kynhneigð Baldurs Þórhallssonar var gerð að umtalsefni eins og við værum stödd snemma á síðustu öld og Höllu Tómasdóttur var meðal annars fundið það til foráttu að hafa á árunum 2006 til ársins 2007 starfað sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands og látið að því liggja að þar með væri hún ein af þeim sem ábyrgð bera á bankahruninu haustið 2008. Er það sennilega hið grátbroslegasta af öllu sem blaðið reyndi í ljósi þess að ritstjóri þess stýrði Seðlabanka Íslands á þeim örlagatíma þar til hann var rekinn þaðan snemma árs 2009. Ýmsir hafa haldið því fram að Davíð Oddsson sé einn helsti upphafsmaður hrunsins, m.a. tímaritið Time.

Árásir Morgunblaðsins á keppinauta Katrínar báru ekki árangur frekar en annað. Halla Tómasdóttir sigraði með yfirburðum, hlaut 34 prósent atkvæða, örugga kosningu og sterkt umboð kjósenda til að gegna embætti forseta Íslands. Nú hefur það gerst í annað skipti á átta árum að þjóðin hefur hafnað fyrrverandi forsætisráðherra í forsetakosningum. Þegar Guðni Th. Jóhannesson var kjörinn í fyrra skiptið árið 2016 var Davíð Oddsson einnig í kjöri og lenti í fjórða sæti. Örlög þessara tveggja fyrrverandi forsætisráðherra, Katrínar og Davíðs, eru því hin sömu. Þjóðin hafnaði þeim báðum í forsetakosningum.

Í leiðara Morgunblaðsins í gær kemur fram sú skoðun að Katrín Jakobsdóttir muni væntanlega finna „nýja köllun“, eins og það er orðað. Hvað skyldi vera átt við með þessu? Það er ekki alveg augljóst. Það hefur komið skýrt fram í máli Katrínar að hún sé hætt í stjórnmálastarfi enda sagði hún af sér bæði ráðherradómi og þingmennsku og lét þess enn fremur getið að hún hafi verið búin að ákveða að gefa ekki oftar kost á sér til þingsetu. Varla snýr hún frá þessum ákvörðunum í næstu kosningum. Hver ætti köllunin þá að vera?

Orðið á götunni er að milli íslenskra stjórnmálamanna sé þegjandi samkomulag um að sá eða sú sem hefur einhvern tímann gegnt starfi formanns stjórnmálaflokks geti hvenær sem er óskað eftir stöðu sendiherra. Það þyrfti því ekki að koma á óvart að Katrín fetaði í spor fjölmargra fyrrverandi formanna flokka og tæki við stöðu sendiherra Íslands í einhverju nágrannaríkjanna. Það væri vel til fundið – og þyrfti svo sem enga sérstaka köllun til þess.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt