fbpx
Miðvikudagur 03.júlí 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Af grásleppu og „hátignarkomplexum“ VG 

Eyjan
Sunnudaginn 30. júní 2024 15:00

Grásleppan er hrygna hrognkelsis en hængurinn nefnist rauðmagi. Samt er aldrei talað um „rauðmagakarla“ eða „rauðmagaveiðar“ — hér hefur kvenheitið yfirhöndina. Nokkuð sem menn ættu að íhuga í umræðum um „karllæga“ íslensku. Mynd: Landsamband smábátaeigenda

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í raun og veru finnst mér ekkert matur nema sigin grásleppa,“ er Gvendur Gúðmúnsen látinn segja við Garðar Hólm í Brekkukotsannál og varla nokkur matur rammíslenskari en sigin grásleppa. Reyndar skilst mér að víða úti á landi éti menn „feita grásleppu upp úr sjó“ eins og kona nokkur orðaði það í mín eyru. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti en hér í Reykjavík líta menn ekki við henni nema siginni. Grásleppan komst í fréttirnar á dögunum þegar fyrrverandi þingmaður Vinstri grænna, Lilja Rafney Magnúsdóttir, yfirgaf flokk sinn í mótmælaskyni við kvótasetningu grásleppu. Ádeiluefnið sannarlega rammíslenskt. 

Lilja Rafney varð þingmaður 2009 þegar Vinstri grænir unnu sinn stærsta kosningasigur fyrr og síðar og hlutu fjórtán menn kjörna. Ég fjallaði talsvert um pólitíkina þau misserin í bók sem út kom 2015 og fékk nafnið Bylting — og hvað svo? Önnur Lilja, Lilja Mósesdóttir, var einn hinna nýju þingmanna sem kjörnir voru 2009. Hún sagði mér meðal annars frá því að sér hefði orðið ljóst skömmu eftir kosningarnar að forysta Vinstri grænna hefði lítinn vilja haft til að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þrátt fyrir fyrirheit þess efnis í „samstarfssamningi“ VG og Samfylkingar, en eins og menn eflaust muna var ágreiningur flokkanna slíkur að ekki var útbúinn neinn „stjórnarsáttmáli“ svo sem vant er. 

Lilja Rafney Magnúsdóttir sat á Alþingi í tólf ár og veit því væntanlega að forysta VG hefur varla nokkurn vilja til að umbylta fiskveiðistjórnunarkerfinu. Seint myndi það líka teljast hetjudáð að segja sig úr deyjandi flokki, verandi hætt þingmennsku og ekki mun hún missa krónu af ágætum lífeyri alþingismanna. Gamli flokkurinn hennar er líka svo gott sem í andaslitrum, Steingrímur J. löngu farinn og nú er Katrín horfin á braut. Lilja Rafney tók kannski bara að sér að kasta rekunum? 

Pólitískur fórnardauði 

Ég heyrði marga spá því að þess yrði ekki langt að bíða að upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði í kjölfar brotthvarfs Katrínar Jakobsdóttur — það væri ekki síst fyrir hennar milligöngu og sáttfýsi að tekist hefði að viðhalda samstarfinu jafnlengi og raun bæri vitni. En þetta hefur farið á annan veg og engu líkara en meiri ró hafi færst yfir pólitíkina eftir forsetakjörið. Mér var bent á að sérlega vel færi á með Bjarna Benediktssyni forsætisráðherra og hinum ókjörna formanni VG, Guðmundi Inga Guðbrandssyni. Einhver orðaði það svo að ósigur Katrínar í forsetakjörinu hefði „tappað af“ stærstum hluta gremjunnar á vinstri vængnum. Hún lagði allt undir, fórnaði sjálfum forsætisráðherrastólnum. Útreiðin sem hún hlaut í forsetakosningunum virðist sem pólitískur „fórnardauði“ svo notuð sé guðfræðileg líking. 

Á dögunum heyrði ég komist svo að orði að framboð Katrínar hefði mátt kenna við „hátignarkomplex“. Í huga almennings hefði hún komið fram sem fulltrúi „valdastéttarinnar“ hvað svo sem það nú merkir en athyglisvert út af fyrir sig að forystumaður róttæks vinstriflokks hafi öðlast slíka ásýnd. Ef til vill erfði Katrín ýmsa eiginleika forvera síns, Steingríms J. Sigfússonar, sem forysta Sjálfstæðisflokksins lyfti til æðstu metorða og gerði að forseta Alþingis, rétt eins og landsdómsmálið hefði aldrei átt sér stað. 

Lilja Mósesdóttir gat þess í viðtali sem ég átti við hana fyrir um áratug að Steingrímur J. hefði á tíma sínum sem fjármálaráðherra talað gjarnan í prédikunartón á þingflokksfundum og stuðst við biblíulegar tilvitnanir. Hún sagði hann hafa á þeim tíma „upplifað sjálfan sig sem frelsara“. Steingrími hafi meðal annars orðið tíðrætt um „göngin“ og „ljósið við enda ganganna“. 

Lognið á undan storminum? 

„Hátignarkomplex“ er eitt en öllu verra að vera haldinn Messíasarkomplex. Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða stendur í Lúkasarguðspjalli. Minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur kom á fót samninganefnd þriggja ráðuneyta sem fékk það hlutverk sem Fjármálaeftirlitinu hafði verið ætlað með neyðarlögunum, en starfandi formaður nefndarinnar sagði orðrétt á fundi nefndarinnar að ríkið vildi „friðþægja kröfuhöfum eins og auðið er“. Þetta átti eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar eins og ég gat um í áðurnefndri bók. Þar segir líka frá manninum sem kvaðst með samningum sínum við Breta og Hollendinga vera „að bera burt syndir heimsins, eins og sagt var um Jesú Krist“. Ýmsir töldu þann hinn sama hyggja á forsetaframboð þegar hann hefði landað „glæsilegri niðurstöðu“ fyrir land og þjóð. Ekkert skal fullyrt um það en útreiðin sem Katrín Jakobsdóttir fékk í nýliðnu forsetakjöri virðist hafa fært ró yfir pólitíkina. Margir munu þó kalla það svikalogn, ellegar lognið á undan storminum. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt

Björn Jón skrifar: Ríkisvaldið hefur seilst alltof langt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Það er hægt að breyta um pólitískan kúrs

Sigmundur Ernir skrifar: Það er hægt að breyta um pólitískan kúrs
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Styrk forysta Bjarna Ben – skýr framtíðarsýn – hyggst draga úr mannréttindabrotum

Svarthöfði skrifar: Styrk forysta Bjarna Ben – skýr framtíðarsýn – hyggst draga úr mannréttindabrotum
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Skóli þarfnast aðgreiningar

Björn Jón skrifar: Skóli þarfnast aðgreiningar
EyjanFastir pennar
02.06.2024

Björn Jón skrifar: Afgerandi úrslit forsetakjörs

Björn Jón skrifar: Afgerandi úrslit forsetakjörs
EyjanFastir pennar
01.06.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Uppsöfnuð hræðsla við skoðanaskipti

Sigmundur Ernir skrifar: Uppsöfnuð hræðsla við skoðanaskipti
EyjanFastir pennar
26.05.2024

Björn Jón skrifar: Endurvekja þarf samræmd próf

Björn Jón skrifar: Endurvekja þarf samræmd próf
EyjanFastir pennar
25.05.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitík í verki

Sigmundur Ernir skrifar: Pólitík í verki