fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
Eyjan

Jón Sigurður skrifar: Að kjósa taktískt

Eyjan
Sunnudaginn 23. júní 2024 13:30

Jón Sigurður Eyjólfsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Einhverjir kynnu að halda að kjósendur væru orðnir kaldir og yfirvegaðir eftir síðustu forsetakosningar þar sem það komst í tísku að kjósa „taktískt“ einsog það var kallað. Það væri alveg öndvert því sem margir af mestu hugsuðum og fræðimönnum heims hafa um málið að segja, einsog til dæmis Steven Pinkers sálfræðingur frá Harvard. Hann er á því að kjósendur hegði sér einsog hjarðvera í leit að góðu fylgilagi og láti ástríðuna ráða en skynsemina í léttu rúmi liggja.

Veljum ekki forystufólk, heldur hóp til að tilheyra

Það er að segja, við erum farin að hegða okkur einsog fótboltabullur frekar en skynsamir kjósendur. Við veljum frambjóðanda rétt einsog stuðningsmenn velja sér lið. Það er að segja, við erum ekki að velja forystufólk í sjálfu sér heldur hóp til að tilheyra. Og þegar mannveran hefur eitt sinn gert upp hug sinn eru staðreyndir og upplýsingar ekkert að fara að hrófla við henni. Ef þú hefur valið KR er alltaf víti í Vesturbænum þegar einn röndóttur dettur í teignum.

Ég er kannski ekki sá harðasti í boltanum en þaðan þekki ég vel þessa „taktík“ sem kjósendur beittu í byrjun mánaðar. Frá því að Eiður Smári gekk í raðir Börsunga hér um árið hef ég verið stuðningsmaður þess liðs. Síðan þá hef ég orðið fyrir miklum ónotum frá fólki sem fylgir Real Madríd að málum. Ekki er heldur loku fyrir það skotið að sjálfur hafi ég gert fólki í slíku hugarþeli grammt í geði í katalónskri sigurgleði minni. Hinsvegar hefur konungsliðið farið með himinskautum undanfarin ár meðan Börsungar berjast í bökkum svo ég hef ekki haft efni á svona áreiti um all langt skeið. Þessi taktík gengur sem sagt útá það að ég óska þess alltaf, af öllu hjarta, að Real Madríd tapi.

Svo rammt kveður að þessari geðshræringu minni að stundum er það mikilvægara, og meira skemmtanagildi í því fólgið, að þeir tapi en að Börsungar vinni. Þeir sem kjósa „taktíkst“ gætu, sem sagt, verið þjáningabræður mínir og systur og kosið af eintómri þórðargleði, sem er kannski ekki hin hollasta ástríða.

Kannski er best að láta bara ástríðuna ráða

Einsog nafni minn Gnarr sagði, þá á forsetinn að vera stemningsmaður. Er því ekki réttast að láta einmitt ástríðuna ráða, fá sér bjór yfir kosningavökunni í þeirri von um að getað glaðst yfir óförum andstæðingsins og samglaðst þeim sem ná að koma honum fyrir kattarnef? Eða eru kannski allir frambjóðendur í öllum kosningum stemningsfólk sem er að veiða fólk í partýið sitt? Það geta auðvitað ekki allir verið í stuðinu, sumir beita fyrir sér hrollvekju og hræða okkur til fylgilags í hrekkjarvöku lífsins. Þetta er bara einsog í bíó, sumir vilja gleyma lífinu yfir góðri gamanmynd meðan aðrir leita á náðir Freddy Krueger. Og ef svo er, hví ekki að veita þessum afþreyingaþjónum okkar vegtyllu sem fengið hefur fólk til að líta uppúr gemsanum eitt augnablik og velta fyrir sér framtíðinni? Það er bara nokkurt þrekvirki og ekki gert á einum brjótarhaldaranum, svo ég noti nú orðfæri spaugsamra Bílddælinga.

En það er mín staðfasta trú að fyrir ofan stjórnmálamennina er til fólk sem ræður hvað sem tautar og raular fyrir neðan. Allavega er ég viss um að fyrirtæki einsog Monsanto, sem nú er reyndar runnið inní Bayern, gæti ekki hagað sér einsog það gerir ef stjórnmálamenn réðu í heimi hér. Það fólk þarf ekki á neinskonar stemningu að halda og það getur leyft sér að hlægja að öllum kosningataktíkum enda kýs það enginn. Svona er nú lífið grátlega einfalt, rétt einsog fótboltinn: Það eru ellefu í hvoru liði og Real Madríd vinnur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þau komust á 40/40 listann fyrir árið 2024

Þau komust á 40/40 listann fyrir árið 2024
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Brynjar hjólar í Flokk fólksins: „Píratar eru bara farnir að líta sæmilega út í þessum samanburði“

Brynjar hjólar í Flokk fólksins: „Píratar eru bara farnir að líta sæmilega út í þessum samanburði“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Kolbrún lætur mótmælendur heyra það – „Það er ein­fald­lega ansi erfitt að taka mark á fólki sem er alltaf öskr­andi“

Kolbrún lætur mótmælendur heyra það – „Það er ein­fald­lega ansi erfitt að taka mark á fólki sem er alltaf öskr­andi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið

Óttar Guðmundsson skrifar: Körfuboltabullið