fbpx
Mánudagur 01.júlí 2024
Eyjan

Unnur Anna nýr forseti Heilbrigðisvísindasviðs HÍ

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 28. júní 2024 10:03

Unnur Anna Valdimarsdóttir Mynd: Kristinn Ingvarsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor í faraldsfræði við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur verið ráðin nýr forseti Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands frá 1. júlí nk. Tekur hún við starfinu af Unni Þorsteinsdóttur, eins og segir í tilkynningu frá HÍ.

Unnur Anna lauk BA-prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og doktorsprófi í klínískri faraldsfræði árið 2003 frá Karolinska Institutet í Stokkhólmi. Hún starfaði sem dósent við Læknadeild Háskóla Íslands 2007-2012 og sem prófessor við sömu deild frá árinu 2012. Unnur Anna hefur frá 2013 gegnt stöðu gestaprófessors við Harvard Chan School of Public Health og 2015-2021 gegndi hún stöðu gestaprófessors við Karolinska Institutet. Frá árinu 2022 hefur hún gegnt stöðu rannsakanda (e. senior researcher) við þá stofnun.

Unnur Anna var forstöðukennari þverfræðilegs meistara- og doktorsnáms í lýðheilsuvísindum frá stofnun þess árið 2007 og til ársins 2017. Árin 2013-2017 var Unnur Anna varadeildarforseti Læknadeildar og þá sat hún í Vísinda-og tækniráði 2019-2022. Enn fremur hefur hún leiðbeint á þriðja tug doktorsnema.

Unnur Anna er afar afkastamikill vísindamaður og hefur komið að ritun hátt í 300 vísindagreina sem hafa birst í alþjóðlegum ritrýndum tímaritum. Rannsóknir hennar snúa fyrst og fremst að áhrifum áfalla á þróun langvinnra sjúkdóma. Hún hefur stýrt umfangsmiklum langtímarannsóknum á þessu sviði og má þar nefna rannsóknaverkefnið Áfallasaga kvenna, sem hlaut styrk frá Evrópska rannsóknaráðinu árið 2016, Líðan þjóðar í COVID-19 og alþjóðlega rannsóknarverkefnið COVIDMENT. Í tengslum við rannsóknir sínar hefur Unnur Anna og samstarfsfólk hennar aflað stórra rannsóknarstyrkja hérlendis og erlendis sem samanlagt nema um milljarði króna.

 

Unnur Anna hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir vísindastörf sín, meðal annars Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs árið 2010 og viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Þórðar Harðarsonar og Árna Kristinssonar í læknisfræði og skyldum greinum árið 2017. Hún var valin háskólakona ársins af Félagi háskólakvenna sama ár og þá hlaut Unnur Anna Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til rannsókna á sviði faraldsfræði árið 2023.

 

„Það er einstakur heiður að fá leiða áframhaldandi þróun Heilbrigðisvísindasviðs við Háskóla Íslands næstu árin með öllu því frábæra samstarfsfólki sem þar er. Við höfum náð einstökum árangri í heilbrigðisvísindum og í menntun heilbrigðisstarfsfólks og ég sé mörg tækifæri til þess að gera enn betur með sameiginlegri uppbyggingu rannsóknarinnviða, miðlun vísinda til samfélagsins og framþróun í kennslu og þjálfun í virkri innlendri og alþjóðlegri samvinnu. Ég er full tilhlökkunar að takast á við þetta mikilvæga verkefni,“ segir Unnur Anna Valdimarsdóttir.

 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, býður Unni Önnu innilega velkomna til starfa sem forseti Heilbrigðisvísindasviðs, en forseti stýrir sviðinu í umboði rektors. „Unnur Anna hefur afar metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir Heilbrigðisvísindasvið, mikla reynslu af vísindastörfum, leiðbeiningu rannsóknanema og víðtæka stjórnunarreynslu. Hún hefur því allt til að bera til að vera öflugur talsmaður heilbrigðisvísinda við Háskóla Íslands. Það er mikill fengur að því að fá Unni Önnu í hóp lykilstjórnenda Háskóla Íslands á þeim tímamótum sem fram undan eru í starfi Heilbrigðisvísindasviðs með byggingu nýs heilbrigðisvísindahúss á lóð Landspítalans og mikilli grósku og nýsköpun í kennslu og rannsóknum á sviðinu. Ég hlakka til að vinna með Unni Önnu og óska henni velfarnaðar við að stýra þessu mikilvæga fræðasviði,“ segir Jón Atli.

 

Heilbrigðisvísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands. Innan þess eru sex deildir, Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild, Lyfjafræðideild, Læknadeild, Matvæla- og næringarfræðideild, Sálfræðideild og Tannlæknadeild.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Grace skrifar: Nauðsyn þess að koma á samþættingarstefnu fyrir innflytjendur

Grace skrifar: Nauðsyn þess að koma á samþættingarstefnu fyrir innflytjendur
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson skrifar: V og D á svissneskum vogarskálum

Þorsteinn Pálsson skrifar: V og D á svissneskum vogarskálum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kolbrún lætur mótmælendur heyra það – „Það er ein­fald­lega ansi erfitt að taka mark á fólki sem er alltaf öskr­andi“

Kolbrún lætur mótmælendur heyra það – „Það er ein­fald­lega ansi erfitt að taka mark á fólki sem er alltaf öskr­andi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið